Flugmálaáætlun 1996--1999

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 14:19:03 (3508)

1996-03-05 14:19:03# 120. lþ. 100.4 fundur 365. mál: #A flugmálaáætlun 1996--1999# þál. 13/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[14:19]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég hlýt að vona að Norðlendingar og sérstaklega Akureyringar fylgist mjög glöggt með þessari umræðu jafnskýrt og það kemur fram hversu mikill kjördæmapotari ég er og hversu ég held mínum málum fram fyrir norðan og er að því leyti verðugur fulltrúi míns kjördæmis.

En ef maður talar um þetta í alvöru, hefur ástandið verið þannig undanfarin fjögur til fimm ár að nauðsynlegt var að gera það upp við sig hvort þyngri áhersla yrði lögð á að byggja hér nýjan varaflugvöll fyrir millilandaflugið eða byggja upp Reykjavíkurflugvöll, hvort skyldi hafa forgang. Það var ákvörðun Alþingis á sínum tíma að láta alþjóðlegan flugvöll á Egilsstöðum, varaflugvöll á Egilsstöðum, sitja fyrir. Eins og ég sagði áðan kostar hann rúman milljarð ef allt er með talið. Ég er ekki með þær tölur nákvæmlega hjá mér.

Jafnframt var tekin ákvörðun um að hlutur Íslands í alþjóðlegu flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík yrði greiddur af flugmálaáætlun. Auk þess lá fyrir að Egilsstaðaflugvöllur, Húsavíkurflugvöllur, Siglufjarðarflugvöllur, Sauðárkróksflugvöllur og ýmsir aðrir flugvellir höfðu verið illa undir byggðir og var óhjákvæmilegt að endurbyggja þá til þess að unnt væri að halda uppi innanlandsflugi. Þetta er ástæðan fyrir því að það hefur dregist að ráðast í endurbætur á Reykjavíkurflugvelli. Auðvitað má eftir á að segja að við hefðum átt að láta Reykjavíkurflugvöll sitja fyrir og Vopnafjarðarflugvöll bíða. Það er auðvelt að segja það. Ég geri ekki ráð fyrir að menn nenni að berjast mikið fyrir Egilsstaðaflugvelli héðan af. Það yrði því fátt um varnir þótt slíkum sjónarmiðum væri haldið fram eftir á að snúa við hlutunum.