Ferill 71. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 71 . mál.


71. Tillaga til þingsályktunar



um skipun nefndar um menningar- og tómstundastarf fatlaðra.

Flm.: Margrét Frímannsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að skipa fimm manna nefnd til að kanna á hvern hátt fatlaðir geti notið sumarleyfa, tómstunda, lista og menningarlífs á sama hátt og aðrir í þjóðfélaginu og gera tillögur um úrbætur. Nefndina skipi fulltrúi ráðuneytis, einn frá Samtökum sveitarfélaga, einn frá svæðisskrifstofum um málefni fatlaðra, einn frá Öryrkjabandalaginu og einn frá Þroskahjálp.

Greinargerð.


    Margt hefur áunnist í málefnum fatlaðra á liðnum árum. Komin er æskileg sátt um meginatriði í búsetumálum fatlaðra og aðbúnað á heimilum þeirra. Ýmislegt fleira mætti upp telja sem áunnist hefur þótt vissulega sé vandi allt of margra enn óleystur.
    Margt af því sem eðlilegt er talið og eftirsóknarvert hjá þorra þjóðarinnar hefur ekki komist til framkvæmda hjá fötluðum og reyndar varla orðið tilefni umræðu þegar þeirra málefni ber á góma. Má þar til dæmis nefna alla þá uppbyggingu er orðið hefur á síðustu árum á sviði lista og menningar og fjölbreytt tækifæri til tómstunda og skemmtanalífs. Fyrir þessari uppbyggingu hefur ríkið staðið, í mörgum tilvikum í samstarfi við sveitarfélögin, eða um hefur verið að ræða stuðning ríkis með framlögum til reksturs og/eða framkvæmda. Með stuðningi sínum hafa ríki og sveitarfélög viðurkennt það sem samfélagslegt verkefni að auðvelda þjóðinni aðgang að hvers konar menningar- og listastarfsemi, svo og tómstundaiðkun. Þá hefur rekstur og uppbygging listaskóla verið styrkt af ríki árum saman.
    Margir fatlaðir búa yfir lista- og sköpunargáfu á ýmsum sviðum sem hægt er að virkja, þeim og öðrum til þroska og gleði. Þær almennu menntunarleiðir, sem bjóðast á þessu sviði, henta mörgum fötluðum ekki án sérstakrar aðstoðar. Mikilvægt er að gefa þessu hæfileikafólki sömu möguleika á að virkja og þroska hæfileika sína og aðrir njóta.
    Á árinu 1994 fóru 144.442 Íslendingar utan og greiddu í fargjöld um 4 milljarða kr. og eyddu í ferða- og dvalarkostnað erlendis um 17,5 milljörðum kr. eða samtals í ferðakostnað um 21,5 milljörðum íslenskra kr. Fjöldi ferðamanna sýnir að hin margvíslegu ferðatilboð sem bjóðast gera stórum hluta þjóðarinnar kleift að ferðast og kynnast öðrum löndum og þjóðum. Þessi tilboð standa fötluðum einnig til boða, en þeir sem vegna fötlunar geta ekki ferðast einir verða að kaupa sér aðstoð sem þýðir að þeir verða að greiða allt að tvöfaldan kostnað vegna ferða og uppihalds fylgdarmanns sé ekki um að ræða ferðir sem sérstaklega eru skipulagðar fyrir fatlaða.
    Annað dæmi skal nefnt sem lýtur að sumarleyfum eða orlofsdvöl. Fjölmörg launþegafélög og samtök launþega eiga nú hundruð sumarbústaða, orlofsheimili og orlofsíbúðir til afnota fyrir félagsmenn sína. Þorri fatlaðra hefur engan rétt til þessara bústaða vegna þess að þeir eru ekki meðlimir í launþegafélögum. Þótt þeim bjóðist af og til bústaðir til afnota fyrir velvilja eigenda sitja þeir ekki við sama borð og aðrir. Kostnaður við aðstoð og fylgd er fjárhag þeirra ofviða þótt þeir gætu staðið undir eigin ferða- og uppihaldskostnaði. Þá er full ástæða til að geta þess að það heyrir til algjörra undantekninga ef hús og umhverfi er hannað með tilliti til fatlaðra.
    Mörg önnur atriði mætti upp telja, en það verður ekki gert hér. Á þetta er bent þar sem hvergi er gert ráð fyrir aðstoð eða fjármagni til að standa undir þeim kostnaði sem hér um ræðir og fötluðum, sem gert er að lifa á tryggingabótum, er fjárhagslega ofviða.
    Ástæða er til að hefja umræðu um lífsgæði fatlaðra utan grundvallarþarfa og fá tillögur til úrbóta.


Fylgiskjal.

Þjóðhagsstofnun:


Tafla 1.

Kostnaður Íslendinga af ferðalögum til útlanda 1984 og 1994.


(Fjárhæðir í millj. kr. á verðlagi hvors árs.)



Útgjöld í millj. kr.
1984
1994

Flugferðir milli landa.     
839
4.078
Frádráttur vegna viðskiptaferða     
238
1.135
Flugfar greitt af einstaklingum     
601
2.943

Ferða- og dvalarkostnaður
Íslendinga erlendis²     
2.690
17.514

Ferðakostnaður alls     
3.291
20.457

Einkaneysla     
55.872
258.164
Ferðakostnaður % af neyslu     
5,9
7,9

Íslenskir ferðamenn til útlanda³     
89.788
144.442
Ferðakostnaður á mann í kr.     
36.657
141.629


Tafla 2.

Útgjöld Íslendinga í ferðalög erlendis 1984 og 1994.


(Fjárhæðir í millj. kr. á verðlagi 1994.)

Útgjöld í millj. kr.
1984

1994


Flugferðir milli landa.     
3.630
4.078
Frádráttur vegna viðskiptaferða     
1.025
1.135
Flugfar greitt af einstaklingum     
2.605
2.943

Ferða- og dvalarkostnaður
Íslendinga erlendis²     
11.634
17.514

Ferðakostnaður alls     
14.240
20.457

Einkaneysla     
233.383
258.164
Ferðakostnaður % af neyslu     
6,1
7,9

Íslenskir ferðamenn til útlanda³     
89.788
144.442
Ferðakostnaður á mann í kr.     
158.593
141.629

Athugasemdir:
1) Tölur þessar ná til fargjalda Íslendinga í áætlunarflugi milli landa og leiguflugi.
2) Tölurnar eru sá hluti dvalarkostnaðar sem greiddur er í erlendum gjaldeyri, t.d. fyrir hóteldvöl.
   Hér vantar inn í álagningu ferðaskrifstofa ef ferð er keypt á þeirra vegum.
3) Íslendingar í viðskiptaferðum meðtaldir.