Fullgilding samnings gegn pyndingum

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 22:51:03 (5223)

1996-04-23 22:51:03# 120. lþ. 125.5 fundur 475. mál: #A fullgilding samnings gegn pyndingum# þál. 10/1996, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[22:51]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég tel að við getum fyllilega staðið við skilyrði samningsins. Það tilvik sem hér var nefnt kom til umræðu áður og úr því hefur verið bætt og ég vænti þess að við getum framvegis staðið skil á þeim skýrslum sem við höfum skuldbundið okkur til að gera. Hitt er svo annað mál að hin íslenska stjórnsýsla er lítil og það er mikið á hana lagt, ekki síst í því mikla alþjóðlega starfi sem fer vaxandi og það er ekki alltaf létt að standa undir öllum skuldbindingum. Við eigum að sjálfsögðu að leggja metnað okkar í það og ég tel að við séum fyllilega fær um það.

Varðandi þýðingu á þessum samningi er það rétt sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði að hér er um mjög snúinn texta að ræða og þessi setning er óvenjulega löng miðað við okkar íslensku en það er reynt að þýða hana í samræmi við þessa löngu setningu á ensku. Ég skal játa það að ég er vanari því að það sé talað um ómannúðlega meðferð, hins vegar er orðið ómannlegt til í orðafari okkar og það er þá kannski frekar að það sé nánast ómannlegt hvað einhver einstaklingur hefur getað gert frekar í jákvæðum skilningi. Þannig hef ég vanist því. Hins vegar má sjálfsagt venjast því að nota orðið ómannlegt með þeim hætti að slík framkoma sé engum manni sæmandi. En eins og hv. þm. hef ég vanist þessu orði með öðrum hætti en skal ekki tjá mig frekar um þýðingu þess enda hef ég ekki haft nein afskipti af þýðingu þessa texta og jafnvel þó að ég hafi litið yfir hann gerði ég ekki athugasemd við þetta mál.