Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 16:23:46 (5996)

1996-05-14 16:23:46# 120. lþ. 137.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, Frsm. minni hluta ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[16:23]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það kom skýrt fram í svari hæstv. ráðherra að hann telur engar ábendingar sem við höfum verið að gera varðandi frv. né ábendingar stéttarfélaganna þess virði að það eigi að skoða þær á milli umræðna. Þetta var alveg skýrt og klárt hjá hæstv. ráðherra. Það eina sem hann ætlaði að gera milli umræðna er að beita sér fyrir tæknilegum breytingum á einni grein sem leiðir af bandorminum.

Ég harma þessa niðurstöðu. Mér finnst það vera ámælisvert að eftir þessa miklu umræðu og þann mikla þunga sem hefur verið í afstöðu fólks bæði innan þings og utan varðandi þetta efni, skuli ekki vera farið í efnislega umræðu um margar af þeim spurningum sem hér hafa verið vaktar upp heldur einungis gefinn ádráttur um tæknilegar breytingar. Mér finnst þessi framkoma lýsa ákveðinni lítilsvirðingu á sjónarmiðum okkar stjórnarandstæðinga og ekki hvað síst á sjónarmiðum stéttarfélaganna eins og þau hafa birst í fjölmörgum umsögnum í sambandi við þetta mál.