1995-12-21 03:01:38# 120. lþ. 73.11 fundur 43. mál: #A lánsfjárlög 1996# frv., Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur


[27:01]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögum frá meiri hluta efh.- og viðskn. um frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1996. Ég vek athygli á að ég mæli einungis fyrir breytingartillögum sem eru á þskj. 422. Ég hyggst draga til baka við 2. umr. brtt. á þskj. 456 og mæli því eigi fyrir þeirri tillögu hér.

Þær breytingartillögur sem meiri hluti efh.- og viðskn. gerir við frv. til lánsfjárlaga eru eftirfarandi:

Í 1. lið eru lagðar til þær breytingar að upphæð lækki og 3. og 6. tölul. falli brott. Þeir flytjast í rauninni til milli greina.

Í 2. lið er lagt til að lánveitingaheimild til Rafmagnsveitna ríkisins verði hækkuð. Rafmagnsveiturnar fá lántökuheild samkvæmt frv. vegna yfirtöku á veitum. Veiturnar hafa orðið fyrir nokkrum skráveifum vegna þess að það þarf að endurnýja nokkrar línur með lagningu jarðstrengja og því er fyrirtækinu nauðsynlegt að fá auknar lántökuheimildir.

Í 3. lið er lagt til að það komi inn ný grein þar sem fjmrh. verði heimilt að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lántöku eftirtalinna aðila: Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar, allt að 470 millj. til skuldbreytingar eldri lána. Bæjarveitna Vestmannaeyja, allt að 24 millj. til skuldbreytingar. Lyfjabúð Háskóla Íslands, allt að 110 millj. kr. vegna kaupa á fasteigninni Austurstræti 16 í Reykjavík. Flugmálastjórn, allt að 92 millj. kr. til endurnýjunar á flugvél. Þetta er í rauninni framlenging. Ríkisútvarpið, allt að 200 millj. kr. vegna kaupa á langbylgjusendi. Þetta er liður sem fluttist til á milli greina. Loks er lagt til að Orkusjóður geti tekið lán með sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs, allt að 15 millj. kr. til jarðhitaleitar á þeim svæðum þar sem ástæða er til að slíkt fari fram.

Í 4. lið er lagt til að inn komi þrjár nýjar greinar. Í fyrsta lagi að Stofnlánadeild landbúnaðarins verði heimilt að taka allt að 350 millj. kr. viðbótarlán á árunum 1995 og 1996 vegna skuldbreytinga á lausaskuldum bænda. Þetta er kunningi frá því fyrir ári síðan. Þá var við það miðað að þessi heimild yrði upp á 900 millj. en síðan kom í ljós að eftirspurnin eftir þessum skuldbreytingarlánum er meiri en svo og eftirspurnin fellur bæði til á þessu ári og því næsta. Því er nauðsynlegt að Stofnlánadeildin fái heimild til þess að taka allt að 350 millj. kr. í viðbót til að skuldbreyta lausaskuldum bænda.

Í öðru lagi er lagt til að fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs verði heimilt að yfirtaka allar skuldir Herjólfs hf. vegna kaupa á ferjunni Herjólfi. Hér er loksins komið að því að menn horfist í augu við þann vanda sem Herjólfur hf. hefur átt við að glíma vegna fjármögnunar á ferjunni milli lands og Eyja. Þetta er ákveðið hreingerningamál sem er nauðsynlegt að sé á hreinu.

Í þriðja lagi er lagt til að fjmrh. verði fyrir hönd ríkissjóðs heimilað að gefa út að nýju viðbót inn í eldri flokka spariskírteina ríkissjóðs sem ekki eru komnir á gjalddaga í þeim tilgangi að stækka slíka flokka og gera þá markaðshæfari. Meiningin með þessu er að koma til móts við fjármagnsmarkaðinn og auðvelda starf viðskiptavaka þar sem viðskipti með þessi bréf, sérstaklega á eftirmarkaði, verða þjálli þegar flokkarnir eru stærri.

Síðan er í 5. lið lagt til að lántökuhemildir sem Stofnlánadeildin fær á árunum 1995 og 1996 eigi við einnig á árinu 1995. Þetta er nauðsynlegt til þess að hægt sé að nýta þessar heimildir á yfirstandandi ári eins og á því næsta. En að sjálfsögðu er meginefni frv. eins og nafn þess gefur til kynna um lánsfjárbúskap ríkissjóðs á árinu 1996.