Framhaldsnám fatlaðra

Miðvikudaginn 29. janúar 1997, kl. 13:59:52 (2822)

1997-01-29 13:59:52# 121. lþ. 57.2 fundur 221. mál: #A framhaldsnám fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., RG
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[13:59]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er mjög erfitt að leggja mat á þessi svör hæstv. ráðherra og ég þakka fyrir svörin. Þau virka nokkuð ítarleg en þó kemur fram í máli hans að í sumum tilfellum er mjög erfitt að svara spurningu, eins og t.d. fjórðu spurningunni: ,,Hversu margir nemendur, sem eru fatlaðir samkvæmt skilgreiningu laga um málefni fatlaðra, luku grunnskólanámi vorið 1996?`` Það er því greinilegt að það er nokkuð erfitt að meta stöðu mála. Það er í fljótu bragði að sjá sem að nokkuð margir hafi hafið nám á framhaldsskólastigi haustið 1996 miðað við 30 í árgangi eins og sú skilgreining var sem ég las hér upp, þó hún sé trúlega önnur en sú sem ráðherrann taldi upp undir 4. lið. Ég mun því að sjálfsögðu eftir að ég fæ útskrifaða ræðu ráðherrans fara yfir það hvað þessi svör kalla á. Það hefur verið þannig að nemendum Öskjuhlíðarskóla hefur í mörgum tilvikum verið boðið upp á tveggja ára starfsnám að loknu skyldunámi en sú heimild hefur verið felld úr lögum. Það hefur kallað á að það þyrfti að brúa millibilsástand sem skapast hjá þessum nemendum, bjóða þeim nám við hæfi og af sama magni og öðrum. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef hafa þeir nemendur sem útskrifast úr Safamýrarskóla á vorönn ekki fengið tilboð um framhaldsskólanám. Þeir sækja nokkrar stundir á viku í fullorðinsfræðslu en samkvæmt skilningi laganna er fullorðinsfræðsla viðbótarnám eða tilboð sem ekki er hægt að bera saman við framhaldsskólanám. Það eru fremur fáir tímar sem nemendur fá, hámark tólf tímar á viku en langalgengast er fjórir til átta tímar. Þetta segir mér að þrátt fyrir að svar ráðherrans virki jákvætt og ítarlegt þá þarf að skoða þessi mál mun betur. Ég kalla eftir því hvort ráðherrann getur veitt einhverjar frekari upplýsingar í þessu máli.