Norður-Atlantshafsþingið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 15:59:47 (3461)

1996-02-29 15:59:47# 120. lþ. 99.6 fundur 335. mál: #A Norður-Atlantshafsþingið 1995# skýrsl, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[15:59]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. segir að það sé tiltölulega stutt síðan þessi þróun hófst. Það er rétt. Það er líka tiltölulega stutt þangað til henni gæti lokið fyrir þrjár litlar þjóðir við Eystrasaltið. Hv. þm. vísar í 5. gr. NATO-sáttmálans og það er einmitt skjól þeirrar greinar sem þessi þrjú litlu ríki eru að sækja eftir. Ég held, herra forseti, að það væri auðvelt að draga upp þróun sem gæti á næstu missirum gjörbreytt stöðunni, a.m.k. fyrir þau. Vegna smæðar þeirra og lélegra varna, þó að þær séu líka í örri þróun, held ég að þessar þrjár þjóðir séu í miklu erfiðari og verri stöðu en nokkrar aðrar þjóðir ef tiltekin þróun verður í Rússlandi eftir næstu forsetakosningar sem er afskaplega auðvelt að mála upp.

Herra forseti. Ég hef einungis um mjög skamma hríð verið þátttakandi af Íslands hálfu í alþjóðlegum samtökum sem fjalla um öryggi og frið í Evrópu. En það er mín einlæga skoðun eftir að hafa verið eitt ár í þessu starfi að staðan sé nákvæmlega þannig að gagnvart Eystrasaltsríkjunum a.m.k. eru Rússar búnir að ná þeirri stöðu að þeir hafa neitunarvald gagnvart þátttöku þessara þriggja þjóða í Atlantshafsbandalaginu vegna eftirgjafar Evrópuríkjanna. Þjóðir eiga að fá að ráða sinni framtíð sjálfar. Þessar þrjár þjóðir hafa talið að öryggi þeirra verði best borgið með því að þær verði aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Ég segi: Það á að verða við þeim óskum og smáríkið Ísland sem hefur háværa og skerandi rödd á alþjóðavettvangi á að hrópa til stuðnings málstað þessara þjóða.