Túlkaþjónusta fyrir heyrnarlausa utan sjúkrahúsa

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 15:19:50 (4088)

1997-03-03 15:19:50# 121. lþ. 82.1 fundur 220#B túlkaþjónusta fyrir heyrnarlausa utan sjúkrahúsa# (óundirbúin fsp.), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[15:19]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Nú er það viðurkennt að stór hópur fatlaðra, þ.e. heyrnarlausir, þurfa túlkaþjónustu til þess að geta nýtt sér þjónustu samfélagsins. Komu til þess fjárveitingar úr Framkvæmdasjóði fatlaðra bæði fyrir árið 1995 og 1996 til að sinna túlkaþjónustu vegna heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa, 2 millj. kr. hvort ár. Fyrir árið 1997 kom engin fjárveiting og nú er fjáveitingin frá því 1996 upp urin og heyrnarlausir fá ekki lengur túlkaþjónustu innan heilbrigðiskerfisins utan sjúkrahúsa. Dæmi um vanda heyrnarlausra, svo ég nefni bara eitt dæmi --- ég veit um fleiri, er móðir sem er heyrnarlaus og er með fatlað barn á fyrsta ári sem þarf að sækja þjálfun þrisvar sinnum í viku. Hún getur aðeins nýtt sér táknmál en hún fær enga túlkaþjónustu en á samt að veita barninu þjálfun heima eftir hvern þjálfunartíma. Það er mikill vandi sem margir heyrnarlausir standa frammi fyrir nú þegar fjárveitingin er búin. Ég vil því spyrja hæstv. félmrh. hvernig hann hyggst taka á þeim vanda heyrnarlausra sem þurfa túlkun til þess að geta nýtt sér heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa.