Evrópuráðsþingið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 17:39:20 (3478)

1996-02-29 17:39:20# 120. lþ. 99.8 fundur 338. mál: #A Evrópuráðsþingið 1995# skýrsl, TIO
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[17:39]

Tómas Ingi Olrich:

Virðulegi forseti. Sá hluti ræðu minnar sem átti að fjalla um umsóknaraðild Rússlands að Evrópuráðinu komst ekki fyrir í fyrri hluta ræðu minnar, en nú stendur til að gera grein fyrir viðhorfum mínum til þess máls. Ég óska eftir því að sá þingmaður sem óskaði sérstaklega eftir því að hlýða á þá umræðu verði kallaður í þingsalinn. --- Ég sé að hann mætir hér og það er mér mikið ánægjuefni að sjá hann kominn til að hlýða á mál mitt.

Í ljósi þeirra atburða sem urðu í Tsjetsjeníu þegar stríð braust þar út var ákveðið að endurskoða umsóknaraðild Rússlands að Evrópuráðinu. Þingið ákvað því á sínum tíma að slá á frest umræðum á vegum þingsins varðandi umsögn þess um aðildarumsókn Rússlands að Evrópuráðinu. Það var hins vegar tekið upp í september í fyrra að leggja til að viðræðum yrði haldið áfram og það var samþykkt þá fyrir jólin að taka þessar viðræður upp. Það lá þá fyrir að óskað hafði verið eftir því að nefndir þingsins fjölluðu um þetta mál hver með sínum hætti. Pólitíska nefndin hafði fjallað um hið pólitíska vægi þessarar umsóknar og var því fylgjandi að mælt yrði með því að Rússland fengi aðild að Evrópuráðinu. Þess var farið á leit við laganefnd Evrópuráðsþingsins að hún gerði athugun á því sérstaklega hvort ástandið í Rússlandi væri með þeim hætti að þeir uppfylltu frá lagalegu sjónarmiði og með tilliti til mannréttinda þau skilyrði sem sett eru fyrir aðild að Evrópuráðinu. Þess verður þó sérstaklega að geta að Evrópuráðið og grundvöllur þess starfs er að tryggja lýðræði og vernda mannréttindi. Stofnskrá ráðsins og sáttmálar lýsa þeim meginreglum og þeim meginskilyrðum sem þarf að uppfylla til að þjóðir geti talist hæfar til að taka þátt í starfi Evrópuráðsins. Það var því að sjálfsögðu mjög mikilvægt að fá svar við því frá sjónarmiði laganefndarinnar, sem fjallar einmitt um lagalegu sjónarmiðin og mannréttindin, hvort Rússland uppfyllti þau skilyrði að geta orðið aðili að Evrópuráðinu. Þegar til umfjöllunar kom á fyrsta hluta Evrópuráðsþingsins eftir áramótin lá fyrir álit laganefndar sem komst að þeirri ótvíræðu niðurstöðu að ekki væri hægt að líta svo á að Rússland væri ríki sem væri byggt á lögum og rétti. Nefndin komst að þeirri formlegu niðurstöðu við erindi því sem henni var fengið að glíma við að Rússland uppfyllti ekki skilyrði um aðild. Það gerðist hins vegar í þessari merkilegu skýrslu að nefndin sem átti að fjalla um þetta á lagalegum grundvelli komst að þeirri pólitísku niðurstöðu að e.t.v. væri þó skynsamlegt að veita Rússum aðild af pólitískum ástæðum.

Það vandamál sem nefndin fjallaði um er flóknara en svo að ég geti gert ítarlega grein fyrir því í mínu máli. Ég ætla þó að minnast á nokkur atriði. Þess ber að geta að í skýrslunni er það viðurkennt að mjög veikar undirstöður réttarríkisins sé grundvallarvandamál í Rússlandi. Ríkið lýtur ekki lögum frá sjónarhóli laganefndarinnar. Á mörgum mikilvægum sviðum réttarfarsins hefur löggjöfin þó verið endurskoðuð og lagatextinn eins og hann lítur út er í mörgum atriðum fullnægjandi. Það er hins vegar viðurkennt að gildandi lög eru ekki framkvæmd. Það liggur fyrir og kemur fram í þessari skýrslu. Lögin eru því óvirk og við þekkjum mjög mörg dæmi um það að til eru fullkomnar stjórnarskrár sem aldrei eru framkvæmdar. Ég minni kannski á það, af því að ég veit að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur mikla þekkingu á því, að stjórnarskrá Sovétríkjanna var mjög fullkomin stjórnarskrá. En henni var ekki beitt mikið til styrktar mannréttindum þótt þar væru mjög athyglisverð ákvæði til styrktar mannréttindum.

[17:45]

Dómstólarnir eru háðir ríkisvaldinu og embættismannakerfinu og það er mjög erfitt að ná fram lagalegum rétti fyrir tilstilli dómstólanna. Ég vík að því sérstaklega vegna þess að þess var getið að nú geta einstaklingar borið mál sín undir mannréttindadómstól Evrópuráðsins, þá er það, því miður, lítils virði ef dómstólarnir í landinu virka ekki. Það er um það rætt í skýrslunni að þess séu dæmi að dómstólar þiggi mútur. Ég ætla ekki að fara nánar út í þá niðurstöðu laganefndarinnar að ekki sé hægt frá lagalegu sjónarmiði og mannréttindasjónarmiði að mæla með aðild Rússa en víkja að hinu að hugsanlega liggi til þess gildar ástæður að gera það á pólitískum grunni. Ef við lítum á hið pólitíska umhverfi þá hefur það verið þannig og hafði verið þannig síðustu missirin áður en þessi ákvörðun var tekin að lýðræðisöflunum í rússneskum stjórnmálum hafði verið vikið mjög skipulega til hliðar. Þau voru gerð með skipulögðum hætti áhrifalaus á rússnesk stjórnmál og átti það jafnt við um innanríkismál og utanríkismál. Að þessu leyti var Boris Jeltsín forseti að láta undan þrýstingi jafnt þjóðernissinna sem kommúnista. Á sama tíma og þetta var var beitt miskunnarlausri hörku í stríðinu í Tsjetsjeníu. Þar var beitt þvílíkri hörku í nánast ótakmörkuðum hernaði gegn skæruliðahópum að varnarlausir óbreyttir borgarar voru drepnir í stórum stíl. Þess ber einnig að geta, og ég hefði viljað koma inn á það einnig, að það hefur hægt á efnahagsþróun í Rússlandi í frjálsræðisátt en efnahagsþróunin hefur mjög bein tengsl við stjórnmálaþróunina og lýðræðisþróunina. Því var hægt að taka á þessu máli með þeim hætti að segja sem svo að við þær aðstæður sem þarna ríktu væri ekki skynsamlegt að samþykkja aðild Rússa að Evrópuráðinu. Í raun og veru snýst ágreiningurinn ekki um það að sá sem hér stendur vilji ekki veita Rússum aðild að Evrópuráðinu og það sjónarmið kom skýrt fram í málflutningi okkar hv. þm. Láru Margrétar Ragnarsdóttur í þessu máli.

Við erum hlynnt því að Rússar fái aðgang að Evrópuráðinu. Hins vegar fannst okkur að þessi tími væri hæpinn til ákvörðunar af þessu tagi og töldum æskilegra að það væri í ljósi þess að komið hefði verið raunverulega til móts við þau atriði sem ég nefndi áðan í löggjöf landsins, í starfi dómstólanna og einnig í starfi stjórnmálaflokkanna í landinu, að sú ákvörðun hefði verið tekin að veita Rússum þá viðurkenningu að hleypa þeim inn í Evrópuráðið þegar aðstæður hefðu ekki verið að þróast í öfuga átt. Því var svarað að það væri gegn hagsmunum lýðræðisaflanna í Rússlandi að hleypa þeim ekki inn. Sú röksemd er reyndar röksemd sem getur komið upp og verið notuð af sama krafti ef til þess kemur að fram komi tillaga um að Rússum verði vísað úr Evrópuráðinu vegna tímabundinnar þróunar þar á bæ. Þá munu öll þessi rök verða aftur í gildi í þeirri umræðu svo ég taki það sérstaklega fram.

Þá vaknar sú spurning hvort ákvörðunin um að samþykkja aðild Rússlands að Evrópuráðinu hafi skipt sköpum í þessu máli. Það var mjög merkilegt að á þingi Evrópuráðsins var afar lítið rætt um það sem skipti þó sköpum um þróun lýðræðisins og hefur beinlínis grafið undan þróun lýðræðisaflanna, grafið undan stöðu lýðræðisaflanna í Rússlandi en það er efnahagsþróunin. Það var afar lítið komið inn á þessi atriði þegar umræðan stóð um það hvort mæla ætti með aðild Rússlands að Evrópuráðinu. Og hver er þróunin í efnahagsmálunum? Það kom fram daginn eftir þegar einmitt var fjallað um efnahagsástandið í Rússlandi, Hvíta-Rússlandi og Úkraínu í ítarlegri skýrslu efnahagsnefndar Evrópuráðsþingsins að efnahagsástandið hefur stöðugt versnað í þessum ríkjum. Og hvers vegna hefur það m.a. versnað? Það hefur versnað m.a. vegna þess að Evrópusambandsríkin hafa reist viðskiptamúra gegn Rússlandi, Hvíta-Rússlandi og Úkraínu.

Á sama tíma og margir þingmenn Evrópusambandsríkjanna töluðu fjálglega um það að þeir væru á þessu augnabliki að taka ákvörðun sem skipti sköpum fyrir Rússland og lýðræðisþróunina þá kom í ljós í skýrslunni að viðskiptastefna Evrópusambandsins hefur haft úrslitaáhrif á efnahagsþróunina í þessum ríkjum og hefur grafið undan lýðræðisöflunum í landinu. Það fer því ekkert á milli mála að í mínum augum var þarna verið að ræða um aðild Rússlands að Evrópuráðinu sem skipti miklu minna máli en stefna Evróupsambandsins í viðskiptamálum og sú einangrun sem þessi ríki hafa orðið að sætta sig við og sú voveiflega þróun efnahagsmála sem hefur í raun og veru grafið undan lýðræðisöflunum í Rússlandi. Þess vegna lít ég svo á að af hálfu Evrópusambandsríkjanna hafi verið iðkuð yfirborðskennd stjórnmálastefna gagnvart þessum ríkjum. Það hefði verið heiðarlegra af þeim að opna meira á möguleika þessara ríkja til að skipta við Evrópusambandið á sviði þeirra vöruflokka þar sem þeir geta stundað viðskipti við Evrópusambandið en einmitt á því sviði hefur Evrópusambandið verið einna harkalegast í afstöðu sinni við Rússa, Úkraínumenn og Hvít-Rússa. Þarna er um ákveðinn tvískinnung að ræða sem ég held að eigi að taka til umfjöllunar í þessu sambandi.

Þess vegna undirstrika ég að þetta mál orkaði mjög tvímælis og í flestum sendinefndum voru mjög skiptar skoðanir um þessi mál. Það kom m.a. fram á sérstakri ráðstefnu hægri manna og kristilegra demókrata að miklar efasemdir voru uppi í sendinefnd Frakka á Evrópuráðsþinginu um það hvort ætti að samþykkja aðild Rússa. Hins vegar var þrýst á það af miklum krafti af framkvæmdarvaldinu að aðildin yrði samþykkt og allir þeir þingmenn Frakklands, sem höfðu áður lýst því yfir að þeir væru andsnúnir aðildinni á þessum tímapunkti, sneru við blaðinu og greiddu aðildinni atkvæði.

Ég held því að þegar upp er staðið sé það ljóst að þarna var um mikið álitamál að ræða. Deilan snerist ekki um það hvort ætti að veita Rússum aðild að Evrópuráðinu eða ekki heldur snerist hún um það hvort þær aðstæður hefðu verið fyrir hendi að það væri skynsamlegt á þessu augnabliki og ég taldi að svo væri ekki. Þess vegna greiddi ég atkvæði gegn þessu og hef ekki breytt um skoðun á því máli hér og nú.

Virðulegi forseti. Ég vil í lokin koma að því sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði þegar hann spurði hvort það væri ekki slæm ásýnd að menn hafi mismunandi skoðanir á málefnum og noti lýðræðislegan rétt sinn til þess að tjá skoðun sína. Er þá ásýnd lýðræðisins slæm, hv. þm.? Er þá ásýnd lýðræðisins þegar menn hafa skiptar skoðanir að þeir hafi yfirbragð sundurlausrar hænsnahjarðar?