Framleiðsla og sala á búvörum

Mánudaginn 04. desember 1995, kl. 17:25:26 (1588)

1995-12-04 17:25:26# 120. lþ. 51.5 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur


[17:25]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra talar um nefnd sem eigi að koma saman á næsta ári til að ræða um framtíð kúabænda og hvernig þeir komi inn í nýja samninga á næstu árum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort í þeirri sömu nefnd yrði þá ekki rætt um framtíð sauðfjárbúskapar og framtíð þess styrkjakerfis sem þar er við lýði og er verið að festa til næstu fimm ára með þeim samningi sem hér er til umræðu. Ég vildi bara fá það skýrt fram að hlutur sauðfjárbænda í framtíðinni væri einnig til umfjöllunar í þeirri umræðu sem færi fram strax á næsta ári.

Mig langar einnig til að fá upplýsingar um það hvernig háttað verði eftirliti með þessum samningi þegar kemur að því að fylgjast með því hvernig bændur fara með ásetningarhlutföll sín, annaðhvort 0,7 eða 0,6, sem hafa áhrif á útflutning eða beingreiðslur. Hvort tveggja er mikilvægt og spurning um það hvernig ráðherrann hefur hugsað sér að ná því öðruvísi en að setja upp mikið kerfi eftirlitsmanna sem eigi að gera þetta eða hvort hann hefur séð fyrir sér eftirlitskerfi sem nú er til staðar og gæti sinnt því hlutverki.