Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 18. apríl 1996, kl. 16:02:14 (4990)

1996-04-18 16:02:14# 120. lþ. 122.9 fundur 464. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (flutningur grunnskólans) frv. 79/1996, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[16:02]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins segja vegna ræðu hæstv. félmrh. að það er alveg rétt að verkaskiptingin hefur ekki verið skýr varðandi grunnskólann. Það hefur verið samstarfsverkefni að reka grunnskólann og það er einmitt ástæðan fyrir því að menn eru að knýja á um breytingar, af því að samstarfsverkefni um rekstur milli ríkis og sveitarfélaga hafa gefist illa. Ég er hins vegar á þeirri skoðun að menn eigi að velja ríkið þegar um menntun er að ræða rétt eins og þegar er um að ræða heilbrigðismál og annað slíkt. Aðrir eru annarrar skoðunar og ekkert við því að gera. Menn eru bara ósammála.

Ég nefni sem dæmi um skýra verkaskiptingu sem menn komu sér saman um að 1989 var ákveðið að fara með heilsugæslustöðvarnar yfir til ríkisins til þess að heilbrigðismálin væru öll hjá sama aðila.

Ráðherrann nefndi að sveitarfélög sem réðu ekki við sín verkefni leystu úr þeim vanmætti með samstarfi. Það er auðvitað oft gert. En samstarfsverkefni milli sveitarfélaga, sérstaklega þegar mörg sveitarfélög standa að samstarfinu, hefur gengið illa. Það er vond reynsla af því og almennt tel ég það vera viðhorf sveitarstjórnarmanna að losa sig út úr slíku samkrulli, hvort sem það er á Suðurnesjum eða annars staðar. Menn vilja frekar að einn aðili sé ábyrgur fyrir málinu en að búa við þetta fjarlæga kerfi, samstarfsoddvitakerfi eða hvað það heitir.

Hvað varðar þá ábendingu ráðherrans að sveitarfélög með færri en 2.000 íbúa hafi fengið framlag úr jöfnunarsjóði til þess að styrkja hluta af byggingum grunnskóla, þá er það rétt. En það var gert til þess að jafna stöðu þeirra gagnvart stærri sveitarfélögunum þannig að þau stæðu þeim nokkurn veginn jafnfætis í getu og því má má ekki nota þá staðreynd til þess að rökstyðja að það eigi að ójafna á nýjan leik eins og hæstv. ráðherra er að leggja til.