VES-þingið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 18:59:29 (3491)

1996-02-29 18:59:29# 120. lþ. 99.9 fundur 339. mál: #A VES-þingið 1995# skýrsl, ÓRG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[18:59]

Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kann að vera hógværð hv. þm. að telja ekki að ein af ástæðunum fyrir því að sendinefnd Íslands mun vera eina sendinefnd norrænna ríkja sem lætur eitthvað að sér kveða á þessum vettvangi sé vösk framganga einstakra nefndarmanna í störfum þingsins. Hana þekkjum við náttúrlega úr þingsal á Alþingi og höfum kannski í þessum efnum gert að ákveðinni útflutningsvöru. En það mátti heyra á hinni merku ræðu sir Dudleys Smith sem hann hélt í boði forseta Alþingis að hin íslenska sendinefnd vakti greinilega mikla athygli á þinginu.

[19:00]

Hins vegar vil ég beina þeim tilmælum til nefndarinnar að í næstu skýrslu verði kafli um afstöðu og framgöngu hinna norrænu ríkja í starfi Vestur-Evrópusambandsins. Ég held að það væri mjög fróðlegt fyrir okkur þingmenn að fá nánari lýsingu á því, hvaða röksemdir liggja að baki mismunandi afstöðu norrænna ríkja til Vestur-Evrópusambandsins og hver málflutningur þingmanna frá hinum norrænu ríkjunum er á þessum vettvangi. Mér finnst t.d. mjög fróðlegt að heyra það hér að þingmenn Dana skuli yfirleitt ekki taka þátt í umræðum á þessum vettvangi. (GHH: Þeir eru bara hlustendur.) Ég held að þeir hafi rétt til að taka til máls, hv. þm. Geir Haarde, án þess að ég kunni að skýra það betur. Ég kem hér á framfæri þeirri ósk hér að í næstu skýrslu verði hugað að því að hafa kafla um hin norrænu ríki á vettvangi samstarfs um öryggismál í álfunni.