Málefni einhverfra

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 14:55:56 (4897)

1996-04-17 14:55:56# 120. lþ. 120.8 fundur 419. mál: #A málefni einhverfra# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[14:55]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það er ekki lengra síðan en í morgun að til viðtals við mig komu foreldrar þriggja barna sem eiga við þessa erfiðleika að stríða og gerðu mér grein fyrir aðstæðum sínum og barna sinna. Ég vil láta það koma fram að þetta fólk hefur alla mína samúð.

Fyrrv. félmrh., Rannveig Guðmundsdóttir, skipaði í febrúar 1995 sjö manna nefnd til að gera tillögur um framtíðarskipulag þjónustu við einhverfa. Nefndin skilaði tillögum og greinargerð til félmrn. í janúar 1996, þar sem meðal annars eftirfarandi niðurstöður koma fram:

Það varð niðurstaða nefndarinnar að hún hefði ekki aðstæður til að gera nákvæmar tillögur um framkvæmd einstakra þátta í uppbyggingu þjónustu við einhverfa né um umfang hennar. Þess í stað er lögð áhersla á að tryggt sé að stöðugt sé fylgst með þörfum einhverfra og uppbygging þjónustunnar haldist í hendur við þarfir einhverfra á hverjum tíma. Þetta sé gert með því að fella uppbyggingu þjónustunnar og rekstur núverandi stofnana að þjónustukerfi fatlaðra jafnframt því sem tryggt sé að þjónustan sé í boði sem miðast við sértækar þarfir þeirra. Auk þess er lagt til að stofnað sé fagteymi með sérþekkingu á greiningu og meðferð einhverfu sem fylgist náið með þjónustu við einhverfa einstaklinga og tryggði jafnframt að stöðugt sé aflað og dreift nýrri þekkingu á þessu sviði. Einnig var lögð áhersla á samráð við aðstandendur einhverfra og félagsskap þeirra, svo og við fræðsluyfirvöld. Með stofnun slíks fagteymis og með því að byggja þjónustu við einhverfa innan þjónustukerfis fatlaðra telur nefndin að málum þeirra verði best komið fyrir til framtíðar.

Í öðru lagi er í tillögum nefndarinnar lagt til að fagteymi verði starfandi á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins eða barna- og unglingageðdeild og að félmrn. efni til viðræðna við heilbr.- og trmrn. um það hvernig þessu verður fyrir komið og nauðsynlegt starfslið verði tryggt til viðbótar því starfsliði sem nú sinnir þessu verkefni. Félmrn. mun á næstunni efna til viðræðna við heilbr.- og trmrn. um ákvörðun í þessu máli og verður það fyrsta skrefið sem stigið verður á grundvelli tillagna nefndarinnar.

Í tillögum nefndarinnar er lagt til að félmrn. efni til viðræðna við menntmrn. og fræðsluyfirvöld um skipulagningu á framkvæmd þjónustu skólakerfis við einhverfa og um hlutverk fagteymis einhverfra gagnvart fræðslukerfinu.

Varðandi fjórðu spurninguna hefur ráðuneytið ákveðið að skýrslan verði til afhendingar í ráðuneytinu fyrir þá sem hafa áhuga á því að kynna sér efni hennar og hefur hún þegar verið afhent nokkrum aðilum. Að vísu urðu nokkur mistök þar sem gölluð eintök eða eintak sem ekki var lokaskýrsla voru afhent í tveimur tilfellum fyrir mistök og ber að harma það, en þeir eru búnir að fá í hendur rétt eintök núna eða eru að fá þau.

Ég vil láta þess getið að fyrir dyrum stendur endurskoðun á lögunum um málefni fatlaðra og nefnd er komin til starfa að því verki og það er eðlilegt að hún taki á og kynni sér skýrslu nefndarinnar og hafi hana til hliðsjónar þegar fjallað verður um einstaka fötlunarhópa.