Norður-Atlantshafsþingið 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 16:46:28 (3219)

1997-02-06 16:46:28# 121. lþ. 64.5 fundur 288. mál: #A Norður-Atlantshafsþingið 1996# skýrsl, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[16:46]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu eigum við að styðja allar þær aðgerðir sem við teljum verða öryggi Eystrasaltsríkjanna til góðs. En við verðum að hafa sannfæringu fyrir því að þær aðgerðir skili réttri niðurstöðu, séu jákvæðar í heildina tekið. Ég held við getum ekki gert það gegn betri vitund ef það væri niðurstaðan. Stutt einhverjar aðgerðir sem við óttumst að leiði ekki til aukins öryggis og betri stöðu í Evrópu heldur kannski þvert á móti. Ef menn komast nú að þeirri niðurstöðu, sem margir eru að gera og virðist eiga vaxandi hljómgrunn bæði austan hafs og kannski sérstaklega vestan, að óbreytt sigling í sambandi við stækkun NATO sé stórvarasöm aðgerð fyrir öryggi í Evrópu í ljósi ástandsins í Rússlandi sérstaklega, þá getum við ekki gegn betri vitund stutt slíkt að mínu mati. Við verðum þá að reyna að leita annarra lausna og leiða gagnvart öryggismálum þessa svæðis, t.d. með því að draga þau þéttar inn í norrænt samstarf og svæðisbundið samstarf og reyna að tengja þau með slíkum hætti sem allra mest Evrópu. (Gripið fram í: Eða Evrópusambandið?) Það verður að vera þeirra val hvort þau vilja ganga þangað inn og hvort það skilar þeim að einhverju leyti sömu niðurstöðu í öryggismálum. Það er reyndar alveg rétt að mörg ríkjanna í Austur-Evrópu draga nokkurn veginn samasemmerki milli þess hvort sem heldur er að komast inn í Evrópusambandið eða NATO. Þá reikna þau með að í því felist í reynd einhvers konar vesturevrópsk ábyrgð á þeirra öryggismálum.