Upplýsingalög

Miðvikudaginn 15. maí 1996, kl. 16:42:56 (6141)

1996-05-15 16:42:56# 120. lþ. 138.10 fundur 361. mál: #A upplýsingalög# frv. 50/1996, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 138. fundur

[16:42]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frv. til upplýsingalaga, mjög tímabær og að mörgu leyti mjög merk lagasmíð sem er fagnað af flestum þeim sem láta sig þessi mál varða. Það er tímabært að setja skýrari reglur en gilt hafa um þessi efni.

Ég vil gjarnan að það komi fram að allshn. hefur unnið mjög mikla vinnu í tengslum við þetta frv. og það hefur verið leitað eftir því að ná þar sem bestri samstöðu. Að mínum dómi er niðurstaðan þegar á heildina er litið afar góð.

Ég vildi koma hingað í ræðustól til að skýra hvers vegna ég taldi ástæðu til að skrifa undir nefndarálit og standa að þessu frv. með fyrirvara, en þar horfði ég ekki síst til 5. gr. frv. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.``

Síðan segir í greinargerð um 5. gr. m.a., með leyfi forseta, um þetta efni:

,,Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um fjárhagsmálefni einstaklinga. Þannig er t.d. almennt óheimilt að veita upplýsingar um tekjur og fjárhagsstöðu einstaklinga nema það byggist á sérstakri lagaheimild. Að því er snertir laun opinberra starfsmanna þá eru upplýsingar um föst laun og önnur föst kjör opinberra starfsmanna ekki undanþegnar aðgangi almennings. Á grundvelli 5. gr. er það aftur á móti undanþegið aðgangi almennings hver heildarlaun hver opinber starfsmaður hefur haft, hvort sem laun hans eru hærri en föst laun og kjör, sem stöðu hans fylgja, sökum unninnar yfirvinnu, eða þá lægri vegna launafrádráttar sökum fjarvista eða annarra atvika.``

Þetta segir m.a. í greinargerð um 5. gr. frv.

[16:45]

Í því samhengi að verið er að samþykkja lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna þar sem launasamningar eru færðir inn á einstakar stofnanir og búið í haginn fyrir nýju launakerfi þar sem einstaklingunum er umbunað á forsendum forstjórans og í ljósi þess að við núveradi aðstæður tíðkast það einkum í efri geira launakerfisins hjá þeim sem hæst eru launaðir, að þeir njóti margvíslegra greiðslna umfram taxtalaun eða föst laun, er mjög brýnt að upplýsingar um þennan þátt launanna verði öllum ljósar. Eins og sýnt hefur verið fram á í könnunum á vegum norræna jafnlaunaverkefnisins t.d., hefur komið í ljós að launamisrétti er að finna fyrst og fremst í þessum hluta launakerfisins, þeim hlutanum sem er ofan á hinum föstu launum. Ég lýsti þeim áhyggjum í nefndinni að með þessu lagaákvæði væri verið að setja þennan hluta launakerfisins niður í jörðina, niður í skúffu. Þess vegna gæti ég ekki fellt mig við þessa lagagrein. Það sjónarmið var hins vegar uppi í nefndinni þegar þetta var rætt að lögin ættu ekki að verða til þess að fela kjör af þessu tagi. Þess vegna var sett í álit frá allshn. sérstakt paragraf um þetta efni þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

,,Í 5. gr. frumvarpsins er fjallað um takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna, þar með talið vegna fjárhagslegra hagsmuna einstaklinga. Í athugasemdum við 5. gr. frumvarpsins kemur fram að ákvæði greinarinnar standi ekki í vegi fyrir því að almenningur fái aðgang að gögnum um föst laun og önnur föst launakjör opinberra starfsmanna. Að því leyti sem slík upplýsingagjöf fellur undir ákvæði frumvarps þessa en ekki ákvæði laga nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, leggur nefndin sérstaka áherslu á að skýra beri ákvæði 5. gr. svo að með lögum þessum sé ekki aðeins tryggður aðgangur að upplýsingum um föst laun opinberra starfsmanna heldur einnig að þeim einstaklingsbundnu samningum sem gerðir hafa verið við starfsmenn um önnur föst kjör þeirra, svo sem fasta (ómælda) yfirvinnu, akstursgjald o.fl.``

Þetta finnst mér mjög mikilvæg yfirlýsing sem kemur frá allshn. og endurspeglar í rauninni þá umræðu sem fram fór í allshn. um nauðsyn þess að lögin yrðu ekki til þess að auka á launaleynd og ég vil sérstaklega fagna þessari áherslu sem hér kemur fram. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að öll launakjör eigi að vera opin og öllum aðgengileg. Þau eiga ekki að vera felumál en ég lýsi jafnframt yfir því og ítreka það sjónarmið að með þessu móti er allshn. að lýsa því yfir að hún telur rétt að ganga langt í þá átt að launakerfið skuli vera sem allra opnast og ég vil sérstaklega fagna því. En ég kom hingað í ræðustól til þess að gera grein fyrir því hvers vegna ég skrifaði undir álitið og stend að þessu frv. með fyrirvara.