Flugmálaáætlun 1996--1999

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 14:01:51 (3501)

1996-03-05 14:01:51# 120. lþ. 100.4 fundur 365. mál: #A flugmálaáætlun 1996--1999# þál. 13/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[14:01]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Mér þótti margt athyglisvert í ræðu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar. Í fyrsta lagi er ekki rétt að gert hafi verið ráð fyrir því að skera niður fé til flugmála um nær 50% og hygg ég að þingmaður hafi þar mismælt sig og ætlað að tala um að gert hafi verið ráð fyrir að skera niður fjárveitingar til flugvalla samkvæmt flugmálaáætlun um nær 50% sem er annað. En eins og fram kemur hér í þeirri flugmálaáætlun sem lögð er fram er sá heildarniðurskurður eftir að tekjuþátturinn hefur verið endurskoðaður miklum mun minni eða um 60 millj. kr. á þessu ári, úr 395 í 332, og 20 millj. kr. á næstu árum. Það er líka rangt hjá hv. þm. þegar hann var að reyna að gefa það í skyn að fjárveitingar til Austurlands minnki samkvæmt hinni nýju flugmálaáætlun miðað við þá sem í gildi er. Það er ekki rétt. Ef við tökum Austfjarðaflugvellina sem heild er það ekki rétt.

Ég vildi gjarnan að hv. þm. upplýsti betur hvað hann ætti við með því að ég hafi ráðstafað hinu fundna fé fram hjá Alþingi og úti í bæ. Samkvæmt þeirri flugmálaáætlun sem er í gildi er gert ráð fyrir að til Akureyrar renni 75 millj. kr., samkvæmt þeirri flugmálaáætlun sem liggur frammi er gert ráð fyrir að á þessu ári renni til Akureyrarflugvallar 66 millj. kr. eða niðurskurður um 9 millj. kr. Á sama tíma og þetta liggur fyrir er verið að gefa í skyn bæði með óljósum orðum hér áðan og eins í þessum ræðustól áður af flokksbræðrum hv. þm. að ég sérstaklega verið að hygla Akureyri. Það sjá auðvitað allir að þetta er gripið úr lausu lofti.