1995-12-21 03:07:16# 120. lþ. 73.11 fundur 43. mál: #A lánsfjárlög 1996# frv., Frsm. minni hluta JBH
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur


[27:07]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta efh.- og viðskn. um frv. til lánsfjárlaga á þskj. 445. Undir það rita auk mín þeir hv. þm. Ágúst Einarsson og Steingrímur J. Sigfússon. Kristín Ástgeirsdóttir sat fundi efh.- og viðskn. í þessu máli sem áheyrnarfulltrúi lýsir sig samþykka áliti minni hlutans.

Ég ætla ekki að lengja þessar umræður með því að rekja þá gagnrýni sem fram kemur í nefndarálitinu á þá lausbeisluðu og ómarkvissu stefnu sem okkur sýnist birtast í frv. til lánsfjárlaga. Þar er drepið á staðreyndum um hina hrikalegu skuldasöfnun sem enn heldur áfram á vegum ríkisins og athygli vakin á því að á undanförnum árum hefur verulegur árangur náðst á grundvelli aukins stöðugleika, bæði vegna þess að það hefur dregið úr skuldasöfnun fyrirtækja og eins hins að þótt skuldasöfnun heimila sé vissulega alvarleg og hafi farið vaxandi, þá eru ýmis merki þess að það versta sé afstaðið þar. En það er í þessum samanburði staðreynd að ríkisbúskapurinn er áberandi verst staddur að því er varðar aðhaldssemi og ráðdeild í rekstri. Skuldasöfnunin þar er mest og fer vaxandi.

Í ljósi þess að umskipti hafa orðið til hins betra í efnahagsmálum almennt er augljóst að aðhaldssemi er nauðsynleg, sérstaklega í ljósi þess hve ríkisfjármálin hvíla á veikum grunni. Útgjaldaþenslan er það mikil og hallarekstur heldur þar áfram og því hefði verið nauðsyn á því að aukin aðhaldssemi hefði birst í frv. til lánsfjárlaga og að þeim tækjum á sviði peningamála sem hér er verið að fjalla um, yrði beitt til frekari aðhaldssemi. Því er heldur ekki að heilsa.

Að því er varðar einstök mál, þá vekjum við athygli á nokkrum þeirra og þá sérstaklega á þeirri staðreynd að skuldavandi, uppsafnaður til margra ára varðandi málefni Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar er óleystur og engin viðleitni uppi af hálfu núverandi ríkisstjórnar til þess að taka á því máli. Enn fremur vekjum við athygli á skuldastöðu Byggingarsjóðs verkamanna og háskalegri stöðu hans sem blasir við ef ekki verður um aukin framlög að ræða. Að öðrum kosti þarf að hækka vexti af lánum ef sjóðurinn á ekki að lenda í fyrirsjáanlegu greiðsluþroti.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar en vísa til nefndarálitsins um frekari rökstuðning fyrir afstöðu okkar sem er sameiginleg af hálfu minnihlutaflokkanna.

Að því er varðar fram komna brtt. á þskj. 456 frá meiri hluta efh.- og viðskn. og framhaldsnefndarálit á þskj. 458 sem varðar tillögu um ríkisábyrgð til einkaaðila, fyrirtækisins Spalar hf., þá vil ég taka það fram að þetta mál kom ekki fram fyrr en minni hlutinn hafði lokið umfjöllun um málið og skilað nefndaráliti sínu. Samkomulag er orðið um að þetta mál er tekið til baka til 3. umr. svo sem rök standa til. Ég mun því ekki við þessa umræðu ræða það mál frekar en læt mér nægja að lýsa því yfir að við teljum þetta stórlega gagnrýni vert en munum rökstyðja það við 3. umr.