Tæknifrjóvgun

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 23:05:52 (6054)

1996-05-14 23:05:52# 120. lþ. 137.5 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[23:05]

Valgerður Sverrisdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vonast nú til að þetta verði mín síðasta ræða um þetta mikilvæga mál sem er hér komið í lokabúning. En það er nú bara þannig að staðreyndirnar segja okkur og þær upplýsingar sem nefndin hefur fengið, að ef við ætlum að framkvæma tæknifrjóvgun á Íslandi þá er ekkert um það að ræða að við fáum sæðiskynfrumur ef við viðhöfum ekki nafnleynd. Þetta er það stórt mál að mér finnst að það hljóti að skipta máli í þessari umræðu. Auk þess er ég alveg sammála því sem kom fram og ég endurflutti hér frá umræðunni í Noregi þess efnis að það er ekkert hægt að halda því fram að hag barnsins sé best borgið með því að nafnleynd sé ekki viðhöfð. Það er ekkert hægt að halda því fram. Ég er bara ekki þeirrar skoðunar. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að viðhafa nafnleynd og það hefur verið gert í þann eina og hálfa áratug sem þessar læknisaðgerðir hafa verið framkvæmdar hér á landi með ágætum árangri. Þannig er best að halda þessu áfram að mínu mati. Það hafa ekki komið upp nein vandamál því samfara að hér hefur verið viðhöfð nafnleynd. Um það höfum við upplýsingar í hv. allshn.