Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 1996, kl. 11:08:49 (4946)

1996-04-18 11:08:49# 120. lþ. 122.3 fundur 428. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtatekjur) frv., 429. mál: #A staðgreiðsla skatts af vaxtatekjum# frv., ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[11:08]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Hv. 15. þm. Reykv. sagði í ræðu hér á undan að ég hefði sagt að Alþfl. eða fulltrúi Alþfl. hefði haft uppi óheiðarleg vinnubrögð í nefndinni. Ég komst reyndar ekki þannig að orði í ræðu minni í gærkvöldi heldur orðaði ég það svo að formennirnir hefðu þvingað fulltrúa sína í nefndinni til að ganga á bak orða sinna varðandi stuðning við frv. Það er auðvitað hárrétt hjá hv. þm. að það að ganga á bak orða sinna eru óheiðarleg vinnubrögð. Það vill nefnilega þannig til að í þessari bókun, sem svo títt hefur verið vitnað í, lýsa þeir sem undir hana skrifa, og þar á meðal hv. varaformaður Alþfl., því yfir að þeir muni styðja frv. að frágengnum brtt. Það kemur ekkert fram um að þeir ætli sér að styðja annað frv. En hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson lýsti því einmitt yfir í fyrradag að hann mundi styðja frv. formanna stjórnarandstöðuflokkanna. Eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson hlýtur að vita, ég veit að hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson veit það, þá styður maður ekki bæði liðin í íþróttaleik. Maður styður annað hvort liðið. (Gripið fram í: Ekki í forsetaframboði.) Það er sama hvar það er, ef tveir aðilar keppa styður maður ekki báða aðila, maður styður annan hvorn ef maður á annað borð tekur einhverja afstöðu. En það sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson lýsti yfir hér í fyrradag var að hann styddi frv. þingflokks formanna stjórnarandstöðuflokkanna. Það þýðir einfaldlega að hann styður ekki það frv. sem hann sjálfur tók þátt í að semja og lýsti yfir stuðningi við.