Evrópuráðsþingið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 16:57:59 (3470)

1996-02-29 16:57:59# 120. lþ. 99.8 fundur 338. mál: #A Evrópuráðsþingið 1995# skýrsl, GHH
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[16:57]

Geir H. Haarde:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka frsm. fyrir hans ágætu og athyglisverðu greinargerð um störf Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins og önnur þau störf sem tekin hafa verið fyrir á liðnu starfsári á þeim vettvangi. Það er ljóst að Evrópuráðsþingið, eins og aðrar þær stofnanir og samtök sem hér eru til umræðu, hefur verið að taka miklum breytingum á undanförnum árum og það er athyglisvert að velta því fyrir sér að á vettvangi Evrópuráðsþingsins og á vettvangi ÖSE-þingsins og að hluta til á vettvangi þings Atlantshafsbandalagsins sitja nú meira og minna sömu þjóðirnar, Rússar eru að vísu ekki með í NATO en þeir eru með í friðarsamstarfsáætluninni. Bandaríkjamenn og Kanadamenn eru auðvitað ekki með í Evrópuráðinu en þeir hafa lagt þar mjög við hlustir eins og fram kom í máli frsm. og eru áhugasamir um að fá tækifæri til að fylgjast þar með. Þetta leiðir hugann að umræðunum fyrr í dag um verkaskiptingu þessara samtaka allra saman og að menn gæti þess að verkefnin skarist ekki.

[17:00]

Sjálft Evrópuráðið er að sjálfsögðu afar merkilegur vettvangur þar sem menn hafa haldið uppi merki mannréttinda um áratuga skeið og fylgt þeim málum eftir til að mynda með þeim hætti sem frsm. vék að. Löndum hefur verið vikið úr samtökunum, í það minnsta einu landi á þessu tímabili, fyrir að hafa ekki staðist prófið að því er varðar mannréttindi. Það úrræði hafa menn auðvitað gagnvart Rússlandi sem nú er orðið aðili að samtökunum. Það er ástæðulaust að deila um hvort sú ákvörðun var rétt eða röng að hleypa Rússum inn í þessi samtök fyrir nokkrum vikum síðan. Það er búið og gert. En úr því að það var gert verða menn að reyna að nota allt það sem Evrópuráðið býður upp á, ekki bara til að hjálpa Rússum að byggja upp lýðræðislegt þjóðfélag sem byggir á virðingu fyrir lýðræði og mannréttindum heldur líka að halda þeim við efnið, veita þeim aðhald til að svo megi verða. Það er vissulega athyglisverð staðreynd sem fram kom m.a. hjá framsögumanni að nú geta nefndir á vegum Evrópuráðsins ferðast um Rússland til að fylgjast með því hvernig á þessum málum er haldið. Ég hef tilhneigingu til að halda að þessi leið sé ekki síður líkleg til að ná þeim árangri að gera Rússland að alvörulýðræðsríki en hin að halda þeim fyrir utan samtök eins og Evrópuráðið.

Í þessu máli verða allir lýðræðissinnaðir menn í hinum vestræna heimi að leggjast á eitt til að tryggja að lýðræði, virðing fyrir mannréttindum, fjölflokkaskipulag og réttarríkið nái öruggri fótfestu í Rússlandi. Það er allt of mikið í húfi ella, m.a. gagnvart því máli sem við hv. þm. Össur Skarphéðinsson ræddum hér fyrr í dag varðandi Eystrasaltslöndin því að við þekkjum þá staðreynd að lýðræðisleg ríki eru miklu ólíklegri til að standa í ófriði en einræðisríkin.

Ég ætla ekki að teygja lopann, herra forseti, en vík að einu atriði sem fram kom í máli framsögumanns, þ.e. sambandinu milli Norðurlandaráðs og Evrópuráðsins. Hann vék að heimsókn minni þangað í sumar þegar ég gegndi störfum forseta Norðurlandaráðs. Hann hafði lög að mæla í því efni. Það er mikilvægt að tengja þessi samtök saman. En það hefur verið gert og forsætisnefndir beggja samtaka hafa hist reglulega nú um nokkurra ára skeið. Ég man eftir slíkum fundum alveg frá 1992 eftir að ég kom til starfa á vettvangi Norðurlandaráðs og svona nokkurn veginn árlega síðan, nú síðast í desember sl. í Kaupmannahöfn, þannig að það er þarna ákveðið samstarf. Umræður eiga sér stað milli þessara aðila og vissulega finnast þingmenn á þingum Norðurlandanna sem starfa á báðum stöðum. Samstarfið er sem sagt formlega fyrir hendi. Ég held að það sé full ástæða til að festa það enn frekar í sessi. Ég tel að vettvangurinn fyrir það sé kominn innan Norðurlandaráðs með því að þar var sett á laggirnar sérstök nefnd um Evrópumálefni sem hefur það meginverkefni að sinna evrópskum málefnum, bæði þeim sem varða Evrópusambandið og stofnanir þess en ekki síður Evrópuráðið og verkefnin sem þar er að finna. Þetta vildi ég að kæmi fram í ljósi þess sem framsögumaður nefndi um þetta atriði.