Greiðsla kostnaðar við lækningaferðir psoriasissjúklinga

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 13:47:51 (4872)

1996-04-17 13:47:51# 120. lþ. 120.2 fundur 328. mál: #A greiðsla kostnaðar við lækningaferðir psoriasissjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[13:47]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. fyrirspyrjanda að þessar ferðir psoriasissjúklinga til Kanaríeyja hafa verið á margan hátt árangursríkar, en það er einnig rétt hjá hæstv. heilbrrh. að það hafa komið ýmis úrræði fyrir þessa sjúklinga hér á landi sem full ástæða er til að nýta sér. Tryggingastofnun greiðir einnig fyrir ferðir þó svo að þessar ferðir psoriasissjúklinga séu lagðar af. Það hefur verið kannað hvaða árangur Bláa lónið gefur og það hefur komið vel út þó svo það sé kannski ekki alveg fyrir alla og því e.t.v. þörf fyrir þennan möguleika. En mig langar til að benda á eitt: Það er að fara af stað rannsókn á því hver árangurinn hefur verið hjá þeim sjúklingum sem hafa farið til Kanaríeyja og hversu mikill kostnaður hefur verið fyrir hvern sjúkling. Til samanburðar verða athugaðir þeir sjúklingar sem fengu synjun á ferðum, því það hefur verið um það bil helmingur þeirra sem sóttu sem hafa fengið synjun, hversu mikill árangur eða bati hefur verið fyrir þá og hversu mikill kostnaður. Ég tel rétt að þegar niðurstaða er komin af þeirri rannsókn sem er að fara af stað nú undir yfirumsjón Jóns Hjaltalíns Ólafssonar húðsjúkdómalæknis og fleiri, þá verði í ljósi niðurstöðunnar metið hvaða leið skuli farin og hvort þessar ferðir skuli greiddar. Þegar menn standa frammi fyrir því að þurfa að forgangsraða í heilbrigðisþjónustunni, þá verða menn að skoða hlutina og kanna hver er hagkvæmasti kosturinn, hvað gefur mestan árangur og síðan að vega og meta hvaða leiðir eru farnar í lækningaskyni.