Reynslusveitarfélög

Miðvikudaginn 10. apríl 1996, kl. 18:24:35 (4520)

1996-04-10 18:24:35# 120. lþ. 115.6 fundur 390. mál: #A reynslusveitarfélög# (félagslegar íbúðir, atvinnuleysistryggingar) frv. 78/1996, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[18:24]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. svörin að svo miklu leyti sem hann gat komið þeim til skila á þessum stutta tíma. Ég tek það svo að það hafi þá verið misskilningur hjá hv. þm. Ingibjörgu Pálmadóttur að fagnefndirnar, eins og hún segir í sinni ræðu, ættu að fá að fara yfir hvern samning. Hér er þá einungis um að ræða þær skýrslur sem fram koma í lögunum og við munum væntanlega sjá á Alþingi.

Hæstv. ráðherra vék að því síðast að hér væri um félagslegt úrræði að ræða. Vissulega er það svo. Það ber allt merki þess. Við erum að tala um sömu lánaskilmála og eru á félagslega íbúðakerfinu. En spurningin er: Hvernig koma sveitarfélögin að þessu öðruvísi en að bera ábyrgð á viðskiptum aðila úti í bæ? Hvernig koma þau að því með öðrum hætti? Ef þetta er félagsleg aðgerð og sveitarfélögin eiga þess vegna að bera ábyrgðina finnst mér vanta ákvæði um atbeina þeirra að málinu að öðru leyti, þ.e. mér finnst að við séum þarna á þeim villigötum að heimila viðskipti aðila á markaðnum með ábyrgð þriðja aðila. Ég er 100% viss um, og ég veit að ég er ekki ein um þá skoðun, að slík viðskipti eru ekki æskileg og geta aldrei verið alveg eðlileg. Það væri því gott ef ráðherrann gæti útskýrt örlítið betur hvernig sveitarfélögin að öðru leyti eiga að koma að málinu. Það er ekki nógu skýrt í textanum.