Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 17:27:35 (3231)

1997-02-06 17:27:35# 121. lþ. 64.11 fundur 130. mál: #A friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum# frv., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[17:27]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja. Þetta er 130. mál á þskj. 141 og flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, Kristín Ástgeirsdóttir, Össur Skarphéðinsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Margrét Frímannsdóttir.

Hér er um endurflutning á frv. að ræða, herra forseti, sem nokkrum sinnum áður hefur komið fyrir þingið, eða fjórum sinnum, og var fyrst flutt um miðjan 9. áratuginn. Frv. gengur út á það eins og fyrirsögnin hljóðar upp á að gera Ísland að friðlýstu svæði þar sem, eins og segir í 1. gr. þar sem megintilgangi frv. er lýst, með leyfi forseta: ,,... bannað er að koma fyrir, staðsetja eða geyma, flytja um eða meðhöndla á nokkurn annan hátt kjarnorku- eða eiturefnavopn. Umferð kjarnorkuknúinna farartækja er bönnuð á hinu friðlýsta svæði og einnig flutningur eða losun kjarnakleyfra efna og kjarnorkuúrgangs.``

Þetta er sem sagt það sem átt er við þegar vísað er til friðlýsingar samkvæmt frumvarpstexta þessum.

Meginmarkmið frv. eins og segir í 2. gr. er að gera allt íslenskt yfirráðasvæði kjarnorku- og eiturefnavopnalaust og afla hinu friðlýsta svæði alþjóðlegrar viðurkenningar, draga úr hættunni á kjarnorku- og eiturefnaóhöppum á Íslandi og í grennd við Ísland og stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu.

Í 3. gr. eru hugtök skilgreind, hugtakið kjarnorkuvopn, eiturefnavopn, hvað átt er við þegar talað er um Ísland, þ.e. íslenskt land, landhelgi, lofthelgi, efnahagslögsögu og landgrunn og allt íslenskt yfirráðasvæði og hvað hið friðlýsta svæði merkir.

Í 4.--7. gr. eru raktar þær kvaðir sem fylgja friðlýsingunni, hvaða kvaðir þær leggja á íslenska ríkisborgara og stjórnvöld og hvaða starfsemi er bönnuð samkvæmt frv. Það tekur til hvers konar staðsetningar, meðhöndlunar, flutnings o.s.frv. eins og áður hefur fram komið, á kjarnavopnum og eiturefnavopnum.

[17:30]

10. gr. fjallar um umferð kjarnorkuknúinna farartækja sem er bönnuð. 11. gr. er um flutning kjarnakleyfra efna eða kjarnorkuúrgangs. Í 12. gr. eru hins vegar skilgreindar þær undanþágur frá ákvæðum 6., 9., 10. og fyrri mgr. 11. gr. þessa frv., sem heimilt sé að gera að því marki sem það er nauðsynlegt til að fullnægja alþjóðlegum skuldbindingum. Það er auðvitað ljóst að tilteknar alþjóðlegar skuldbindingar sem varða umferð og annað slíkt hvíla á okkur eins og öðrum þjóðum og þau ríki sem farið hafa þá leið að friðlýsa lögsögur sínar, eins og til að mynda Nýja-Sjáland, þurfa að sjálfsögðu að gera það með þeim hætti að það samræmist alþjóðalögum og þjóðarétti. Þó er ljóst að Ísland hefur stöðu til að binda slíkar undanþágur við svæðið utan 12 mílna. Það getum við gert vegna þess að engar alþjóðlegar siglingaleiðir liggja í okkar lögsögu þannig að nauðsynlegt sé að veita undanþágur nær landinu en upp að 12 mílum. Það á hins vegar ekki við t.d. um Nýsjálendinga sem hafa neyðst til að gera undanþágur vegna siglinga í sundinu milli Norður- og Suðureyjar.

Í 13. gr. er kveðið svo á um að aldrei skuli leyfa komu kafbáta, herskipa eða herloftfara inn fyrir 12 sjómílna land- eða lofthelgi eða heimsóknir slíkra farartækja til íslenskra hafna eða flugvalla nema óyggjandi teljist að í því felist ekki brot á friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum samkvæmt lögum þessum og í vafatilfellum skuli ætíð leita bestu fáanlegra upplýsinga óháðra aðila.

Þetta er að sjálfsögðu gert, herra forseti, að gefnu tilefni. Það nægir að vitna þar til atburðanna í Thule-herstöðinni á Grænlandi, þar sem haldið hafði verið fram að virt væri sú stefna danskra yfirvalda að ekki skyldu vera kjarnorkuvopn á dönsku yfirráðasvæði, en í ljós kom engu að síður að þar fórst herflugvél með kjarnorkuvopn innan borðs.

14. gr. kveður á um að íslensk yfirvöld skuli leita með bindandi samningum, grundvölluðum á alþjóðarétti við einstök ríki, samtök ríkja og alþjóðastofnanir, eins víðtækrar alþjóðlegrar viðurkenningar á hinu friðlýsta svæði og kostur sé.

15. gr. fjallar um viðurlög og 16. gr. felur ábyrgðina á málinu á hendur hæstv. utanrrh. en segir jafnframt að hann skuli hafa samráð við Alþingi og utanrmn. þess um alla framkvæmd og utanrrh. sé jafnframt heimilt að fela öðrum ráðherrum, svo sem samgrh. eða umhvrh. eftir því sem aðstæður kunna að mæla með, að fara með einstaka hluta framkvæmdarinnar í samráði við sig.

Eins og áður segir, herra forseti, hefur frv. þetta verið flutt fjórum sinnum áður á Alþingi og síðast á 120. löggjafarþingi en aldrei orðið útrætt. Flutningsmenn frv. hafa yfirleitt verið úr þremur eða fjórum þingflokkum á þinginu. Næstsíðast voru flutningsmenn úr öllum flokkum nema Sjálfstfl. en því miður gerðist það við síðasta endurflutning að ákveðið mannfall varð í liðinu og vantar að þessu sinni meðflutningsmenn úr Framsfl. Það harma ég að sjálfsögðu en bind þó engu að síður vonir við að málið eigi eftir sem áður stuðning einhverra í þeirra röðum.

Ég held, herra forseti, að þróun alþjóðamála sé í þá átt að hún eigi að auðvelda aðgerðir af því tagi sem frv. gengur út á. Einhverjir kunna að segja að friðvænlegri horfur í heiminum og m.a. kjarnorkuafvopnun geri málið síður þarft eða jafnvel óþarft, en það styðst ekki við rök að mínu mati vegna þess að jafnvel þó svo að úr sjálfri hernaðarógnuninni kunni að vera að draga og sé það vonandi, þá stendur eftir óhaggað að ýmiss konar vá getur eftir sem áður stafað af tilvist kjarnorkuvopna þeirra sem eftir eru af umferð kjarnorkuknúinna farartækja, af kjarnorkuúrgangi, af eiturefnavopnum og öðru því sem hér er fjallað um. Þróun annars staðar í þá veru að kjarnorkuvopnalaus eða friðlýst svæði eru að festa sig í sessi og þeim er að fjölga. Friðlýsing Suður-Ameríku með svokölluðu Tlatelolco-samkomulagi er orðin föst í sessi. Friðlýsing Kyrrahafsins með Rarotonga-samningunum hefur þróast í kjölfar þess að Frakkar hafa nú hætt kjarnorkutilraunum í Kyrrahafi og lýst því yfir að þeir munu hér eftir virða ákvæði Rarotonga-samkomulagsins um kjarnorkufriðlýsingu Suður-Kyrrahafs. Umræður eru komnar af stað um kjarnorkufriðlýsingu Afríku og yrði það þá fyrsta heimsálfan sem í heild sinni ef undan er skilið Suðurheimskautslandið sem yrði friðlýst með þeim hætti. Á þingi Norðurlandaráðs í Mariehamn á Álandseyjum var samþykkt árið 1989 að fela ríkisstjórnum Norðurlanda að vinna að undirbúningi að því að Norðurlönd gætu orðið kjarnorkuvopnalaust svæði.

Fleira mætti nefna í þessum dúr sem ég tel að mæli með því en ekki móti að skref af þessu tagi sé stigið af okkar hálfu sem jákvætt innlegg og liður í friðvænlegri sambúð þjóða og viðleitni til afvopnunar.

Þá er fyrst og fremst eftir að nefna einn þátt þessa máls, herra forseti, og hann er auðvitað sá að fáar þjóðir eiga jafnmikið undir því að það takist að verja lögsöguna fyrir hvers kyns kjarnorku- og eiturefnavá en einmitt Íslendingar. Við byggjum afkomu okkar á nýtingu lífrænna auðlinda, fyrst og fremst hafsins, og það er kannski þrátt fyrir allt þannig að fyrir utan loftslagsbreytingar er fátt hættulegra sem steðjar að okkur Íslendingum en einmitt möguleikinn á meiri háttar óhöppum á því sviði. Á hafsbotninum bæði sunnan og norðan við landið eru að ryðga í sundur kjarnorkuknúnir kafbátar með a.m.k. kjarnorkueldsneyti innan borðs og jafnvel kjarnorkuvopn og enginn veit í raun og veru með neinni vissu hversu stórkostlegar hættur kunna þar að leynast eða hvenær þær geta gosið upp.

Kjarnorkuúrgangurinn er vaxandi vandamál í heiminum. Flestar þjóðir eru að reyna að koma honum af sér. Það kallar á ýmist endurvinnslu sem er áhættusöm og/eða flutninga sem jafnframt mæta mikilli andspyrnu. Í nágrannaríkjum okkar og ekki fjær okkur en á Bretlandseyjum er slík starfsemi í gangi og ljóst að ástæða er til að hafa af því miklar áhyggjur. Ég held að framlag af okkar hálfu í þessa veru mundi mælast vel fyrir og verða skref í átt til slökunar og bættrar sambúðar þjóða, sem við sem vopnlaus smáþjóð, gætum verið stolt af.

Herra forseti. Eins og ég sagði er verið að mæla fyrir þessu frv. í fimmta sinn og ég þarf í sjálfu sér ekki að hafa orð mín fleiri. Ég get vísað til þess sem áður hefur verið sagt og umræðna sem orðið hafa um þetta áður. Hitt vil ég segja í fullri einlægni og ekki síst með vísan til þess að málið kemst nú vonandi til hv. utanrmn. í fyrra fallinu í þetta sinn eða nú í fyrri hluta febrúarmánaðar, að það hlýtur auðvitað að vera visst álitaefni þegar mál af þessu tagi hafa verið flutt jafnoft og þó með stuðningi jafnmargra þingflokka og þetta mál, að það skuli ár eftir ár ekki fá neina efninslega afgreiðslu á þinginu. Ég vil því í allri vinsemd leyfa mér að beina því til hv. þingnefndar og til forseta þingsins að slík mál séu tekin til skoðunar. Að sjálfsögðu bind ég vonir við að komi til afgreiðslu á málinu verði hún jákvæð og helst í formi lagasetningar á grundvelli frv. Að lokum kann að reka að því að þolinmæði manns bresti gagnvart því að mál af þessu tagi sem mikil vinna var lögð í á sínum tíma fái ekki a.m.k. einhverja efnislega og endanlega afgreiðslu á hinu háa Alþingi.

Að lokinni umræðunni, herra forseti, legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. utanrmn.