Neyðarhjálp vegna fátæktar

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 14:48:47 (4894)

1996-04-17 14:48:47# 120. lþ. 120.7 fundur 370. mál: #A neyðarhjálp vegna fátæktar# fsp. (til munnl.) frá félmrh., PHB
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[14:48]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda þessa fyrirspurn sem vekur athygli á mjög brýnum vanda. Nú er það þannig að fátækt er vissulega afstæð. Það sem kallað er ríkidæmi í Indónesíu er fátækt á Íslandi. Það sem kallað var ríkidæmi fyrir 100 árum á Íslandi er fátækt í dag þannig að fátækt er afstæð í tíma og rúmi.

Ég er sammála því að laun ættu að vera miklu hærri á Íslandi og til þess þurfum við að örva atvinnulífið. Við þurfum að keyra atvinnulífið áfram með því að auka fjárfestingu í atvinnulífinu. Það er brýnasta verkefnið. Við þurfum að auka atvinnuna því mikið af þessari fátækt sem við upplifum í dag er vegna atvinnuleysis og vegna þess að fólkið fær ekki peningana í launaumslaginu.