Launakjör í utanríkisþjónustunni

Mánudaginn 04. desember 1995, kl. 15:17:24 (1554)

1995-12-04 15:17:24# 120. lþ. 50.1 fundur 115#B launakjör í utanríkisþjónustunni# (óundirbúin fsp.), MÁ
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur


[15:17]

Mörður Árnason:

Herra forseti. Í fréttum á Stöð 2 um helgina var skýrt frá starfskjörum í ótilteknu sendiráði Íslands erlendis. Meðal þeirra upplýsinga sem þar komu fram var að sendiherrann hefði um 660 þús. kr. á mánuði, ritari í sendiráðinu hefði um 275 þús. kr. á mánuði. Það væru greidd skólagjöld barna og ýmislegt fleira.

Mestallar þessar upphæðir voru skattfrjálsar. 415 af 660 þús. sendiherrans og 138, eða heldur lægra, af 275 þús. kr. ritarans. Þetta gefur tilefni til að spyrja fjmrh. í fyrsta lagi: Eru þetta réttar upplýsingar? Í öðru lagi: Þykja fjmrh. þetta eðlileg launakjör? Í þriðja lagi: Eru fyrirhugaðar breytingar á þessu og hafa komið fram slíkar breytingartillögur innan ríkisstjórnarinnar á síðustu árum? Í fjórða lagi: Eru þessar launagreiðslur á vegum fjmrn.? Ég minnist þess ekki að hafa séð sendiráðsstarfsfólk á þeim lista sem hér var sem frægastur fyrir nokkrum vikum um 200 launahæstu menn í þjónustu ríkisins.