Norður-Atlantshafsþingið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 15:45:11 (3457)

1996-02-29 15:45:11# 120. lþ. 99.6 fundur 335. mál: #A Norður-Atlantshafsþingið 1995# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[15:45]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu getur Alþingi tekið frumkvæði í hinum ýmsu málum hvenær sem er og það hefur oft gerst í mikilvægum utanríkismálum. Ég sagði áðan að ég myndi ekki eftir því að það hefði verið þetta lífleg umræða um þessi mál. Satt best að segja held ég að ekki einu sinni hafi tíðkast að ráðherrar væru viðstaddir hana eins og ég man eftir í fortíðinni sem er að sjálfsögðu ekki eðlilegt því að hér þarf að fara fram umræða milli þingmanna þingsins og framkvæmdarvaldsins um þessi mikilvægu mál.

En ég vil benda á annan mikilvægan vettvang þingsins í þessu sambandi sem er utanrmn. Þær skýrslur sem hinar einstöku þingmannanefndir gefa eru auðvitað lóð inn í umræðuna sem er hluti af stefnumörkun. Enda þótt hér fari fyrst og fremst fram umræða um frv. og þáltill. er þar líka um stefnumarkandi umræðu að ræða. Ég tel að eins og þingsályktunartillöguformið kemur hér fram sé það form sem gefur kost á margvíslegri stefnumörkun. Það er hins vegar rétt hjá hv. þm. að við höfum ekki notað þetta form með alveg sama hætti og vinir okkar Norðmenn. Sjálfsagt má athuga að taka eitthvað upp eftir þeim í þeim efnum þó við eigum að sjálfsögðu ekki að taka allt upp eftir þeim því að það getum við ekki og það er ekki skynsamlegt. Við þurfum að finna þessu eðlilegan farveg og sá farvegur er fyrir hendi, það vantar ekki. Það vantar e.t.v. meira frumkvæði hvort sem það er af hálfu þingmanna eða ríkisstjórnar.