Evrópuráðsþingið 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 14:27:35 (3190)

1997-02-06 14:27:35# 121. lþ. 64.6 fundur 289. mál: #A Evrópuráðsþingið 1996# skýrsl, LMR (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[14:27]

Lára Margrét Ragnarsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson veit mætavel er pólitíkin þannig gerð að það er ekki hægt að taka ákvörðun og standa við hana í lengri tíma ef annað kemur upp á teninginn. Og þannig stóð á að með mótmælum mínum vildi ég láta í ljós að ég væri ekki allt of hrifin af inngöngu Rússa á þessu tímabili, en þar sem ég hafði fengið samþykktar ýmsar viðbótarathugasemdir við skýrsluna sem hafði verið lögð fram á fundinum taldi ég mér ekki stætt á því að standa gegn inngöngu Rússa. Því fór sem fór, og ég sat hjá.

Í öðru lagi spurði þingmaðurinn hvort ég teldi auknar fjárveitingar vera nauðsyn. Já, ég tel þær vera nauðsyn og ég tel það lífsnauðsyn ef við ætlum að halda stöðu okkar innan Evrópusamvinnunnar að við fáum aukið fjármagn til þess að geta starfað betur að málum okkar sem sýnt hefur að borgi sig.