Flugmálaáætlun 1996--1999

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 14:06:36 (3503)

1996-03-05 14:06:36# 120. lþ. 100.4 fundur 365. mál: #A flugmálaáætlun 1996--1999# þál. 13/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[14:06]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Það kom fram hjá hv. þm. að honum er gjarnt að ætla mönnum hið versta. Þetta mál er þannig vaxið að fulltrúar á vegum embættis Flugmálastjórnar fóru norður til Akureyrar og kynntu þar fyrir fulltrúum, m.a. Akureyrarbæjar, hvernig horfur væru í sambandi við flugmálaáætlun út frá þeim forsendum sem lágu fyrir þegar fjárlög höfðu verið samþykkt. Samkvæmt hugmyndum embættismanna Flugmálastjórnar var fyrirsjáanlegt að til mikils niðurskurðar kæmi á þeim framkvæmdum sem höfðu verið fyrirhugaðar á Akureyri. Þegar þar var komið sögu að kjördæmaráðsfundur var haldinn á Akureyri hafði verið haldinn fundur í flugráði og þá höfðu verið endurskoðaðar þær tekjuspár sem liggja til grundvallar flugmálaáætlun. Þá kom í ljós að niðurskurðurinn yrði miklu minni en áður hafði verið ætlað. Auðvitað voru ekki uppi hugmyndir af minni hálfu eða annarra til þess að gjörbreyta þeim áhersluatriðum sem áður höfðu verið né til þess að hætta við hálfkaraðar framkvæmdir. Þetta er allt og sumt. Þó einhver bæjarfulltrúi á Akureyri spyrji mig út í flugmálaáætlun er vani að maður reyni að svara líka þó á flokksfundum sé þegar maður reynir það á opinberum almennum fundum. Mér finnst hins vegar mjög merkilegt eftir að málið er allt komið í ljós að hv. þm. skuli halda áfram að dylgja með hið fyrra að ég hafi ætlað mér að hlífa Akureyri sérstaklega við niðurskurðinum ef til hans kæmi. Það er algjörlega úr lausu lofti gripið. Ef samgn. óskar þess að fá þær hugmyndir sem ég hafði uppi um niðurskurð á Akureyri sérstaklega er mér mjög ljúft að láta þær í té. Þær lágu fyrir og pólitískum fulltrúum á Akureyri var skýrt frá þeim hugmyndum. Það er ekkert að fela í því og blátt áfram undarlegt að það skuli vera verið að dylgja um þessi mál.