Norræna ráðherranefndin 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 10:53:10 (3154)

1997-02-06 10:53:10# 121. lþ. 64.1 fundur 278. mál: #A Norræna ráðherranefndin 1996# skýrsl, 293. mál: #A norrænt samstarf 1996# skýrsl, 294. mál: #A Vestnorræna þingmannaráðið# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[10:53]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Jú, ég hef að sjálfsögðu sett mig inn í þau mál og það er rétt hjá hv. þm. að það eru uppi hugmyndir um að færa þetta samstarf að einhverju leyti eða að jafnvel öllu leyti undir Evrópusamstarfið en hér er um milliríkjasamstarf að ræða sem hefur ekki komið undir Rómarsáttmálann að neinu leyti og það eru jafnvel uppi hugmyndir um það að flytja hluta þessa samstarfs inn í fyrstu stoðina. Það er að sjálfsögðu ljóst að ef það verður þá mun það hafa veruleg áhrif og breyta miklu í sambandi við þetta samstarf. En miðað við þær skýrslur og þær athuganir sem okkar fólk í Brussel hefur gert á þessu máli þá eru a.m.k. mjög skiptar skoðanir uppi um það hvort árangur náist varðandi flutning málefna úr þriðju stoð í fyrstu eða jafnvel yfirtöku ESB á Schengen-samstarfinu.

Ég vil í þessu sambandi minna á það að norski forsætisráðherrann hitti tvo framkvæmdastjóra ESB að máli fyrir skömmu og þar var uppi sú skoðun að á þessu stigi væru ekki líkur á því að slíkt samkomulag mundi takast. Við vitum að Norðurlöndin eru andvíg því en hins vegar er ljóst að Hollendingar, sem fara nú með forustu í Evrópusambandinu, munu í næstu viku leggja fram hugmyndir í þessa veru og við munum að sjálfsögðu yfirfara þær hugmyndir rækilega þegar þær koma. En á þessu stigi er ekkert frekar um það að segja. En ég er þeirrar skoðunar að við eigum að taka þátt í þessu samstarfi og ég tel það lífsnauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga.