Fjárreiður ríkisins

Miðvikudaginn 15. maí 1996, kl. 17:49:44 (6152)

1996-05-15 17:49:44# 120. lþ. 138.11 fundur 297. mál: #A fjárreiður ríkisins# frv., Frsm. StB
[prenta uppsett í dálka] 138. fundur

[17:49]

Frsm. sérn. (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Umræðan í andsvörum hefur vikið nokkuð frá efni dagsins, en það er eins og verkast vill og eðlilegt er að margt beri á góma þegar verið er að ræða um mikilvæg frv.

Ég vil þakka þeim þingmönnum sem hafa tekið til máls um frv. um fjárreiður ríkisins. Þar hafa komið fram nokkur atriði sem ég vil gera að umtalsefni í lokin.

Hv. þm. Ágúst Einarsson nefndi það sem fram kom í ræðu minni þegar ég mælti fyrir nefndarálitinu, að í sérnefndinni var nokkuð fjallað um vaxtafærslurnar. Hann nefndi réttilega að e.t.v. væri meðferð og verðbólgureikningsskil okkar Íslendinga einsdæmi í veröldinni. Ég náttúrlega þori ekki að fullyrða um að svo sé. En ég vil að það komi fram að um þetta voru nokkrar umræður og niðurstaðan varð sú að gera ekki tillögu um neinar breytingar frá því sem er.

Ég vil geta þess sem fram kom í umræðum í nefndinni að þar var því m.a. haldið fram að e.t.v. hefðum við ekki komist klakklaust í gegnum verðbólguholskefluna sem yfir þjóðina reið á sínum tíma ef ekki hefði verið gripið til þessara verðbólgureikningsskila til þess að verja m.a. þá sem þurfti að verja í verðbólguskriðunni, þ.e. eigendur sparifjár m.a. Þetta vil ég að komi fram en ég vil engu að síður segja að ég tel að þó að ekki séu gerðar hér breytingar, þá er engin hætta á ferðum. Það er eðlilegt að við nýtum okkur stöðugleikann til þess að gera þær breytingar í rólegheitum sem við teljum að þurfi að gera á þessum reikningsskilum ef okkur sýnist svo. En ég tel að reikningsskilin skaði ekki á nokkurn hátt fjárreiður ríkisins eða þær færslur sem þar er um að ræða.

Ég vil taka undir það sem kom fram hjá hv. þm. Ágúst Einarssyni einnig, að frv. um fjárreiður ríkisins fjallar m.a. um áætlunargerð og eftirlit og eftirlitshlutverk löggjafarvaldsins og annarra sem þurfa að fara með það. Ég tel að frv., ef að lögum verður sem ég vona að verði, sé mjög mikilvægt og gott tæki til þess að vinna vel að fjármálum ríkisins, handavinnuna ef svo mætti segja. Frv. skapar mjög góð skilyrði til þess að öll áætlanagerð og síðan eftirlit geti farið fram á skikkanlegan og skaplegan hátt.

Ég tel að ríkið þurfi að ganga á undan með góðu fordæmi og til þess að svo sé hægt þarf löggjöfin að vera í lagi. Ríkisfyrirtæki þurfa bæði að standa þannig að sínum reikningsskilum að til fyrirmyndar sé og öryggið sé þar í fyrirrúmi.

Hv. þm. Pétur Blöndal nefndi og ræddi nokkuð um eignaskrá og uppfærslu hennar. Ég tek undir það með hv. þm. að það er mjög mikilvægt að eignaskráin sé vönduð og hún sé til og verði til og að það verði reynt að leggja mat á eignirnar hverju sinni og þær uppfærðar hverju sinni þannig að eignaskráin verði rétt á milli ára og reynt að færa eignirnar til verðs eins og nokkur kostur er.

Með frv. er skerpt á skyldum framkvæmdarvaldsins. Það fer ekki á milli mála. Það er skerpt á skyldum framkvæmdarvaldsins hvað varðar fjárreiðurnar og það er einnig skerpt á skyldum löggjafarvaldsins hvað varðar eftirlitshlutverk þess. Það er einnig reynt að skýra og skilgreina hina æðstu yfirstjórn hvað varðar fjárreiður ríkisins og þá sérstaklega Alþingi þannig að það fari ekki á milli mála hvert hlutverk löggjafarvaldsins er og þeirrar umsýslu sem á vegum löggjafarvaldsins er og svo hins vegar framkvæmdarvaldsins. Þetta er alveg nauðsynlegt að komi fram.

Vegna þess sem hv. 5. þm. Suðurl. nefndi um þau frv. sem áður hafa komið fram, þá vil ég rifja það upp. Það er rétt sem hv. þm. sagði að fjárveitinganefnd Alþingis, eins og hún hét áður, flutti á sinni tíð frv. um greiðslur úr ríkissjóði. Það voru lögð fram nokkur frv. á vegum fjárveitinganefndarinnar. En mér sýnist að það frv. sem hér var lagt fram á sínum tíma af hv. þáv. þingmönnum, Geir H. Haarde og Pálma Jónssyni og hét frv. til laga um meðferð greiðslna úr ríkissjóði umfram fjárlagaheimildir, sé e.t.v. það frv. sem hefur velt þessu af stað. Það er ánægjulegt að geta þess að Pálmi Jónsson, sem þá var þingmaður, var mjög mikill áhugamaður um að á þessum málum væri tekið og það hefði svo sannarlega verið skemmtilegt ef hann hefði getað tekið þátt í þessari umræðu, svo mikill áhugamaður um skýrar reglur hvað varðar fjármál ríkisins væru í gildi. Ég minnist þess þegar ég byrjaði í þinginu að hann hélt margar áminningarræður um það að þessum hlutum þyrfti að koma í gott lag og ég vil nota tækifærið og nefna það hér.

Virðulegi forseti. Ég vil þá ljúka máli mínu með því að þakka umræðurnar sem hafa farið fram. Ég tel að starfið í sérnefndinni hafi borið ágætan ávöxt með því að okkur tókst að ná samstöðu um þær breytingartillögur sem hér liggja fyrir. Ég tel að allar upplýsingar um fjármál séu mjög mikilvægt stjórntæki hvað snýr að ríkisfjármálum og það sé mjög mikilvægt að samræma sjónarmið þeirra aðila sem koma að framkvæmd ríkisfjármálanna þannig að menn tali sama tungumál þegar verið er að tala um fjárreiður ríkisins, þ.e. fjárlög, ríkisreikning, fjáraukalög o.s.frv., að þetta séu samanburðarhæfir hlutir og menn séu að tala um sömu hlutina. En með þessu frv., ef að lögum verður, þá tel ég að þessum hlutum verði komið í eins gott horf og mannanna verk geta verið.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta en vona að frv. nái fram að ganga fyrir þinglok.