Þingstörf fram að jólahléi

Miðvikudaginn 20. desember 1995, kl. 10:11:21 (2187)

1995-12-20 10:11:21# 120. lþ. 73.91 fundur 151#B þingstörf fram að jólahléi# (aths. um störf þingsins), JBH
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur


[10:11]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla að vona að það þurfi ekki að verða fastur liður eins og venjulega að stjórnarandstaðan kveðji sér hljóðs til þess að ræða um störf þingsins enda engin ástæða til þess að kvarta undan því við forseta. Menn segja hér: Það er ekkert samkomulag um störf þingsins. Það er ekki bara það. Staðreyndin er sú að ef um væri að ræða vilja til að ljúka verkum er stjórnarmeirihlutinn einfaldlega ekki tilbúinn til þess vegna þess að hann hefur ekki lokið sínum verkum. Það er alkunna að stjórnarmeirihlutinn getur ekki lagt fram tillögur sínar að því er varðar fjárlög af þeirri einföldu ástæðu að fjárlög eru í uppnámi, m.a. vegna þess að það er ólokið með öllu að finna lausn á fjárhagsvanda spítalanna og það mál er til faglegrar umfjöllunar í heilbrn.

Að því er varðar efh.- og viðskn. og bandorma, hringorma og skröltorma hæstv. ríkisstjórnar er því til að svara að umfjöllun þeirrar nefndar er heldur ekki lokið. Menn hafa lagt þar nótt við dag við að bæði funda og fjalla um mál, taka við nýjum og nýjum tillögum, vinna að nefndarálitum og breytingartillögum en það er enn boðaður fundur til þess að ræða um mál sem er alveg nýtt og nýlega fram komið. Það er ekki aðeins spurning um samkomulag heldur einfaldlega það, maðurinn leyfir sér að láta í ljósi efasemdir um það að stjórnarliðar geti vegna innbyrðis ósamkomulags eða verkstjórnarleysis raunverulega lokið þeirri vinnu sem þeim ber til þess að unnt sé að ljúka þinghaldi af einhverju viti fyrir jól fyrir utan það að skilaboð stjórnarliða eru dálítið misvísandi svo ekki sé meira sagt. Annars vegar eru þeir að boða gullöld og gósentíð með áli, hagvexti og björtum þjóðhagsspám en hins vegar geta þeir ómögulega lokið verkum sínum fyrir jól án þess að leggja fram bandorma og hringorma um að rjúfa þjóðarsátt um velferðarkerfið og sérstaklega að raða upp fyrir byssurnar sínar öldruðum, öryrkjum og öðrum þeim sem höllustum fæti standa í þessu þjóðfélagi.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki út af fyrir sig neina lausn á þessum málum aðra en þá að stjórnarliðar byrji á því að ljúka verkum sínum.

(Forseti (ÓE): Forseti biður hv. þm. að gæta tímamarka. Margir hv. þm. hafa kvatt sér hljóðs um störf þingsins og tíminn er takmarkaður samkvæmt þingsköpum.)