Bann við framleiðslu á jarðsprengjum

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 18:00:34 (3234)

1997-02-06 18:00:34# 121. lþ. 64.12 fundur 267. mál: #A bann við framleiðslu á jarðsprengjum# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[18:00]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mig munar ekki mikið um að skreppa eina ferðina enn í ræðustólinn í dag, að þessu sinni til að taka undir þetta þingmál og lýsa stuðningi við þessa tillögu og þakka hv. þm. Gunnlaugi M. Sigmundssyni fyrir að hreyfa við því. Ég tel að málið sé vel unnið og greinargott og greinargerðin til fyrirmyndar eins og greinargerðir eiga að vera, þ.e. mönnum er engin vorkunn að setja sig sæmilega vel inn í stöðuna hvað þetta mál snertir með því að lesa hana yfir.

Ég tek sérstaklega undir það að þó þetta mál sé ekki þess eðlis að það snúi að Íslandi beint, hvorki sem fórnarlambi, ef svo má að orði komast eða sem þolanda sem betur fer svo vitað sé, né heldur að því að við séum að framleiða þessi vopn eða hafa af því tekjur og störf að framleiða þau og selja, þá kemur það okkur eftir sem áður við og við eigum að láta okkur slíka hluti varða. Ég er líka sammála því að að sjálfsögðu ættu jarðsprengjur eðli sínu samkvæmt að vera skilgreindar sem ómannúðleg vopn. Langalgengustu áhrifin af notkun þeirra, að minnsta kosti þeirra sem beinast að fólki en ekki hernaðartólum, er limlesting, handa- og fótamissir og örkuml af því tagi. Jarðsprengjur eru sannarlega þess eðlis að þær meiða og skaða fólk sérstaklega. Ég held að það sé ljóst að það þarf að ná alþjóðasamkomulagi um algert bann við notkun þessara vopna. Það er það eina sem mun halda ósköp einfaldlega vegna þess að annars finnur einhver framleiðsla sér yfirleitt alltaf leið á markaðinn, ef ekki löglega þá síðar ólöglega. Það sýnir sagan. Það er ekki fyrr en hið alþjóðlega samfélag allt er orðið ábyrgt fyrir því að annast um framkvæmd á slíku banni sem hægt er að gera sér vonir um verulegan árangur. Þar má nefna þróunina gagnvart eiturefnavopnunum sem dæmi.

Ég vil líka í þessu samhengi nefna nauðsyn þess að það komist á bindandi alþjóðasáttmáli um vopnaviðskipti í heild sinni. Staðreyndin er sú að eitt það allra brýnasta sem nú þarf að gera í alþjóðaöryggismálum er að vinna að gerð slíks víðtæks alþjóðasáttmála um reglur um vopnaviðskipti. Í kjölfar þess að nú hefur náðst niðurstaða varðandi framlengingu samningsins um bann við frekari útbreiðslu kjarnorkuvopna, Genfarviðræðnanna um tilraunabann með kjarnorkuvopn, auk sáttmála um efnavopn og fleira slíkt sem mætti til nefna þá er að mínu mati svo að nú þarf augljóslega á þessu sviði að einbeita kröftunum hvað varðar viðskipti með vopn almennt í heiminum. Það sorglega er að stærstu kaupendurnir, a.m.k. hlutfallslega miðað við þjóðartekjur, eru þriðjaheimsríkin og þar á meðal kaupendur að jarðsprengjum í mjög stórum stíl eins og hér kemur fram. Þar af leiðandi er þeim mun nauðsynlegra í öllu tilliti, líka út frá efnahagslegri velferð þessara ríkja, að komast út úr þeim ógöngum sem vopnaviðskiptin eru. Ég vek athygli í þessu sambandi á fréttum sem nýlega komu frá Rússlandi um að Rússar hyggist stórauka vopnaútflutning sinn á næsta ári, þessu og hinu næsta, og komast jafnfætis þeim sem mest vopnaviðskipti stunda. Að sjálfsögðu telja þeir sig knúna til að reyna að hafa af þessu tekjur á meðan leikreglur hafa ekki náðst um að draga úr þessum viðskiptum. En skýrar reglur um vopnaviðskiptin og um upplýsingamiðlun í því sambandi gætu skipt mjög miklu máli varðandi þætti eins og þá að hafa hemil á verslun með ólögleg vopn og ómannúðleg vopn sem væru bönnuð. Þá gæti skipt mjög miklu máli að einmitt slíkur samningur lægi fyrir.

Ég fagna þessari tillögu og vona að hún eins og aðrar slíkar sem hér hefur verið talað fyrir í dag og liggja fyrir hv. þingnefnd, fái afgreiðslu.