Framleiðsla rafmagns með olíu

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 15:29:56 (4908)

1996-04-17 15:29:56# 120. lþ. 120.10 fundur 414. mál: #A framleiðsla rafmagns með olíu# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi PHB
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[15:29]

Fyrirspyrjandi (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. upplýsingarnar sem varpa ljósi á það að þessi notkun á olíu er nokkuð lítil, en engu að síður er hún þannig að mér er tjáð að það sé nokkuð ódýrara að framleiða rafmagn með olíu, þ.e. með hagkvæmustu olíustöðvunum, heldur en verðið sem gefið er upp núna 8,8 kr. á kwst. Svo maður tali ekki um þegar það er búið að fara í gegnum Rarik og er komið upp í 9,6 þannig að það virðist enn mega gera betur í þessum efnum.

Hins vegar verður að benda á að um leið og fer að kreppa að, þegar við förum að fullnýta Blönduvirkjun og förum að stefna að nýrri virkjun, þá þurfum við að sjálfsögðu að vera tilbúnir til þess að framleiða meira með olíu.

En ég vil endurtaka þakkir mínar til hæstv. ráðherra fyrir upplýsingarnar.