Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 1996, kl. 11:11:20 (4947)

1996-04-18 11:11:20# 120. lþ. 122.3 fundur 428. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtatekjur) frv., 429. mál: #A staðgreiðsla skatts af vaxtatekjum# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[11:11]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að leggja hv. þm. Árna M. Mathiesen orð í munn. Hafi hann ekki tekið svo til orða að þarna hafi verið um óheiðarleg vinnubrögð að ræða bið ég hann velvirðingar á því. Mér fannst hann hafa sagt þetta í hita umræðunnar en kannski var það ég sem lagði merkinguna í það sem hann sagði. Herra forseti, a.m.k. hefur það komið fram af hálfu tveggja ef ekki þriggja talsmanna stjórnarandstöðunnar að starfið í þessari nefnd gerði það alls ekki að verkum að flokkarnir væru bundnir. Það kemur líka fram, svo ég lesi upp aftur fyrir hv. þm. Árna M. Mathiesen, að þeir sem sátu í nefndinni töldu að þetta væri verulega gölluð vinna. Það kemur hér fram að aðferðin í frv. stjórnarliða, þ.e. hið tvískipta tekjuskattskerfi, leiði til mismununar og óréttlætis. Það er talað um að leiðin sem farin sé sé að mörgu leyti gölluð og menn tala um að ef svo færi að hún yrði að veruleika þá verði það aðeins til bráðabirgða og gildi einungis skamma hríð. Síðan er lagst gegn þeirri aðferð sem beitt er varðandi frítekjur og hins vegar lagst gegn því að lækka skatthlutfall á arðgreiðslur. Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir, fulltrúi Kvennalistans, skammaðist yfir því í gær að fá ekki að horfa á Bráðavaktina í sjónvarpinu en þegar þeim geðsveiflum öllum var lokið sagði hún að í hjarta sínu væri frv. stjórnarandstöðunnar nær skoðunum Kvennalistans en það sem hér liggur fyrir. Ég held því að það sé alveg ljóst þegar upp er staðið og þetta er allt saman skoðað að stjórnarandstaðan er algjörlega ósammála meginþunganum í þessu. En látum það nú vera. Hér eru komnar fram verulegar breytingar, þ.e. þær eru komnar fram í öðru frumvarpsformi. Erum við þá ekki bara að deila um keisarans skegg? Það kemur hér fram að nefndarmenn ætluðu sér að flytja róttækar brtt. Það hefur gerst.