Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 20. desember 1995, kl. 14:15:31 (2218)

1995-12-20 14:15:31# 120. lþ. 73.3 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., Frsm. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur


[14:15]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (frh.):

Herra forseti. Ég vona að herra forseti hafi ekki verið að veita þessar síðustu upplýsingar með sérstakri vísan til þess að hann óttist að ég verði enn í ræðustól kl. sex og þurfi þá að gera hlé á máli mínu.

(Forseti (ÓE): Hv. þm. má ekki misskilja þessa tilkynningu forseta. Þessi tímaákvörðun er sett í samráði við þingflokksformenn.)

Já, það er nefnilega það. Það er gott að heyra. (Gripið fram í: Þetta er áskorun ...) Þetta er heldur ekki áskorun frá forseta, eða hvað?

(Forseti (ÓE): Nei, nei.)

Þá er hæstv. forsrh. væntanlega mættur til leiks og getur hlýtt á upphaf þessarar umræðu. Ég hafði einmitt hugsað mér að gera í byrjun athugasemdir við ýmislegt sem lýtur að eðli málsins og vinnubrögðum hæstv. ríkisstjórnar. Ég tek þá upp hanskann fyrir hæstv. forseta vorn sem, eins og ég sagði áðan, hefur lýst góðum áformum sínum um að betrumbæta vinnubrögð og forðast uppsöfnun mála og þann harða hnút sem þingstörfin hafa gjarnan verið komin í undir lokin, fyrir jól og að vori. En því miður verður ekki sama sagt um hv. ríkisstjórn, að hún sýni viðleitni í þessum efnum. Það á bæði við um þetta mál, hvernig það er fram borið og innihald þess. Einnig verður að segjast eins og er um viðhorf og viðmót hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. forsrh. í tengslum við þetta mál. Við í stjórnarandstöðunni höfum gjarnan reynt að fjalla þannig um frv. að við héldum aðgreindum annars vegar efniságreiningi eða pólitískum ágreiningi um einstaka þætti þess og hins vegar djúpstæðum ágreiningi sem uppi er og lýtur að vinnubrögðum og spurningu um hvort það nýmæli í lagasetningu sem hér er verið að leggja til fái yfirleitt staðist. Að Alþingi sé samboðið að vinna að lagasetningu með þessum hætti.

Ég held, herra forseti, að nauðsynlegt sé að rifja upp að við erum hér að tala um 33 lagafrv. í einu, ef menn hafa talið rétt. Hér er verið að breyta jafngjörsamlega óskyldum hlutum og framlögum til lista og menningarmála, málefnum á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs, málefnum á sviði dómsmála, réttindamálum þeirra sem orðið hafa fyrir líkamsárásum og fengið dæmdar bætur, yfir í lög um málefni fatlaðra og aldraðra, atvinnuleysistryggingar, almannatryggingar, lög um heilbrigðisþjónustu, lög um félagslega aðstoð sveitarfélaga, ferðamál, hafnamál, flugmál, lög um vernd og friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum, um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra, um húsnæðismál ríkisstofnana, um eftirlit með ráðningu starfsmanna ríkisins, um fjáröflun til vegamála o.fl., herra forseti, ekki er allt talið. Það er ekki ýkjamikið eftir af lagasafninu, ef út í það er farið. Það fer að verða spurning hvort borgi sig yfirleitt að leggja fram nema eitt frv. á hverju þingi. Við siglum hraðbyr í þá átt að hæstv. ríkisstjórn geti lagt fram eitt frv. á hausti, tínt inn í það allt sem henni sýnist, nema kannski stjórnarskrárbreytingar, það stæði e.t.v. eitthvað í mönnum fyrst um sinn a.m.k. Síðan sé þeirri súpu allri saman troðið í gegn með góðu eða illu, sem oftast mundi þá verða, fyrir jól og svo kannski aftur að vori. Þingstörfin verði þá fyrst og fremst fólgin í afgreiðslu tveggja bandorma. Það er ekki að verða langur vegur frá því að svo sé.

Grundvallaratriði málsins, sem nauðsynlegt er að taka á í byrjun --- nú væri æskilegt að hæstv. forsrh. legði eyrun vel við. Nú veit ég ekki hversu fjölhæfur maður hann er, hvort hann geti gert hvort tveggja í senn, rætt við hv. þm. Vilhjálm Egilsson og hlustað. Hæstv. forsrh. kinkar kolli og virðist þannig gefa sjálfum sér þá einkunn að hann ráði við hvort tveggja í senn. Er það þá meira en ónefndur forseti Bandaríkjanna var sagður geta því hann ku ekki hafa getað jórtrað tyggigúmmí og gengið samtímis, svo vel færi.

Ég held að hæstv. forsrh. verði að gjöra svo vel og taka alvarlega þær athugasemdir okkar að í þessum bandormi er farið út á alveg nýja braut. Það er eðlisbreyting á þessu máli, borið saman við önnur sambærileg sem hér hafa verið til umfjöllunar á undanförnum árum og hafa þau þó ekki þótt góð latína. Ekki þótt fyrirmyndarvinnubrögð við lagasetningu. Þessi eðlismunur liggur í því, herra forseti, að í frv. eru gerðar í mörgum tilvikum tillögur um varanlegar lagabreytingar, um stefnubreytingar í grundvallarmálaflokkum. Það er auðvitað með ólíkindum að menn skuli í einu og sama frv. með þessum hætti vera að leggja til kannski stærstu pólitísku breytinguna á grundvelli velferðarkerfisins sem við höfum séð framan í í langan tíma og ætla að gera það svona. Að læða því með í bandormi sem að nafninu til er sagður vera tengdur afgreiðslu fjárlaga. Svo vill svo nöturlega til að vegna þeirrar meðgjafar sem hæstv. ríkisstjórn lét af hendi rakna í tengslum við framlengingu kjarasamninga á dögunum þá eru viðkomandi ákvæði hætt að hafa útgjaldaáhrif. Þau hafa ekki lengur útgjaldaáhrif á komandi ári vegna þess að búið er að hækka bæturnar eða ákveða að hækka þær þannig að það skiptir engu máli hvort gildandi lagaákvæði stæðu áfram eða ekki. Sú tenging við afgreiðslu fjárlagafrv. sem að nafninu til var röksemdin fyrir því að hafa þetta inni í bandormi er því farin. Ekkert stendur eftir annað en að metnaðarleysi hæstv. ríkisstjórnar og meiri hluta hennar á Alþingi við vinnubrögð við lagasetninguna er með þessum endemum. Þetta er, herra forseti, afar dapurlegt.

Ég held að hæstv. forseti vor verði aðeins að huga að því út frá sjónarhóli Alþingis sem stofnunar og sjálfstæði löggjafarvaldsins hvert er verið að fara með þessu. Nú er það svo, herra forseti, að það gilda hér ákveðnar leikreglur, þingsköp, sem eru lög í landinu og eftir þeim skal fara. Þar er m.a. kveðið á um að til þess að tryggja vandaða málsmeðferð skuli hvert einstakt lagafrv. fá sjálfstæða umfjöllun og fara í gegnum þrjár umræður á þingi. Að sumu leyti eru þessi vinnubrögð bundin í stjórnarskrá, ef ég man rétt. Ég sé ekki annað en að menn séu hér komnir út á mjög grátt svæði. Þá er vel við hæfi að að þingflokkur sem að þessu stendur, undir forustu hæstv. forsrh., skartar víst flestum lögfræðititlum af öllum, a.m.k. örugglega öllum þingflokkum á Íslandi ef ekki í Evrópu eða heiminum. Menn komast helst ekki á þing fyrir Sjálfstfl., eins og kunnugt er, nema vera lögfræðingar. Karlkyns lögfræðingar á milli fertugs og fimmtugs eru eitthvað um 75% af þingflokki Sjálfstfl. Það er kannski aðeins fært í stílinn en það munar ekki miklu. Þá er það nú aðallega aldursbilið sem er ekki nákvæmt en ekki að miklu skakki að lögfræðingahlutfallið sé þetta hátt. (Gripið fram í.) Það er þá þannig sem þeir vilja halda í heiðri orðstír stéttar sinnar að taka upp algjört nýmæli hvað varðar metnaðarleysi og sóðaskap í vinnubrögðum við lagasetningu.

Við höfum, herra forseti, til að reyna að greiða fyrir afgreiðslu mála, margboðið upp á að einangra deilur um hina formlegu hlið málsins og vinnubrögð frá, til að þau megi leiða til lykta að siðaðra manna hætti. Menn þurfa þá ekki að standa í deilum um leikreglurnar en pólitískur ágreiningur um innihald málsins hefur sinn gang. Að sjálfsögðu gerum við okkur ljóst að ef ríkisstjórnin er staðráðin í að afnema öryggisnetið undir velferðarkerfinu sem aldraðir, öryrkjar og atvinnulausir hafa búið við í gegnum tengingu og viðmiðun við launaþróun í landinu þá verður það að vera hennar mál. Við höfum ekki stöðu til að hindra framgang þess að hún nái fram pólitísku áhugamálum sínum, svo geðsleg sem þau eru. En hitt þykir okkur mjög sárt að það skuli ekki heldur vera hægt að ná neinu tauti við hæstv. ríkisstjórn um formlega hlið málsins og góð vinnubrögð í þinginu. Og það eins þótt hæstv. forseti þingsins sé allur af vilja gerður og hafi lagt sitt lóð á vogarskálar til að það verði reynt. Þau skilaboð eru borin trekk í trekk inn í efh.- og viðskn. og til stjórnarandstöðunnar að þar strandi fyrst og fremst á flutningsmanni málsins, hæstv. forsrh. Hann. sé alveg ósveigjanlegur og ákveðinn í að hann vilji reisa sér þessa níðstöng sem eðli frv. er og komast á spjöld sögunnar fyrir að hafa orðið fyrsti hæstv. forsrh. sem leggur slíka hluti fyrir Alþingi, með þessum endemum. Ég held að það verði þá að hafa sinn gang ef hæstv. forsrh. vill endilega að eftirmælin um sig verði eins og þá er stofnað til.

Þetta er óhjákvæmilegt að nefna hvað vinnubrögðin snertir. Að öðru leyti vísa ég til þess sem komið hefur ítrekað fram á undanförnum sólarhringum, að hæstv. ríkisstjórn hefur, hvað vinnulag snertir, tafið mjög allan framgang mála. Það er að koma upp nánast á hverjum sólarhring ný og ný mál sem hæstv. ríkisstjórn ákveður að leggja fyrir þingið, flytja í formi nýrra frv. eða brtt. Fréttir koma utan úr bæ af einstökum ákvörðunum hæstv. ráðherra, til að mynda gjaldskrárhækkunum í heilbrigðismálum sem fréttir bárust af í gær að hæstv. heilbrrh. hefði ákveðið. Það koma upp fréttir um að sópað hafi verið undir teppið stórfelldum óleystum vanda á stærstu heilbrigðisstofnunum þjóðarinnar. Við þessar aðstæður er náttúrlega ekki von að vel gangi að koma saman í einn pakka afgreiðslu fjárlaga, tekjuöflunarfrv. og efnahagsfrv., eins og þess sem hér um ræðir. Það er varla von á góðu. Hvert einasta af þessum málum sem nú er til umfjöllunar hefur verið þannig úr garði gert þegar það hefur komið til umræðu að því hafa fylgt yfirlýsingar frá meiri hlutanum um að fyrir fram lægi fyrir að málið væri hálfkarað og yrði að fara aftur til nefndar á milli 2. og 3. umr. Það á við um þetta mál. Því er lýst yfir í annars einhverri stystu framsöguræðu í stórmáli sem flutt hefur verið í þingsögunni, þegar hv. þm. Villhjálmur Egilsson talaði í kannski 90 sekúndur og mælti fyrir þessu máli, að það væri hálfkarað og efh.- og viðskn. yrði að koma saman á nýjan leik á milli 2. og 3. umr. Þar lægi fyrir að gera þyrfti breytingar og bæta inn í frv. hlutum sem hæstv. ríkisstjórn væri með í höndunum. Þetta eru ástæðurnar. Þetta átti við um tekjuskatt og eignarskatt og að sjálfsögðu um fjárlagafrv. þar sem 43% af fjárlögunum, öllum heilbrigðismálunum, var frestað til 3. umr. Þetta á við um þetta bandormsfrv. Það liggur fyrir að þar eru óleyst mál, lausir endar sem á að reyna að hnýta upp á við 3. umr., eftir umfjöllun í nefnd milli umræðna. Svona er það nú, herra forseti.

Ég sný mér síðan að því að taka fyrir einstaka efnisþætti í frv. Þeir eru þannig upp settir í nál. minni hlutans, á þskj. 433, að fjallað er um helstu efniskafla frv. í 19 tölusettum liðum. Þetta var gert til þess að reyna að einfalda uppsetningu málsins og umfjöllun um það vegna þess að það yrði seinlegt, svo ekki sé nú meira sagt, að ræða frv. grein fyrir grein. Þess vegna höfum við valið að reyna að setja upp sem sjálfstæða efniskafla í aðalatriðum þau mál sem heyra undir hverja einstaka fagnefnd í þinginu. Það dregur athyglina að því að það væri það minnsta að þessi mál væru lögð fyrir þingið í formi svo sem eins og tíu frv. Þannig væri safnað saman í eitt frv. ákvæðum á sviði menntamála, í annað ákvæðum á sviði samgöngumála o.s.frv., svo dæmi séu tekin. En því er nú ekki að heilsa og því er okkur ekki gefinn kostur á öðru, herra forseti, en að fjalla um þetta með þessum hætti.

[14:30]

Þá vil ég skjóta því inn að vitaskuld gerum við ráð fyrir og dettur ekki annað í hug en að fagráðherrar viðkomandi málaflokka verði viðstaddir umræður um sín málefni eða málefnasvið. Einstökum köflum bandormsins var vísað til fagnefnda og það hlýtur að teljast jafnsjálfsagður hlutur að ráðherra viðkomandi málaflokks verði viðstaddur umræðu um þá þætti. Ég bendi því hæstv. forseta á að hafa til hliðsjónar nál. fyrsta minni hluta og gera ráðherrum aðvart um að nærveru þeirra sé óskað alveg sérstaklega í takt við það sem umfjöllun um einstaka efnisflokka miðar fram. Að sjálfsögðu gefum við okkur að ráðherrar sinni embættisskyldum sínum og séu hér viðstaddir. Þá væri til að mynda röðin komin að hæstv. menntmrh. fyrstum þar sem fyrstu fimm greinar frv. og fjögur mismunandi lagaákvæði fjalla um málefni á sviði menntamálanefndar. Ég byrja á því, herra forseti, að óska eftir því að menntmrh. verði viðstaddur.

(Forseti (GÁ): Hæstv. menntmrh. situr hér og hlýðir á mál hv. þm.)

Ég skal ekki gera athugasemdir við það, herra forseti, ef menntmrh. hæstv. líður betur í hliðarsal en í sæti sínu en sný mér að því að fjalla um þau mál. Í fyrsta lagi er í 1. gr. fjallað um Listskreytingasjóð. Þar er á ferðinni ákvæði sem mundi gera varanlega skerðingu á núverandi ákvæðum 3. gr. laganna sem kveða á um tilteknar tekjur í Listskreytingasjóð en stefna ríkisstjórnarinnar felur í sér að Listskreytingasjóður skuli ekki hafa neinn fastan tekjustofn og enga fasta fjárveitingu til að byggja starfsemi sína á heldur sæta geðþóttaákvörðunum ríkisvaldsins um fjárveitingar á hverju ári. Um þetta atriði og svo fjölmörg önnur sem á eftir fylgja gilda því athugasemdir okkar um form frv. Við teljum óeðlilegt að farið sé inn í sérlög með þessum hætti, að vaðið sé inn í sérlög og gerð á þeim grundvallarstefnubreyting í bandormsfrv. af þessu tagi. Að öðru leyti er ekki annað um Listskreytingasjóð að segja en það að nokkur hækkun mun þrátt fyrir allt hafa fengist á framlagi til sjóðsins við 2. umr. fjárlaga og er það vel því sannanlega gegnir hann mikilvægu verkefni þó sorglega litlir fjármunir hafi þar verið á ferðinni hin síðari ár til þess að fegra og betrumbæta opinber mannvirki okkar og sinna öðrum þeim verkefnum sem sjóðurinn fer með.

Í öðru lagi er í 2. gr. lögð til breyting á lögum nr. 94/1984, um kvikmyndamál. Þá er fyrst og fremst verið að breyta ákvæðum um Kvikmyndasjóð, þ.e. 5. gr. laganna um Kvikmyndasjóð. Þar er lögð til varanleg breyting, í stað þeirra tekna sem Kvikmyndasjóður á að hafa samkvæmt gildandi lögum og eiga að jafngilda í grófum dráttum tekjum ríkisins af virðisaukaskatti af kvikmyndum eða skatttekjum af kvikmyndum, hvernig sem það er nákvæmlega orðað, þá er lagt til að framlagið verði árlegt úr ríkissjóði eftir því sem ákveðið er í fjárlögum hverju sinni. Hér er auðvitað á ferðinni formbreyting en líka spurning um grundvallarstefnumið í þessum efnum hvort menn telja óskynsamlegt að viðhalda þeirri viðmiðun að til kvikmyndagerðar í landinu renni fjárframlög sem taki mið af því sem umsvifin í þessari grein eru að gefa ríkissjóði í tekjur með beinum hætti í gegnum virðisaukaskatt og aðra skatta. Er óskynsamlegt að ríkið skili sem stuðningi við þessa listgrein a.m.k. sambærilegum fjárhæðum og það halar beinlínis inn? Nú er ekki um það deilt að íslensk kvikmyndagerð hefur náð ótrúlegum árangri við erfiðar aðstæður og það er auðvitað alveg einstakt í heiminum að það skuli þrátt fyrir allt vera framleiddar hér vandaðar myndir sem jafnvel vinna til verðlauna sem ekki hafa við annað að styðjast heima fyrir en þennan örsmáa markað sem við erum og afar takmarkaða fjármuni sem hefur verið unnt að veita til slíkra hluta á undanförnum árum. Samt hefur það gerst ítrekað að íslenskar myndir hafa borið hróður landsins víða og orðið okkur góð landkynning og vakið athygli á þeirri menningu og mannlífi sem hér þrífst. Þarna hefur hæstv. ríkisstjórn ákveðið að troða fram þessari nýju stefnu eins og á fjölmörgum öðrum sviðum.

3. gr. fjallar um útvarpslög. Þar er á ferðinni gamall kunningi sem oft áður hefur sést, að aðflutningsgjöld af hljóðvarps- og sjónvarpstækjum renna í ríkissjóð í staðinn fyrir að mynda tekjustofn fyrir framkvæmdir og fjárfestingar hjá Ríkisútvarpinu. Um þetta er ekkert að segja nema það eitt sem lýtur að forminu að hér er lögð til varanleg breyting á þessu en ekki sami frágangur og verið hefur, að þetta sé þá takmarkað við tímabil þeirra fjárlaga sem verið er að ganga frá. 4. gr. tengist því sama.

5. gr. fjallar um breytingu á þjóðminjalögum. Þar er á ferðinni langalvarlegasta ákvæðið hjá hæstv. ríkisstjórn sem fellur undir þennan lið um menntamálin. Það er spurning hvort hæstv. menntmrh. er tilbúinn til að leggja aðeins eyrun við. Leggja t.d. frá sér blaðið og hlusta smá stund. Það sem hér er að gerast er býsna mikil valdníðsla af hálfu ríkisins svo ekki sé nú meira sagt ef þetta nær óbreytt fram að ganga. Hvað er þarna á ferðinni? Jú, það er að framlög til þjóðminjavörslu, einkum og sér í lagi framlög í svonefndan húsafriðunarsjóð, hafa verið samstarfsverkefni ríkisins og sveitarfélaganna og eru samkvæmt gildandi lögum. Þar er gert ráð fyrir að hvor aðili um sig leggi fram 100 kr., ríkið miðað við alla landsmenn og sveitarfélögin miðað við íbúa í viðkomandi sveitarfélagi. Þannig sé tekjustofninn myndaður sem sjái síðan um þetta brýna verkefni að varðveita menningarsögulega verðmæt hús og sjá um að halda þeim við og verja þau skemmdum og hafa þau í sómasamlegu ástandi.

Húsafriðunarsjóður hefur því miður fengið allt of lítið fjármagn á undanförnum árum og það bíða tugir ef ekki hundruð mikilvægra verkefna af því tagi sem er sárgrætilegt að ekki skuli vera unnt að ráðast í, ég tala nú ekki um á tímum atvinnuleysis því fátt er meira atvinnuskapandi en einmitt það að sinna slíkum verkefnum sem eru fyrst og fremst vinna þar sem útgjöldin eru einkum fólgin í launagreiðslum. Ég hef einhvern tímann sagt í umræðum um slík mál að það væri sennilega ekki til í heiminum jafngott verkefni af því tagi eins og að viðhalda t.d. gömlu torfbæjunum. Það er vinna, ekkert nema vinna, torfið er ókeypis í flestum tilvikum geri ég ráð fyrir. Þar af leiðandi er það svo að varsla slíkra menningarverðmæta er nánast hrein vinna.

En hvað á svo að leggja hér til, herra forseti. Það er ekki að sinna þessum málum betur eða gera einhverjar breytingar á þessu í takt við sveitarfélögin og í sátt við þau. Nei, hæstv. ríkisstjórn leggur til að ríkið dragi sig einhliða út úr þessum samskiptum að því leyti til að það ákveði hér eftir á fjárlögum einhverja upphæð sem því sýnist hverju sinni að eigin geðþótta en sveitarfélögin eiga samkvæmt ákvæðinu að sitja áfram uppi með þá lagaskyldu að leggja í þetta verkefni 150 kr. á hvern íbúa. Talan er hækkuð samkvæmt frv. úr 100 í 150. Hvers konar samskipti eru þetta, herra forseti? Hvers konar framkoma er þetta við sveitarfélögin? Úr því að ríkið telur sig geta með þessum hætti ákveðið að það þurfi ekki að leggja þarna fram neina tiltekna fjármuni frekar en því sýnist hvers vegna í ósköpunum eru þá sveitarfélögin ekki látin fá sama frjálsræði? Er stætt á því að koma svona fram í samstarfsverkefni af þessu tagi? Hvað með fjármálalegt sjálfstæði sveitarfélaganna í því sambandi? Hvað með það að sveitarfélögin eru eða eiga a.m.k. að vera að nafninu til óháð stjórnsýslustig sem ríkið er meira að segja beinlínis samningsbundið til að taka tillit til? Ég veit ekki betur en Íslendingar hafi staðfest m.a. evrópskan sáttmála um samskipti ríkis og sveitarfélaga og sjálfstæði sveitarfélaganna gagnvart löggjafanum eða ríkisvaldinu. Að sjálfsögðu er þá ætlunin að slík samskipti séu á siðaðra manna grundvelli.

Herra forseti. Ég tel þetta mjög ósanngjarnt ákvæði og hæstv. menntmrh. vera mann að minni að láta þetta standa hér. Ég skil ekki hvað hæstv. menntmrh. er að fara í þessum efnum og hvers vegna hann vill kosta til þeim óvinsældum sem hljóta að leiða af þessu. Því það gefur auga leið að sveitarfélögin taka eftir þessari framkomu í sinn garð og hún getur ekki verið gott innlegg í samskipti ríkis og sveitarfélaga og ekki gott veganesti fyrir t.d. hæstv. mennmrh. í sambandi við það vandasama mál sem hann er með í höndum og lýtur að yfirfærslu grunnskólans til sveitarfélaganna. Þetta er náttúrlega í takt við þann valdhroka sem kemur fram í hverju málinu á fætur öðru og einkennir framgöngu ríkisstjórnarinnar í öllum tilvikum.

Í öðru lagi eru hér málefni á sviði landbúnaðar og væri gaman að vita hvar hæstv. landbrh. er til sjós eða lands. Ágætt væri að forseti gerði honum grein fyrir því að hans nærveru væri óskað hér eins og annarra fagráðherra.

(Forseti (GÁ): Hæstv. landbrh. er ekki staddur í húsinu.)

Herra forseti. Mig langar til að spyrja hversu margir hæstv. ráðherrar eru staddir í húsinu af þeim sem eiga aðild að málum í dag. Eru hér hæstv. landbrh., hæstv. sjútvrh. er hér sé ég, hæstv. samgrh. á hér stórmál undir, heilbrrh., félmrh. Ég held að það sé alveg eins gott að fá þetta upplýst strax.

(Forseti (GÁ): Hæstv. samgrh. mun vera með leyfi í dag. Ég sé það á töflu þingsins.)

Í allan dag? Er ætlunin að umræðunum verði samt haldið áfram og þá jafnvel um málaflokka hans engu að síður? Ég held að við hljótum að sjá það, herra forseti, ef hér væru flutt ein tíu frv. þar sem eitt væri á sviði samgöngumála, annað á sviði heilbrigðismála, mundi engum detta í hug að umræðan færi fram nema ráðherra viðkomandi málaflokks væri viðstaddur. Það kæmi það ekki til tals. Ég óska því eftir því að hæstv. forseti geri gangskör að því að ráðherrarnir geti orðið viðstaddir og það fyrr en seinna. Ella held ég að það sé ekki um annað að ræða en að fresta umræðunni ef ríkisstjórnin leggur ekkert á sig til að vera hér viðstödd og taka þátt í málum.

(Forseti (GÁ): Forseti hefur gert ráðstafanir samkvæmt óskum hv. þm. þannig að hann getur haldið áfram ræðu sinni.)

Það er nú það, herra forseti, hvort ég get það. Ég sé engan ráðherra. Ég lít á vinstri hönd og þar eru fimm tómir stólar. Á hægri hönd eru líka fimm tómir stólar en síðast þegar ég vissi voru tíu manns í ríkisstjórninni. Þetta mundi samkvæmt mínum útreikningum þýða að enginn ráðherra væri í þingsalnum.

(Forseti (GÁ): Hins vegar ef við lítum hér aðeins lengra þá sjáum við að þar sitja tveir hæstv. ráðherrar og hlýða á mál hv. þm.)

Að vísu og svo eitt ráðherraígildi má segja þar sem er hv. þm. Össur Skarphéðinsson. En það er nú ekki það sem hér er spurt um. Ég vil ítreka það að ég óska eftir að hæstv. landbrh. verði viðstaddur.

(Forseti (GÁ): Forseti hefur sagt það áður að hann hefur gert ráðstafanir til þess að landbrh. komi innan stundar.)

Á ég þá að fresta máli mínu á meðan?

(Forseti (GÁ): Að sjálfsögðu.)

Þá þigg ég það, herra forseti.

(Forseti (GÁ): Fleiri hv. þm. eru á mælendaskrá.)

Ég geri ekki ráð fyrir að þeir hafi áhuga á að tala yfir tómum sölum frekar en ég.

(Forseti (GÁ): Til máls tekur hv. 9. þm. Reykv., Jón Baldvin Hannibalsson.)

(JBH: Ég óska eftir því eindregið, herra forseti, á sömu forsendum að fresta ræðu minni þangað til sá ráðherra sem beina á málinu að er í salnum.)

(Forseti (GÁ): Hverjar eru óskir hv. þm.?)

(JBH: Ég vísa til allra lagabálkanna sem eru á dagskrá.)