Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 18. apríl 1996, kl. 15:03:42 (4979)

1996-04-18 15:03:42# 120. lþ. 122.9 fundur 464. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (flutningur grunnskólans) frv. 79/1996, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[15:03]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Eins og ég tók fram í umræðum í gær mun ég beita mér fyrir viðræðum á milli fulltrúa sveitarfélaganna annars vegar og félmrn. og fjmrn. hins vegar til að fjalla um áhrif fjármagnstekjuskattsins, sérstaklega á fjárhag sveitarfélaganna. Það liggur ljóst fyrir og hefur einnig komið þráfaldlega fram í þeim umræðum sem hafa staðið undanfarna daga hjá fjmrh. að þetta er ætlunin. Það að blanda fjármagnstekjuskattinum með þessum hætti inn í þessa umræðu finnst mér miðlungi sanngjarnt.

Við munum fara nákvæmlega yfir áhrif fjármagnstekjuskattsins. Það ber nokkuð á milli um hvaða tölur er verið að ræða og við munum að sjálfsögðu reyna að koma okkur saman um það og með hverjum hætti það verði bætt ef hallar af ósanngirni á sveitarfélögin. Það liggur í augum uppi.

Sá samningur sem þetta frv. byggir á milli sveitarfélaga og ríkisvalds er tvímælalaust hagstæður fyrir sveitarfélögin. Ég bið menn að gá að því að þessi samningur var samþykktur samhljóða á fulltrúaráðsfundi Sambands ísl. sveitarfélaga. Enda held ég að ef menn skoða samninginn, þá muni þeir sannfærast um að ríkið hefur síður en svo sýnt svíðingshátt í samskiptum við sveitarfélögin að þessu leyti. Samskipti sveitarfélaganna og ríkisins hafa þá tíð sem ég hef verið í félmrn. verið góð og ég mun kappkosta að svo verði áfram. Það hefur ekkert samkomulag mér vitanlega verið svikið í minni tíð.

Þess má enn fremur geta í framhjáhlaupi að það er ætlunin að ríkið afhendi sveitarfélögunum skólamannvirki eða eignarhlut sinn í skólamannvirkjum á nokkurra ára tímabil á næstu árum og verður það væntanlega þingmál á næstu dögum. Hér er um verulega fjármuni að ræða sem færast frá ríki til sveitarfélaga og mjög eðlilegt að svo sé og kemur ekki endurgjald fyrir. Það verður ekki farið að selja sveitarfélögunum eignarhlut ríkisins í grunnskólunum.

Varðandi frelsi sveitarfélaga til tekjuöflunar vil ég meina að það sé nokkurt. Það er t.d. svigrúm í útsvarsprósentunni. Nokkur sveitarfélög hagnýta sér ekki hámarksútsvar og þau sveitarfélög eru sannarlega ekki á hjarni. Ég er íbúi í einu slíku. Hins vegar finnst mér það ekki skynsamlegt. Ég teldi eðlilegt að sama útsvar væri um land allt.

Yfirfærsla grunnskólans sem slík er annað mál. Ég verð að viðurkenna, eins og kom fram hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. áðan í ræðustól, að þegar byrjað var að tala um yfirfærsluna fannst mér sveitarfélögin ráðast í allmikið. Ég efaði að þau réðu við þetta verkefni. Ég tek fram að það var ekki ríkið sem var að ota grunnskólanum að sveitarfélögunum. Það voru sveitarfélögin sem sóttu á um að fá grunnskólann og það er algerlega að þeirra frumkvæði sem þessi yfirfærsla á sér stað. Ríkið tók hins vegar undir við sveitarfélögin og Alþingi ákvað með lögum í fyrravetur, mig minnir að þau séu nr. 66, að grunnskólinn skyldi færður til sveitarfélaganna 1. ágúst að uppfylltum tveimur skilyrðum. Þetta frv. fjallar um annað skilyrðið, þ.e. tekjuyfirfærsluna.

Ég mun í þann tíma sem ég gegni starfi sem ráðherra sveitarstjórnarmála kappkosta að sanngirni ríki í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Auðvitað hefur ríkið ekki efni á því að vera með einhverjar stórgjafir til sveitarfélaganna. En ég tel hins vegar að ríkið verði að standa við sínar skuldbindingar og sýna sanngirni í þessum samskiptum. Ég mun í mínu starfi leitast við að sjá til þess að svo verði.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. var með hálfgerða hótfyndni í lok ræðu sinnar þar sem hann vitnaði til orðalags í athugasemdum. Þetta frv. fjallar um afmarkaðan þátt. Það fjallar um fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga en alls ekki um gæði skólastarfs. Það er gert á öðrum vettvangi. Hins vegar kemur þetta náttúrlega inn á gæði skólastarfs að nokkru leyti. Einsetningin er ákveðin í lögum og hún er ákaflega dýrt verkefni. Mig minnir að ég hafi heyrt að hún kosti 6 milljarða bara í Reykjavík. Sum sveitarfélög eru svo vel sett að þau eru búin að einsetja fyrir löngu og reyndar eru þau sem betur fer ærið mörg. En allmörg eiga verulega fjárfrekar framkvæmdir eftir til þess að geta komið einsetningunni á.

Í þessu frv., í þessu samkomulagi er einmitt skilningur á því að það þurfi þjóðarátak til. Sveitarfélögunum er ekki ætlað að ráðast í einsetninguna hjálparlaust. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga kemur til með að leggja 20% á móti sveitarfélögunum til þess að geta einsett og þetta er enginn smáræðis skilningur á gæðum skólastarfs. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga kemur til með að láta af hendi rakna eins og ég sagði áðan stórfé til þess að gæði skólastarfs megi aukast með einsetningunni. Ég tel það ákaflega gott og þarft mál og þar fyrir utan er það mjög fjölskylduvænt málefni.

Orðalagið sem hv. þm. vitnaði til, þ.e. að kennslukostnaður í grunnskólum væri misjafn og réðist aðallega af hagkvæmni skólaeininga, er engin forskrift. Og fjarri sé það mér að slá því föstu að heppilegra sé að hafa, þegar allt kemur til alls, stóra skóla en litla. Þetta er sett fram þarna sem rökstuðningur fyrir því að svo hárri fjárhæð þurfi að verja til jöfnunar á milli sveitarfélaganna. Það er verið að verja þarna feiknamiklu fé til jöfnunar. Það er ekki bara látin ákveðin prósenta á haust.

Herra forseti. Ég held að ég sé búinn að koma frá mér þeim athugasemdum sem ég vildi gera.