Tæknifrjóvgun

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 22:36:50 (6051)

1996-05-14 22:36:50# 120. lþ. 137.5 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, BH
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[22:36]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Það hefur verið farið fram á að frsm. allshn. væri viðstaddur umræðuna. Er hún í húsinu?

(Forseti (GÁ): Þá á hv. þm. við Valgerði Sverrisdóttur. Forseti skal gera ráðstafanir.)

Ég mun bíða þangað til hún kemur.

Herra forseti. Ég sé að nú er hv. þm. Valerður Sverrisdóttir, frsm. allshn., komin í salinn. Ég vil geta þess í upphafi að ég tel nauðsynlegt að talsmaður nefndarinnar sé til staðar í þessari umræðu, ella væri hún til lítils að mínu mati. Öðruvísi er ekki tryggt að þau sjónarmið sem hér koma fram og í umræðunni í kvöld komist til skila til nefndarinnar og til hv. talsmanns hennar. (VS: Nefndin er búin að afgreiða málið.) Ég tel eigi að síður nauðsynlegt, hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, að hér sé til staðar einhver til að svara fyrir tillögu nefndarinnar.

Áðan kom hv. þm. Kristján Pálsson í ræðustól og fjallaði um nafnleyndina og um þá tillögu sem ég ásamt fleirum hef lagt fram um að nafnleynd verði afnumin. Hann hélt því m.a. fram að reglan eins og hún lítur út núna þýddi að það væri hægt að velja sér kynfrumur til gjafar. Ég ákvað í stað þess að koma upp í andsvari við hv. þm. að bíða með þetta þangað til kæmi að mér þar sem ég var búin að setja mig á mælendaskrá. Ég vil því byrja á því að leiðrétta þennan misskilning hv. þm. því að að sjálfsögðu er það þannig áfram að það er læknir eða forstöðumaður viðkomandi heilbrigðisstofnunar sem velur frumugjafann. Ég sé ekki nokkra ástæðu til þess að tillagan eins og hún liggur fyrir nú þurfi að breyta því og tel það í raun og veru fráleita ályktun. Hið sama á við varðandi það sem hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir minntist á áðan í andsvari við hv. þm. Hjörleif Guttormsson þar sem hún taldi að með tillögunni, eins og við höfum lagt hana fram, væri réttur gjafans fyrir borð borinn og ekki væri tryggt hver hans réttur væri. Ég tel það alveg skýrt eins og tillagan liggur fyrir. Að sjálfsögðu hefur heilbrigðisstofnunin sem óskar eftir kynfrumum þá skyldu að veita upplýsingar um þessa hluti. Öðruvísi væri ekki hægt að ganga að öðrum kynfrumum en þeim sem væru þessu marki brenndar, ef svo má að orði komast.

Ég vil líka mótmæla því harðlega sem mér fannst mega marka af orðum hv. þm. Kristjáns Pálssonar, þ.e. að þeir sem væru á móti nafnleyndinni væru á móti því að lina þjáningar fólks sem gæti ekki átt börn, ófrjórra einstaklinga. Mér finnst þetta vera málflutningur sem er ekki við hæfi og gersamlega út í hött. Ég vísa honum algerlega á bug. Ég gat því miður ekki verið við 2. umr. málsins en ef eitthvað er sýnist mér frekar að þeir sem eru á móti nafnleyndinni hafi fyrir því rök í fjölda umsagna fyrir sínu máli og mér finnst þess vegna fráleitt að vísa í þá hluti sem hv. þm. var að ýja að áðan.

Það mál sem er hér til umfjöllunar er á sviði sem nokkuð lengi hefur skort lagareglur á. Það er líklega svo að allflestir sem um málið hafa fjallað, a.m.k. í þingsölum, eru sammála um mikilvægi þess að setja löggjöf eða a.m.k. einhverjar reglur um það. Eins og fram kemur í athugasemdum með frv. hefur tæknisæðing verið framkvæmd síðan 1980 án löggjafar að sjálfsögðu og frá árinu 1991 hefur glasafrjóvgun verið framkvæmd hér. Gjafasæði hefur verið notað í fjölda tilvika. Að mínu mati verður að taka tillit til þessa við lagasetningu um málið og þess vegna hef ég verið þeirrar skoðunar að það sé ekki rétt að ganga svo langt að banna gjöf kynfrumna. Ég tel hitt öllu mikilvægara að þeir sem verða til með hjálp slíkrar tækni í framtíðinni séu ekki settir skör lægra öðrum þegnum samfélagsins. Þá er ég fyrst og fremst að vísa til mannréttinda svo sem þeirra að hafa aðgang að upplýsingum um uppruna sinn þegar þessir einstaklingar hafa aldur og þroska til. Ég lýsti þessari skoðun minni við 1. umr. og síðan hef ég reyndar gert enn frekari könnun á þessu máli og lesið mér nokkuð til um það, m.a. með tilliti til þeirrar reglu sem gildir í Svíþjóð. Eins og oft hefur komið fram í þessum umræðum er ekki ríkjandi nafnleynd í Svíþjóð. Mér þótti mjög forvitnilegt að grafast fyrir um ástæður þess og að sjálfsögðu voru fyrir því ákveðnar ástæður, ákveðið dómsmál, svokallað Haparanda-mál, sem varð í raun og veru kveikjan að því og þrýsti á það að Svíar settu sér lög sem bönnuðu nafnleynd. Ég geri ekki ráð fyrir því að Svíar, frekar en við sem erum á móti nafnleyndinni, hafi haft það fyrst og fremst að leiðarljósi að vera vondir við þá sem ekki geta átt börn, heldur hafi eitthvað annað búið að baki. Og það eru fyrst og fremst þau rök sem ég ætla mér að reyna að gera grein fyrir að einhverju leyti til viðbótar því sem þegar hefur komið fram.

Ég tel ófært að við Íslendingar séum núna árið 1996 að setja lög sem að mati allflestra ef ekki allra mannréttindasamtaka og þeirra sem fjallað hafa um siðfræði brjóta í bága við mannréttindi þeirra barna sem verða til við tæknifrjóvgun. Við getum nefnt umboðsmann barna, við getum nefnt Mannréttindaskrifstofu Íslands, við getum nefnt Siðfræðistofnun háskólans, Kvenréttindafélag Íslands, landlækni, barnaverndarráð o.fl.

[22:45]

Í umsögn Mannréttindaskrifstofunnar eru rakin nokkuð ítarlega rök fyrir þessu og reyndar er það einnig gert í umsögn umboðsmanns barna en það má segja að það sé farið mun ítarlegar ofan í þessi rök í umsögn Mannréttindaskrifstofunnar. Þar er vitnað í 8. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem segir að aðildarríki skuldbindi sig til að virða rétt barns til að viðhalda því sem auðkennir það sem einstakling og það má segja að það sé grunnurinn að röksemdafærslu Mannréttindaskrifstofunnar. En þeir vitna einnig í það, sem er stórt atriði í málinu og gerir það að verkum að sú löggjöf sem við erum að fara að setja og löggjöf líka annars staðar þar sem nafnleynd ríkir, t.d. á Norðurlöndunum brýtur hún í bága við þá réttaþróun sem hefur verið á undanförnum áratugum varðandi réttindi barna. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, sem er gerður 1989 ef ég man rétt og fullgiltur 1991 frekar en 1992, er ákveðin staðfesting á þeirri réttarþróun sem hefur verið að eiga sér stað síðustu áratugi og byggir fyrst og fremst á því að barn hafi sjálfstæð mannréttindi. En það var lengi vel þannig að það var ekki litið svo á að börn hefðu sjálfstæðan rétt. Það var nánast litið á þau sem eign foreldra sinna og það var nánast einkamál foreldranna hvernig þau höguðu ýmsum hlutum sem vörðuðu barnið og sem gátu komið því mjög illa þegar fram í sækir.

Það má nefna sem dæmi að ættleiðingarlöggjöf á Íslandi er frá 1978 og þar er ekki minnst orði á rétt barnsins til að vita um líffræðilegan uppruna sinn. Hins vegar er það þannig í dag að eftir munnlegum upplýsingum, sem ég hef úr dómsmrn., er það sjálfsögð framkvæmdaregla að það barn sem hefur öðlast sjálfræði, ég man ekki hvort það er miðað við sjálfræðisaldur eða við 18 ára aldurinn, og kemur þangað og spyr um gögn er varða uppruna þess hefur rétt til aðgangs að þeim gögnum. Síðan er það ekki alltaf þannig að þau gögn veiti vísbendingu um það hver uppruni barnsins sé, en í þeim tilvikum sem það er, þá hefur barnið rétt til þess. Þar erum við komin með enn eina röksemdina. Það er þróun sem hefur líka verið að eiga sér stað síðustu ár og áratugi sem snýr að auknum rétti fólks til að vita og hafa aðgang að persónulegum upplýsingum um sjálft sig, ekki síst þegar þannig háttar eins og í þessu dæmi að einhver annar hefur mögulegan aðgang að þeim upplýsingum vegna þess að ef upplýsingar eru einhvers staðar til þá hefur væntanlega einhver aðgang að þeim og í þessu tilviki eru það heilbrigðisstofnanir sem er falið að geyma þær. Þessar röksemdir hafa líka verið margítrekaðar í þeim umsögnum sem lágu fyrir hv. allshn. En allt að einu hefur hún kosið að taka ekki mark á þessum umsögnum og ég tel það vera mjög miður fyrir mannréttindaumræðu á Íslandi að ekki skuli hafa verið tekið meira mark á nákvæmlega þeim umsögnum sem snúa að þessum rökum.

Mér sýnist fyrst og fremst tvenns konar sjónarmið rekast á í umræðu um nafnleyndina. Ég tek fram að bæði þessi sjónarmið eiga að sjálfsögðu einhvern rétt á sér. Annars vegar erum við að tala um framþróun tækni og vísinda og jafnvel er talað um mannréttindi eða rétt einstaklinga til að geta átt afkvæmi með aðstoð þeirrar tækni sem möguleg er í heilbrigðiskerfinu hverju sinni. Fremstir kannski í flokki fyrir þessum rökum eru að sjálfsögðu þeir sem vilja hafa aðgang að þeirri tækni, það er eðlilegt og hins vegar eru það þeir sem framkvæma hana. Það sá ég líka þegar ég var að skoða það sem gerðist í Svíþjóð á sínum tíma og þegar nafnleyndarreglan var numin úr gildi 1984 voru langsterkustu þrýstihóparnir læknar og þeir sem framkvæma rannsóknir á þessu sviði og það sama virðist eiga við hér.

Rök gegn nafnleyndinni eru mannréttindi barnsins, sem fæðist við aðstoð tækninnar, og það er vitnað í siðferðileg rök. Þau siðferðilegu rök byggjast á mörgum forsendum og ekki síst kannski þeirri forsendu að það sé ekki rétt að lögleiða einhvern sýndarveruleika utan um einhvern hlut og tæknin eigi að ná það langt að hún megi vera sýnileg. Ég fékk ekki upp úr hv. þm. Kristjáni Pálssyni áðan hvaða siðferðilegu rök það væru fyrst og fremst sem hann bæri fyrir sig og talsmenn hans, þ.e. þeir sem vilja viðhalda nafnleyndinni. Ég hef ekki heyrt þau enn þá. Ég mundi gjarnan vilja fá nánari útskýringar á því ef hv. þm. hefur einhver frekari rök fyrir því máli sínu en ég hef alla vega ekki heyrt siðferðileg rök fyrir þeim málstað lengur. Ég heyri mjög oft talað um að ekki megi hamla tækninni. Ég heyri frekar mannúðarsjónarmið, það eigi að hjálpa fólki sem ekki getur átt börn og með þeirri skoðun hef ég fyllilega samúð.

Ég er þeirrar skoðunar að tækniþróun á þessu sviði er stórkostleg. Henni á ekki að aftra nema nauðsyn beri til. En sú nauðsyn sem hér um ræðir, og er að mínu mati sjálfstæður réttur barnsins til að vita um uppruna sinn við fullorðinsaldur, er til staðar. Mér finnst það vera gersamlega óhugsandi og mér finnst það hreinlega líta þannig út að það sé verið að fórna mannréttindum á altari tækniþróunar og það finnst mér ekki vera réttlætanlegt undir nokkrum kringumstæðum jafnvel þó að fyrir því séu mannúðarrök sem ég vil kalla þau rök að það eigi að reyna að hjálpa fólki til þess að eignast börn. Ég tel að það eigi að gera það en það verður að gera það þannig að það þoli dagsljósið. Það felur á engan hátt í sér lítilsvirðingu fyrir því fólki sem vill nýta sér þessa tækni. Þvert á móti hef ég fullan skilning á málstað þess og tilfinningum. Það er bara svo einfalt að málið snýst ekki um tilfinningar þeirra og rétt þess. Það sem snýr að nafnleyndinni. Það snýr fyrst og fremst um rétt þessa einstaklings sem er verið að búa til með aðstoð tækninnar.

Sú breyting sem var gerð á nafnleyndarákvæðunum á milli 2. og 3. umr. er ekki til bóta að mínu mati. Mig minnir að 4. gr. hafi fjallað um þetta. Það sem mér þykir miður er að þar endurspeglast enn það sjónarmið sem endurspeglaðist í fyrsta frv. Þar er megináhersla lögð á rétt og hagsmuni gjafans. Gjafinn er sá sem á að geta tryggt rétt sinn undir öllum kringumstæðum. Hv. þm. Kristján Pálsson talaði mjög í þessa veru áðan þar sem hann talaði um gjafann og rétt hans. Gjafinn hefur einu sinni alltaf það val að ákveða hvað hann gerir, hvort hann ákveði að gefa eða ekki og hans réttur byggist á því umhverfi og þeim reglum sem eru til staðar þegar hann tekur þá ákvörðun. Mér þykja það vera haldlítil rök að tala um rétt gjafans í þessu skyni. Eins og ákvæði 4. gr. er í dag finnst mér það einkennast af því að verið sé að reyna að tryggja rétt gjafans á alla kanta.

Hv. þm. Kristján Pálsson minntist á það áðan að við værum að tala um rétt parsins og hagsmuni parsins. Ég hef ekki enn þá séð það skilgreint nokkurs staðar í mannréttindasamningum að slíkur réttur sem þessar röksemdir eru byggðar á, þ.e. rétturinn til að eignast barn, sé skilgreint sem mannréttindi. Ég hef lesið mjög margar greinar um að það sé rangt að tala um mannréttindi í þessu skyni en það er önnur saga.

Hins vegar bendir ákveðin réttarþróun til þess að sjálfstæður réttur barns til að vita upruna sinn sé skilgreindur sem mannréttindi. Eins og málið snýr núna við mér eftir þessar lagfæringar á 4. gr. er í raun og veru verið að búa til tvo hópa barna sem verða til við tæknifrjóvgun. Annars vegar þá sem eru svo heppnir, ég vil segja svo heppnir, að eiga líffræðilegt foreldri sem vill gefa upplýsingar og hina sem verða fyrir því þegar upplýsinga er neitað að fá svarið: Nei því miður, þú átt ekki réttinn. Það getur verið að bróðir þinn eigi það eða systir sem hefur verið svo heppin að vera getin með sæði frá gjafa sem vill gefa upplýsingarnar og vill að það sé ekki nafnleynd. Mér finnst þetta vera alger hundalógík og hún gengur ekki upp. Ég sakna þess virkilega að sjá ekki rökstuðning frá hv. allshn. um þessi mál frá því að líta fram hjá ráðum allra mannréttindasamtaka hér á landi og ráðgjöfum og ráðleggingum og að því er virðist þrælvel ígrunduðum álitum án þess að ég heyri nokkurn rökstuðning. Það er ekki síst þess vegna sem ég óskaði mjög stíft eftir því að hv. frsm. allshn. væri til staðar og gæti gert mér grein fyrir því í umræðunum hver rökstuðningurinn er fyrir því að litið er fram hjá þessum ákvæðum. Ef ég fæ fyrir því sannfærandi rök, sem eru byggð á einhverju öðru en því að það sé svo margt fólk sem vilji eignast börn sem ég er ekki að gera lítið úr, ef ég heyri einhver önnur rök og einhver önnur rök en þau að við megum ekki hamla tækniþróuninni, þá getur vel verið að ég sjái ljósið eins og hinir. En ég hef ekki séð það enn þá og ég sakna þess hreint og beint mjög að það skuli ekki að vera a.m.k. gerð tilraun til þess í þá nefndaráliti eða í framsögu frá hv. allshn. að gera grein fyrir því hvers vegna er ekki tekið mark á þessum rökum.

Ég vil geta þess að ég tel bráðabirgðaákvæðið, sem liggur fyrir, vera mjög til bóta. Þó að gerð verði einhver endurskoðun á þessum lögum og þó að við séum líklega öll sammála um að það þurfi að setja um þetta reglur eru efasemdirnar um það eins og þær líta út í dag til staðar. Ég fagna því samt sem áður að þetta ákvæði skuli vera komið fram og ég mun styðja það því að það girðir a.m.k. fyrir það að þessar reglur verði festar í sessi. Það er alla vega möguleiki á að taka þær upp ef eitthvað kemur í ljós og ég hef reyndar grun um að það séu ýmis mál í gangi í uppsiglinu ef ekki nú þegar komin af stað í dómskerfinu sem geti bent til þess að það þurfi að skoða þessar reglur eitthvað verulega. Ég styð því bráðabirgðaákvæðið og tel það mjög æskilegt ef það fær framgang. En það breytir því ekki að eftir stendur að nafnleyndin á að vera með þessu móti og ef eitthvað er hefur hún ekki tekið framförum í meðförum nefndarinnar.

Ég ítreka enn og aftur að ég tel að það eigi að leyfa gjöf kynfrumna. Það á að gera það fyrir opnum tjöldum í stað þess að búa til löggjöf í kringum einhvern sýndarveruleika sem kemur niður á mannréttindum ákveðinna einstaklinga. Það eru ekki nægileg rök að mínu mati eins og haldið er fram í athugasemdum og greinargerð með frv. þar sem er sagt að ekkert bendi til þess enn að þessi börn hafi orðið fyrir einhverjum skaða, það sé ekkert sem bendir til þess. Það er reyndar þannig orðað í frv. að það er jafnskýrt við lestur athugasemdanna að það hafa að sjálfsögðu engar rannsóknir farið fram á því. Ég krefst þess að frsm. hv. allshn. og þeir aðrir sem eru fylgjandi því að nafnleyndarreglan verði hér fest í sessi, færi fyrir því rök hvers vegna litið sé fram hjá ráðgjöf og áliti allra mannréttindasamtaka sem eru starfandi á landinu og reyndar líka allra þeirra samtaka sem hafa starfað sérstaklega og unnið að réttindum og hagsmunum barna og ekki síst nú nýskipaðs embættis umboðsmanns barna sem tekur mjög skýra afstöðu í þessu máli.