Iðnlánasjóður

Mánudaginn 04. desember 1995, kl. 15:37:52 (1566)

1995-12-04 15:37:52# 120. lþ. 51.2 fundur 194. mál: #A Iðnlánasjóður# (tryggingalánadeild) frv., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur


[15:37]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Frv. það sem ég mæli fyrir er frv. til laga um breytingu á lögum nr. 76/1987, um Iðnlánasjóð. Í 14. gr. laga um Iðnlánasjóð er kveðið á um að við Iðnlánasjóð skuli rekin tryggingardeild útflutningslána. Meginhlutverk deildarinnar er að taka að sér að tryggja lán er veitt er innlendum framleiðendum vöru eða þjónustu til fjármögnunar á útflutningslánum sem veitt eru eða útveguð erlendum kaupendum.

Tryggingardeild útflutningslána tryggir kröfur íslenskra útflytjenda á hendur erlendum kaupendum, enda hafi þær orðið til vegna útflutnings á vöru eða þjónustu.

Jafnframt hefur tryggingardeildin selt ábyrgðartryggingar fyrir þjónustu sem íslenskir aðilar veita erlendis, sbr. 4. tölul. 14. gr. laga um Iðnlánasjóð.

Í frv. er lagt til að breytt verði umræddum 4. tölul. 14. gr. laga nr. 76/1987, um Iðnlánasjóð, og við hann bætt nýjum málslið er verði annar málsliður. Lagt er til að hlutverk tryggingalánadeildarinnar verði með því breytt þannig að starfssvið hennar víkki frá því sem nú er. Samkvæmt þeirri tillögu sem er að finna í frv. er lagt til að deildinni verði framvegis heimilt að tryggja verkábyrgðir sem íslenskum verktökum er nauðsynlegt að setja vegna verka sem þeir kynnu að hreppa í útboðum stórframkvæmda á EES-svæðinu eða í öðrum ríkjum, enda fari slíkar framkvæmdir að umfangi yfir þau mörk að væru útboðsskyldar á EES-svæðinu. Gert er ráð fyrir að starfsemi deildarinnar við veitingu ábyrgðartrygginga fyrir þjónustu sem íslenskir aðilar veita erlendis verði óbreytt að öllu leyti, sbr. 1. málsl. 4. tölul. 14. gr. sem er óbreyttur frá því sem nú er kveðið á um í lögunum um Iðnlánasjóð. Viðmiðunarmörk sem getið er um í 2. málsl. 4. tölul. 14. gr. samkvæmt frv. eiga aðeins við um veitingu verkábyrgða vegna framkvæmda innlendra aðila eins og skýrt er tekið fram.

Frv. þetta er flutt í þeim tilgangi að styrkja samkeppnisstöðu íslenskra verktaka í útboði stórframkvæmda hér á landi gagnvart erlendum keppinautum sem njóta ábyrgðar heima fyrir af því tagi sem hér er lagt til að tryggingardeild Iðnlánasjóðs verði framvegis heimit að veita.

Nú er útlit fyrir að á næstu missirum verði ráðist í nokkur stórverkefni á Íslandi sem innlendir aðilar eiga erfitt með að keppa um vegna þess að þeir geta ekki sett nauðsynlegar verktryggingar. Það er þess vegna nauðsynlegt að veita tryggingalánadeild Iðnlánasjóðs heimild til þess að tryggja verkábyrgðir íslenskra aðila vegna verkefna sem fara yfir þau stærðarmörk sem kveðið er á um í 1. gr. frv. Heimilt hefur verið hingað til að veita íslenskum aðilum verktryggingar vegna framkvæmda erlendis eins og ég hef áður vikið að, en eðlilegt þykir að slík heimild nái einnig til framkvæmda hér á landi.

Lagt er til að miðað verði við framkvæmdir sem eru það umfangsmiklar að þær væru útboðsskyldar á Evrópska efnahagssvæðinu ef um opinberar framkvæmdir væri að ræða, enda þótt einstök útboð innan heildarframkvæmdanna séu lægri. Þessi viðmiðunarmörk nema nú 5 millj. evrópskra mynteininga, ECU, eða rúmlega 400 millj. íslenskra króna. Hér er því einungis verið að ræða um umfangsmiklar framkvæmdir þar sem reikna má með samkeppni frá erlendum aðilum. Til þess að standa sig í þeirri samkeppni er íslenskum aðilum nauðsynlegt að geta tryggt verkábyrgðir sínar.

Iðgjöld sjóðsins hafa staðið að miklu leyti undir þeim kostnaði og áhættu sem af starfseminni hefur leitt. Ekki er ástæða til að breyting verði á því þrátt fyrir þessa viðbót við starfsemina.

Herra forseti. Ég hef þá lokið máli mínu og rakið helstu efnisatriði þessa frv. og vil leggja til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.