Reynslusveitarfélög

Miðvikudaginn 10. apríl 1996, kl. 18:21:27 (4519)

1996-04-10 18:21:27# 120. lþ. 115.6 fundur 390. mál: #A reynslusveitarfélög# (félagslegar íbúðir, atvinnuleysistryggingar) frv. 78/1996, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[18:21]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er kannski fullyfirgripsmikið til þess að gefa viðhlítandi svör í stuttu andsvari. Ég ætla þó að freista þess áður en lengra er haldið.

Varðandi tilvitnuð ummæli úr Alþingistíðindum frá umræðunum um reynslusveitarfélög, hef ég orðið mér úti um þingskjölin frá þeirri afgreiðslu á 117. löggjafarþingi. Meiri hluti félmn. kom þá með brtt. sem orðaðist svo:

,,Félagsmálaráðherra skal enn fremur hlutast til um að árlega verði lagðar fram á Alþingi skýrslur verkefnisstjórnar um framkvæmd verkefnisins. Fyrsta skýrslan verði lögð fram á Alþingi vorið 1995 og sú síðasta vorið 2001.``

Ég ímynda mér án þess að ég hafi vissu fyrir því að hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir hafi átt við þessa skýrslugerð. Það er ekki hugmyndin að bera hvern einstakan samning undir Alþingi á hverjum tíma, enda væri það óvinnandi verk eða tímafrekt ef allt gengi upp sem á prjónunum er.

Varðandi þetta litla frv. og hin atriðin sem ræðumaður gerði að umræðuefni er rétt að taka fram að samningarnir eru ekki fullgerðir og enginn af þessum samningum undirskrifaður. Það er unnið að þeim en fyrir þeirri heimild að ráðherra sé í því sambandi heimilt að víkja frá ákvæðum um kaupskyldu og forkaupsrétt á félagslegum íbúðum í reynslusveitarfélögum þar sem einstaklingum er veitt lán úr Byggingarsjóði verkamanna til að kaupa eða byggja íbúðir á almennum markaði þarf að vera lagastoð til þess að hægt sé að gera samninginn. Þess vegna er ég að flytja þetta frv. Sveitarfélögin hafa áhuga á að prófa þessa leið og það er þeirra val. Það er ekki það að ég hafi þröngvað þessu upp á þau. Ég hef að vísu verið fylgjandi þessari hugmynd og látið í ljósi von um að hún yrði skoðuð og könnuð. Þess vegna fagna ég því að þetta er komið á þennan rekspöl.

Varðandi það af hverju á annað borð er verið að blanda sveitarfélögunum inn í þetta er því til að svara að hér er um félagslega aðgerð að ræða. Veðsetning er miklu hærri, það eru veitt lán upp á 90% en ekki 70% eða 65% eins og Húsnæðisstofnun gerir. Ef Húsnæðisstofnun eða Byggingarsjóðurinn ættu að bera veðið, væri þar um mismun að ræða á veðmöguleikum.