Húsnæðisstofnun ríkisins

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 15:26:45 (4094)

1997-03-03 15:26:45# 121. lþ. 82.1 fundur 221#B húsnæðisstofnun ríkisins# (óundirbúin fsp.), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[15:26]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mun ekki leggja það til að Húsnæðisstofnun verði lögð niður. Hún hefur enn hlutverki að sinna í þjóðfélaginu. Hins vegar stendur yfir endurskipulagning stofnunarinnar og það er unnið af krafti að því verkefni. Lögð er til grundvallar stjórnsýsluúttekt sem ég fékk Ríkisendurskoðun til að gera á stofnuninni þar sem kemur í ljós að hægt er að leysa ýmsa þætti í verkefnum stofnunarinnar á ódýrari og skilvirkari máta heldur en gert er í dag.

Nefnd sem sett var til þess að athuga með færslu húsbréfakerfisins til bankanna hefur lokið störfum. Hún skilaði áliti og leggur það til að afgreiðsla húsbréfa, veðmat og greiðslumat verði fært alfarið yfir til bankanna. Nefndarstarf hefur verið í gangi varðandi félagsíbúðirnar og það er á lokastigi. Starfshópurinn hefur þessar hugmyndir til meðferðar og á að hrinda þeim í framkvæmd.

Jafnframt er vinna í gangi við að kanna hvort unnt sé að létta ríkisábyrgð af húsbréfum. Húsbréfanefndin taldi að ekki væri ráðlegt að létta ríkisábyrgð af eða hverfa frá ríkisábyrgð á húsbréfum nema eitthvað jafngilt kæmi í staðinn. Á morgun munu fulltrúar mínir kynna sér norska húsbankann sem gæti verið leið til þess að létta þessari ábyrgð úr bókhaldi ríkisins. En ég legg áherslu á að við megum ekki gera neitt sem verður til þess að húsbréfin falli í verði, þ.e. að þau verði með meiri afföllum heldur en þau eru í dag.