Sala afla á fiskmörkuðum

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 16:14:28 (4116)

1997-03-03 16:14:28# 121. lþ. 82.12 fundur 202. mál: #A sala afla á fiskmörkuðum# þál., Flm. SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[16:14]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég er handviss um það að fyrir fyrirtæki sem á annað borð eru með þróunarstarf og eru sér meðvituð um það eftir hvers konar vöru markaðurinn er að kalla er það ekki mikill vandi að fara úr því kerfi sem þau mörg hver vinna við núna sem er verslun með óveiddan fisk yfir í það að kaupa sinn fisk á mörkuðum. Ég hygg að flest stærri fyrirtækin í landinu kaupi að hluta til sinn fisk á mörkuðum.

Mig langar, með leyfi forseta, til að vitna í grein Björns G. Ólafssonar úr Vísbendingu þar sem hann fjallar um fiskmarkaði:

,,Reynslan af fiskmörkuðum bendir hins vegar eindregið til þess að uppboð á veiddum fiski hafi aukið stöðugleika og sérhæfingu í fiskvinnslu.``

Það er kannski akkúrat þetta sem við erum að leita eftir, ekki bara markaðsvæðingu á veiðunum, ekki bara hagræðingu þar, heldur að þetta geti líka náð til fiskvinnslunnar og það gerist ekki, herra forseti, nema við stuðlum að því að eðlileg samkeppni geti farið fram um hráefnið og það sé þannig öruggt eða nokkuð öruggt að þeir sem standa sig best kaupi hráefnið, vinni það áfram og selji með hag allrar þjóðarinnar að leiðarljósi.