Norður-Atlantshafsþingið 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 16:02:26 (3208)

1997-02-06 16:02:26# 121. lþ. 64.5 fundur 288. mál: #A Norður-Atlantshafsþingið 1996# skýrsl, JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[16:02]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef nú grun um að hv. þm. sé að lengja umræðuna með því að leggja út af orðum mínum öðruvísi en þau eru sögð. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að vinna að stækkun NATO. En við hljótum að geta verið sammála um að við eigum ekki, ef hægt að komast hjá því, að auka viðsjár með þeirri stækkun.

Hins vegar tel ég að það verði að gera Rússum þetta ljóst og að það eigi ekki að koma aftan að þeim með þessum áformum. En að Rússar eigi að hafa neitunarvald um stækkun hef ég aldrei sagt og ég er ekki þeirrar skoðunar. Það er alger óþarfi af hv. 15. þm. Reykv. að vera að gera mér upp skoðanir í þessum efnum úr ræðustól. Ég vísa því algerlega á bug. Það eina sem ég hef sagt í þessu sambandi er að ég vil ekki að stækkun, ef hægt er að komast hjá því og ég veit að allir vilja komast hjá því, auki viðsjár í Evrópu. Það er ekki í þágu Eystrasaltsríkjanna að svo verði og ég veit að hv. þm. skilur það.