Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 21:03:08 (5199)

1996-04-23 21:03:08# 120. lþ. 125.2 fundur 262#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[21:03]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Út af þeim ummælum hv. þm. að sérstakur ágreiningur væri uppi í ríkisstjórninni um málefni Evrópusambandsins vil ég taka það fram að svo er ekki. Ég sagði í ræðu minni að stækkun Evrópusambandsins væri í rökréttu samhengi við sögulega þróun þess og ég held að það geti enginn borið á móti því að stækkun Evrópusambandsins til austurs er staðreynd. Það er verið að vinna að því og ég sagði að enginn muni stöðva þá þróun.

Eigum við Íslendingar að lýsa því sérstaklega yfir við þessar þjóðir sem sjá hagsmuni sína helsta því að ganga til samstarfs við önnur ríki í Mið-Evrópu að við séum algerlega á móti því? Átti ég í viðræðum við tékkneska ráðamenn fyrir stuttu að lýsa því yfir fyrir hönd Íslands að það sé andstætt hagsmunum okkar að þessi þróun verði? Það er ekkert rökrétt samhengi þar í og ég hef að sjálfsögðu lýst því yfir að ég styðji viðleitni þeirra. Þetta land er Evrópuþjóð. Sama á við um Ungverjaland og þessar þjóðir vilja vera í þessum samtökum. Ég tel enga ástæðu til annars en styðja þá viðleitni þeirra því að ég tel að það þjóni öryggishagsmunum Evrópu, ég tel að það þjóni Evrópu framtíðarinnar og þar með hagsmunum okkar. Svo er allt annað mál hvort við Íslendingar viljum sækja um aðild.

Ég tók fram í ræðu minni að umsókn um aðild væri ekki á dagskrá og ég lýsti því hvers vegna. Hins vegar hef ég ávallt tekið það fram í gegnum tíðina að ekki sé hægt að útiloka fyrir alla framtíð. Ég er ekki í stöðu til þess og vil þess vegna fylgjast vel með málum og það er núv. ríkisstjórn að gera.