Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 1996, kl. 12:28:22 (4965)

1996-04-18 12:28:22# 120. lþ. 122.3 fundur 428. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtatekjur) frv., 429. mál: #A staðgreiðsla skatts af vaxtatekjum# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[12:28]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta hefur um margt verið athyglisverð umræða og óvenjuleg enda nokkuð sérstök staða uppi í þessu máli. Eru þó ekki allir þeir undirstraumar að mínu mati sem bak við málið liggja uppi á yfirborðinu í umræðunni. Ég kem kannski aðeins að því síðar undir lok ræðu minnar, herra forseti, ef tíminn leyfir að fara aðeins ofan í djúpsálarfræðina á bak við þetta mál. Hún á sér reyndar orðið alllangan aðdraganda og allmikla sögu í íslenskum stjórnmálum þessi mikla umræða um fjármagnstekjuskatt. Þetta hefur verið baráttumál mitt og míns flokks lengi.

Lengi var það okkar hlutskipti að vera tiltölulega einir boðberar þess að það væri óþolandi mismunun að tekjur, sem fólk hefði jafnvel í stórum stíl vegna þess að peningar væru að ávaxtast eða pappírar og skjöl lægju einhvers staðar í skúffum og tækju á sig rentur, væru með öllu skattfrjálsar á sama tíma og skattpíning almennings sem vinnur hörðum höndum fyrir sínum launum er umtalsverð. Þar er ekki verið að tala um nettóskatta eða einhverjar lágar prósentur heldur eru nánast allar tekjur launamanna skattlagðar án tillits til þess kostnaðar sem þeir hafa af því að reyna að framfleyta sér.

[12:30]

Að mínu mati hefði samræmingin þess vegna fyrst og fremst átt að snúa að því að samræma skattalega meðferð tekna. Ég skrifa ekki upp á það sem ég heyri æ oftar í umræðunum um þetta mál að aðalsamræmingarverkefnið í þessu sambandi sé að samræma innbyrðis skattlagningu vaxta eða arðs en ekki að samræma skattlagningu tekna, hvernig sem þær verða til. Á þessu tvennu er grundvallarmunur. Ef menn nálgast þetta frá fyrra markmiðinu, því sem ég tala fyrir, þá er að sjálfsögðu eðlileg nálgun að sú samræming fari fram í hinu almenna tekjuskattskerfi en það sé ekki búið til annað skattkerfi fyrir tekjur sem verða til með öðrum hætti en þeim að menn vinni fyrir þeim með hug eða höndum.

Það er annað sem mikið er rætt um í þessu sambandi og oft kemur upp í umræðum um skattamál. Það er spurningin um einfaldleika versus réttlæti. Á köflum gerast ýmsir ákafir talsmenn hinna einföldu aðferða í skattamálum og telja að þær verði þegar upp er staðið alltaf bestar. Ég gat ekki betur heyrt en formaður Framsfl., hæstv. utanrrh., væri mjög í þeim ham í gærkvöldi. Það hefur hann ekki alltaf verið. Við þekkjum þessi rök um einfaldleikann versus réttlætið líka úr hinni langvinnu umræðu um matarskatt sem hér var lítillega rifjuð upp í gærkvöldi og fór fram á Alþingi veturinn 1987--1988. Staðreyndin er sú að það hefur engin þjóð sem ég þekki til treyst sér til þess að velja annaðhvort eða í þessum efnum, einfaldleikann eða réttlætið að svo miklu leyti sem slíkt er ekki samrýmanlegt í skattkerfinu. Niðurstaðan er nánast án undantekninga blönduð leið þar sem menn reyna auðvitað að hafa leikreglurnar tiltölulega einfaldar og skýrar. En menn viðurkenna að til þess að ná öðrum markmiðum fram verður oft að velja að einhverju leyti flóknari leiðir. Og hver eru þessu önnur markmið? Það eru auðvitað fyrst og fremst markmið um að skattkerfið sé sanngjarnt og réttlátt og það hafi eftir atvikum í sér frekar tekjujafnandi áhrif í samfélaginu heldur en öfugt.

Ef við aðeins stöldum við þessar tvær mismunandi útfærslur sem eru á borðum þingmanna nú, þ.e. annars vegar stjfrv. og hins vegar frv. formanna þriggja stjórnarandstöðuflokka, þá eru meginrökin sem færð eru fram af stjórnarsinnum fyrir sinni útgáfu, 10% brúttóskatti á vaxtatekjur, einfaldleikinn, þ.e. að þetta sé svo einfalt, skýrt og gott kerfi sem gangi smurt og snurðulaust og þar með sé betra að taka það. Það verði þá að mæta afgangi að hve miklu leyti það sé sanngjarnt og réttlátt eða tekjujafnandi að leggja á skatt með þessum hætti. En er í reynd verið að einfalda íslenska skattkerfið með þessu? Er verið að því? Ég segi nei. Það sem er að gerast er að það er að verða til alveg nýr skattflokkur í landinu. Það er verið að taka út úr tekjuskattskerfinu skattlagningu fjölmargra tekjuþátta eins og arðs og söluhagnaðar og færa þetta ásamt með upptöku þá skatta á vaxtatekjur, yfir í alveg nýtt skattkerfi utan við hið almenna tekju- og eignarskattskerfi. Þar með er þetta ekki lengur að mínu mati einföldun í skattamálum heldur beinlínis flæking. Þetta býr til tvenns konar skattkerfi gagnvart skattlagningu tekna þar sem þær eru flokkaðar niður á þennan sérkennilega hátt. Síðan er valin miklu vægari skattlagning á þann tekjuflokkinn sem telst til vaxtatekna, arðs, söluhagnaðar o.s.frv. Með öðrum orðum, það á þá að fara að festa í sessi mjög skarpan greinarmun á tekjum eftir uppruna þeirra að þessu leyti, þar sem vinnutekjurnar, launatekjurnar eru skattlagðar mun þyngra en fjármagnstekjurnar. Þetta er um hina kerfislegu þætti málsins, herra forseti. Ég leyfi mér að halda því fram að einföldunarrökin falli þegar þessi staðreynd er höfð í huga. Smátt og smátt mundu þessi tvenns konar skattkerfi festast í sessi því að auðvitað verða gerðar á þessu einhverjar breytingar þegar frá líður, ef þetta verður þá varanlegt.

Sumir halda því fram að stjfrv. muni valda þvílíkri óánægju í þjóðfélaginu, verði skatturinn lagður á með þeim hætti, þegar almennir sparifjáreigendur með tiltölulega litlar innstæður og ekki ýkjamikinn sparnað en kannski tekjur sem duga til þess að þeir nýta þó persónufrádrátt sinn í skattkerfinu að fullu eða nokkurn veginn, fara að borga af sínum litlu innstæðum, að þetta verði slegið af. Þannig verði þessi aðferð ekki upphaf að lögfestingu fjármagnstekjuskatts til frambúðar á Íslandi heldur endalok tilrauna til að koma honum á. Og hver gæti þá orðið niðurstaðan af þessari útfærslu, herra forseti, ef svo færi --- ég ítreka --- ef svo færi að menn gæfust upp við þessa aðferð við álagningu fjármagnstekjuskatts? Jú, þá spáði ég að eftir stæði skattalækkunin gagnvart hinu. Og hvað hafa menn þá haft upp úr krafsinu? Það fer að verða kannski lítið, herra forseti.

Það er enginn vafi á því í mínum huga að langstærsti gallinn á því sem stjfrv. felur í sér er þessi flata skattlagning á allan sparnað og smáupphæðirnar þar með taldar. Það er efnislegur eða tæknilegur eða pólitískur galli eða hvað menn vilja kalla það á þessari aðferð. En hann er þó alveg óskyldur hinu að til viðbótar fari menn í að lækka skattana á arði og öðrum slíkum hlutum. En það er hér gert og ég held að að sé að verða tímabært, herra forseti, og þó fyrr hefði verið, að staldra aðeins við það hvernig skattumhverfi fyrirtækja og fjármagnseigenda er að verða á Íslandi. Hvað er að gerast? Hvað hefur verið að gerast á síðustu fimm árum eða svo í þeim efnum? Ég held að það standi orðið algerlega undir þeirri einkunn að segja að það sé verið að búa til lágskattaparadís fyrir fyrirtæki og fjármagnseigendur. Það er það sem er að gerast.

Fyrir tveimur árum aflaði ég mér upplýsinga frá velflestum Evrópulöndum um það hver hin eiginlega skattbyrði fyrirtækja og atvinnulífs væri og bar það saman við það sem þá var að gerast á Íslandi og hafði gerst missirin á undan, m.a. með niðurfellingu aðstöðugjalds og fleiri ívilnandi aðgerðum til fyrirtækja. Útkoma mín varð sú að Ísland var á góðri leið í neðsta sætið eða efsta eftir því hvoru megin við viljum hafa það, yfir lágskattalönd fyrir fyrirtæki svo að ekki væri minnst á fjármagnseigendurna sem þá voru og eru reyndar enn skattfrjálsir. Og það merkilega kom reyndar út úr þessum samanburði að þau lönd sem fylgdu fast í kjölfar Íslands og höfðu einmitt breytt sínum skattamálum með svipuðum hætti voru einmitt hin Norðurlöndin. Sú ótrúlega staðreynd var því og er þrátt fyrir allt orðin að Norðurlönd eru að verða lágskattaparadís fyrir fyrirtæki og fjármagnseigendur. En allir þekkja að skattbyrði á almenning og launatekjur eru þar einhverjar þær hæstu í heimi. Svona er skattkerfið okkar að verða.

Þegar svo litið er á ekki bara skatta sem fyrirtækin greiða beint til ríkissjóðs eða sveitarfélaga heldur launatengdur kostnaður fyrirtækjanna tekinn með, þá dregur enn í sundur því að hann er víða mun hærri en hér. Frægast er auðvitað dæmið frá Vestur-Þýskalandi þar sem þessi kostnaður fer mjög hátt.

Það er kannski ástæða til að rifja það aðeins upp, herra forseti, ef menn halda að hér sé verið að fara með einhverja staðlausa stafi hvaða helstu breytingar hafa orðið á skattalegu umhverfi fyrirtækjanna undanfarin ár.

Þar munar mestu um niðurfellingu aðstöðugjaldsins þó að þar kæmu síðan ákveðnar fjáröflunaraðgerðir á móti, en því miður fyrst og fremst í tekjuskatti einstaklinga. Skattbyrði sem nam 4--5 milljörðum kr. var því flutt frá fyrirtækjunum á þennan hátt yfir í launaskatta.

Í öðru lagi var á síðasta kjörtímabili tekjuskattur af hagnaði fyrirtækja lækkaður í tvemur þrepum úr 45% í 33% þannig að nú er hagnaður fyrirtækja skattlagður mun vægar en brúttóskattprósenta er á tekjur launamanna.

Í þriðja lagi var samþykkt sérstök flýtifyrning, viðbótarflýtifyrning á fjárfestingum í atvinnulífinu sem fyrirtæki geta nú á ákveðnu árabili nýtt sér til þess að lækka enn skattgreiðslur sínar.

Í fjórða lagi hefur verið í gangi allmyndarlegur skattfrádráttur til einstaklinga vegna hlutafjárkaupa í fyrirtækjum sem að sjálfsögðu má með nokkrum hætti heimfæra fyrirtækjunum til góða því að þar fá þau ódýrt fjármagn inn í sína uppbyggingu.

Í fimmta lagi á nú svo að færa mjög niður skattlagningu á arði fyrirtækja, ekki bara með því að færa hann úr almenna tekjuskattsþrepinu niður í þessi 10% heldur líka með því að breyta skilgreiningunni fyrir útreikning arðsgreiðsluheimilda fyrirtækjanna með því að hverfa frá því að taka nafnverð og yfir í það að taka jöfnunarverð á bréfunum. Með þessu er því verið að gera hvort tveggja í senn, að rýmka gagnvart skatti stöðu fyrirtækjanna til að greiða arð og lækka skattinn á þeim arði þegar hann er greiddur. Og ég segi nú bara: Fyrr má nú aldeilis fyrrvera. Ég tek undir það sjónarmið sem kom fram í ræðu hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar í gærkvöldi að ég held að það þurfi að hyggja virkilega vel að því í hvora áttina straumurinn mundi verða ef þetta verður niðurstaðan. Er verið að auka möguleika fyrirtækjanna í reynd til þess að ná til sín fjármagni og halda því með þessum aðferðum? Ég efast um það. Það kann vel að vera, m.a. vegna þess að ríkissjóður mun þá með skattafrádrættinum fjármagna að miklu leyti hlutafjárkaup, að það komi talsvert fé inn í fyrirtækin, t.d. inn í einkahlutafélögin á næstu missirum eftir að þessar breytingar yrðu. En mundi það staðnæmast þar? Yrðu ekki gefin út jöfnunarbréf, greiðslugrundvöllurinn þar með aukinn í fyrirtækjunum og síðan þessi arður borgaður út í mjög háum prósentum á næstu árum. Hvað geta fáeinir stórir eigendur í einkahlutafélagi gert við þessar aðstæður sem þarna eru að koma upp eða jafnvel einyrki sem stofnar einkahlutafélag og er þar einn í stjórn, kannski með konu sinni? Eins og nýju einkahlutafélagalögin eru orðin er í raun og veru mjög mikið svigrúm og sjálfstæði hvers og eins til þess að búa um sinn rekstur í slíku einkahlutafélagi. Menn þurfa þar ekki að ræða við nokkurn nema sjálfan sig um það hvernig þeir haga málum í sínum fyrirtæki, hvaða arð þeir taka út úr því á hverjum tíma o.s.frv. Gæti það það þá ekki orðið niðurstaðan að menn veldu sér þá leið í stórum stíl, til þess að færa til sín arðinn eða tekjurnar eða hagnaðinn með öðrum hætti en þeim t.d. að borga sjálfum sér há laun hjá fyrirtækinu sem yrðu skattlögð upp á 47%, að borga sjálfum sér mikinn arð? Auðvitað. Það liggur í augum uppi að hér er verið að ganga svo langt í því að skattleggja tekjurnar á mismunandi hátt eftir því hver uppruni þeirra er að það þarf að staldra alvarlega við það atriði, herra forseti.

Ég óttast þess vegna að jafnvel sú röksemd að með þessu sé verið að styrkja stöðu atvinnulífsins til að ná til sín fé, og ekki ætla ég að tala gegn því, falli a.m.k. þegar frá líður vegna þess að það fé sem kynni að koma inn fari út aftur. Þetta verði fyrst og fremst farvegur fyrir arð og hagnað í gegnum fyrirtækin og aftur út til eigenda sinna. Og hverju erum við þá bættari í því tilliti að skapa ný störf eða styrkja stöðu atvinnulífsins að þessu leyti? Mér er ekki kunnugt um að það hafi komið fram í umræðunum að það standi til að hrófla við hlutafjárfrádrættinum. Og þegar þetta allt er skoðað í samhengi, þá held ég að það verði verulega að fara að huga að því umhverfi sem hér hefur verið að myndast á sama tíma og skattbyrðin á almennum launamönnum er meiri en nokkru sinni fyrr. Það eru hærri raunskattar núna á launatekjur en nokkurn tímann áður í Íslandssögunni. Skattbyrðin hefur verið færð til um miklar fjárhæðir á undanförnum árum yfir á hinar almennu launatekjur þannig að Ísland er komið þar í alveg stóralvarlega stöðu.

[12:45]

Hér er líka ástæða til að staldra við spurninguna um áhrif á tekjur ríkissjóðs vegna þess að ef þessi þróun gæti til viðbótar því að tekjuöflunargildi stjfrv. er óverulegt, miklu minna en menn höfðu bundið vonir við að fjármagnstekjuskattur gæti skilað, þá gætu bakreikningarnir á komandi árum, m.a. í gegnum auknar frádráttarheimildir fyrirtækjanna til arðgreiðslna og afsláttar á hlutafjárkaupum étið upp það litla sem að nafninu til á að hafast út úr þessu fyrir ríkissjóð. Það gæti nefnilega farið svo að þar kæmu verulegir bakreikningar sem drægju enn úr tekjuöflun gegnum þessi frumvörp.

Ég vísa svo til þess sem fleiri hafa sagt um aðkomu þessa máls á tekjum sveitarfélaganna en það er alveg dæmalaust hvernig með þau er alltaf farið og hvernig það er að verða að sú ríkisstjórn sem nú situr virðist gersamlega vera farin að hunsa að eiga með nokkrum venjulegum kurteisisvenjum samskipti við aðila í þjóðfélaginu og nægir þá að taka þá stöðu sem uppi er í samskiptum við verkalýðshreyfinguna og þetta lýsandi dæmi um lítilsvirðinguna gagnvart þessu sjálfstæða stjórnsýslustigi sem sveitarfélögin eru. Það á að hafa við þau samráð eftir á, sagði hæstv. fjmrh. áðan. Fyrst eru menn löðrungaðir og vaðið yfir þá en svo er í lagi að tala við þá þegar búið er að gera breytingarnar. Ef þetta verður að lögum, sagði fjmrh., þá kannski tölum við við sveitarfélögin, ekki beinlínis með þeim orðum, herra forseti, en nálægt því. Þá mætti líta á það að ræða við sveitarfélögin þegar búið væri að rífa af þeim þessar tekjur einhliða. Þetta alveg með ólíkindum á sama tíma og menn telja sig standa í einhverjum samningaviðræðum við þetta sama stjórnvald, ríkisstjórnina, um tilfærslu verkefna og tekjustofna og annað því um líkt. Það er nýbúið að lögfesta á Íslandi sáttmálann um sjálfstæði sveitarfélaga og sveitarstjórnarstigsins, evrópskan sáttmála sem við erum skuldbundin af og svo er hann meðhöndlaður svona.

Herra forseti. Ég bind enn vonir við að það takist á Alþingi að ná skynsamlegri lendingu gagnvart skattlagningu fjármagnstekna, að það finnist tæknileg og pólitísk niðurstaða sem verði farsæl og slík skattlagning verði réttlát og sanngjörn og tekjujafnandi. Það sem ég bið fyrst og fremst um er að menn fari að reyna að fara út í umræður um þessi mál á efnislegum grundvelli, varðandi efnislegt inntak málsins, hætti þessu þrasi um söguna sem engu máli skiptir í sjálfu sér. Það er spurningin um hina efnislegu niðurstöðu sem verður að ráða ferðinni, að það finnist lending sem sæmileg sátt geti orðið um og hafi í sér fólgna þá niðurstöðu varðandi bæði jafnt skattatæknileg atriði, hún sé vönduð sem slík en líka réttlát, sanngjörn og tekjujafnandi þannig að allir geti sæmilega við unað. Það getur auðvitað ekki gengið til frambúðar að við Íslendingar nánast einir þjóða búum við þá mismunun hvað þessa skattlagningu tekna snertir sem hér hefur viðgengist og sem betur fer held ég að formælendur þess séu að verða fáir að Ísland verði áfram þessi sérstaka skattaparadís stóreignafólks og fjármagnseigenda sem við höfum verið og er auðvitað hneyksli, ekki síst í ljósi lífskjaranna eins og þau hafa þróast á undanförnum árum, erfiðleika í sambandi við rekstur velferðarkerfis og þá þætti aðra sem ég hef gert að umtalsefni.