Sala afla á fiskmörkuðum

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 16:45:05 (4124)

1997-03-03 16:45:05# 121. lþ. 82.12 fundur 202. mál: #A sala afla á fiskmörkuðum# þál., Flm. SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[16:45]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Það var merkilegt að hlýða á þær ræður sem hér voru fluttar um þá vankanta sem kynnu að vera á því að allur fiskur færi yfir á fiskmarkað. Það var einna merkilegast út frá því að mér fannst jafnvel eins og menn töluðu þannig að eins og staðan er í dag þá væri svo sem engin óvissa. Þetta væri allt á nokkuð sléttum sjó, allir vissu hvað þeir hefðu eða hvað þeir fengju. Fiskvinnslan í landinu gæti ætíð gengið að hráefni o.s.frv. Það var talað um þá óvissu sem kynni að skapast. Þetta fannst mér afar merkilegt vegna þess, herra forseti, að ég hélt að það væri öllum ljóst, ekki síst þeim sem hér hafa talað á undan mér, að sjávarútvegi hefur alltaf fylgt mikil óvissa. Sú óvissa mun ekki aukast þó svo að við seljum fisk á fiskmarkaði í ríkari mæli en við gerum núna. Hún mun ekki gera það, herra forseti, og staðreyndin er sú að tilkoma fiskmarkaðanna hefur ekki bara komið í veg fyrir það að enn meiri fiskur færi til sjóvinnslu, hún hefur líka tekið á öðrum afleiðingum kvótakerfisins, sem sé þeim að ef skip hefur verið selt burt úr sveitarfélagi með kvóta þá hafa þó fiskvinnslufyrirtækin sem eftir sitja átt þann möguleika að kaupa hráefni á mörkuðum til þess að halda uppi atvinnu.

Þar erum við kannski komin að máli sem væri eðlilegt að ræða í þessu samhengi. Það er nefnilega svo, herra forseti, að sveitarfélögin í landinu hafa undanfarin ár lagt þó nokkuð á sig til þess að festa skip með kvóta heima í héraði. Hér á árum áður þurftu sveitarfélögin iðulega að hlaupa undir bagga vegna þess að það vantaði fé til rekstrar. Það var áður en útgerðin var rekin með hagnaði, herra forseti, en á seinni tímum --- og það sjáum við líka á lögunum um stjórn fiskveiða þar sem inni er forgangsréttarákvæði sveitarfélaga --- hafa menn haft tilhneigingu til að líta svo á að eignarhald á kvóta skapaði öryggi í vinnslu. Það hefur þá þýtt að ef kvóti er framseldur eða skip seld á milli byggðarlaga þá hefur skapast óöryggi. Þá hefur skapast það óöryggi sem menn viku að áðan. Þá hefur skapast það óöryggi að sú vinnsla sem ekki er hægt að flytja á milli staða, en hugsanlega á möguleika á mörkuðum, getur þá haldið áfram vegna þess að hún á möguleika á hráefni á fiskmörkuðum. Það má þess vegna orða það þannig, herra forseti, að það að skilja á milli veiða og vinnslu með þeim hætti að afli verði seldur á fiskmörkuðum minnki þá óvissu sem óhjákvæmilega fylgir kvótakerfinu, þá óvissu sem alltaf vofir yfir ef skip eru seld eða viðskipti fara fram með veiðiheimildir.

Ég gat um það áðan að það orðalag sem er á þessari ályktunartillögu og það orðalag sem hér er óskað eftir að Alþingi sameinist um er það orðalag sem sjómannasamtökin hafa í sínum ályktunum. En það eru ekki bara sjómannasamtökin, eins og kom fram í framsögu minni, sem hafa ályktað um það að fiskur ætti að seljast um fiskmarkaði. Það hafa samtök verkafólks einnig gert bæði fyrir austan og einnig fyrir vestan. Það er því ekki bara litið á þetta sem hagsmunamál sjómanna heldur líka vinnslunnar og verkafólks vegna þess að fólk er auðvitað búið að átta sig á því að það er meira öryggi fólgið í því að fiskvinnslan geti keypt fisk á markaði heldur en að hún þurfi að eiga allt sitt undir því hvort útgerðarmaður ákveður að selja aflann í þessu plássi til þessa fiskvinnsluhúss eða jafnvel að framselja hann til veiða á einhverju öðru skipi eins og nú háttar til.

Það var nefnt í umræðunni áðan að það gæti verið óeðlilegt að meina útgerðarmanni að selja afla til frystihúss í litlu plássi á kannski örlítið lægra verði en hann gæti fengið annars. Til lengri tíma litið er það nú svo að þau fyrirtæki ein standa sem geta selt afurðir sínar, geta selt sína framleiðslu á þeim markaði sem fyrir hana er á því verði sem þarf til þess að reka viðkomandi fyrirtæki. Ég veit því ekki hvort sá ,,greiði`` sem þarna er verið að gera getur verið hið varanlega gagnvart þessari vinnslu. Ef hún þarf á því að halda að fá hráefnið niðurgreitt með þessum hætti og þá niðurgreitt af sjómönnunum, þá held ég að menn þurfi að skoða aðra hluti. En hún þarf þá að fá það niðurgreitt af sjómönnunum og þar stendur hnífurinn í kúnni. Það eru sjómannasamtökin sem aftur og aftur hafa farið fram með þá kröfu að afli verði seldur á fiskmarkaði. Og það er einmitt vegna þessa. Það er vegna þess að þeir hafa viljað meina, og fyrir því eru dæmi, að þeir hafi verið látnir taka þátt í kvótakaupum, mátt þola það að útgerðarmaður semji um sölu á afla á því verði sem honum hentar og þannig talið sig vera hlunnfarna. Það er því ljóst, herra forseti, að við verðum að koma okkur upp kerfi sem stuðlar að meira réttlæti þarna. Um það er verið að biðja og um það er erum við að tala hér í dag.

Að orða það svo að menn séu að biðja um opinbera tilskipun, að það sé verið að biðja um tilskipun að ofan. --- Ég verð að segja það, herra forseti, að mér finnst þetta alltaf svolítið fyndið orðatiltæki þegar við erum að ræða mál hér á Alþingi vegna þess að það er alveg laukrétt sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gat um áðan að fyrsta hlutverk alþingismannsins er auðvitað að setja lög. Og einhvern veginn hefur það sest þannig í mig að lög væru tilskipanir að ofan, sama hvort þau eru um verslun af þessu tagi eða einhverju öðru eða aðrar hliðar mannlegs lífs. Við þetta höfum við í flestum tilfellum sætt okkur. Þess vegna lít ég ekki svo á að hér sé um frekari tilskipun að ofan að ræða heldur en í mörgu öðru. Fyrir mér og okkur flutningsmönnum vakir það fyrst og fremst að setja réttlátar leikreglur, leikreglur sem það fyrirkomulag sem við erum með í sjávarútvegi í dag kallar beinlínis á, bæði staða sjómanna, staða vinnslunnar, það hvernig fiskveiðistjórnarkerfi við erum með. Allt þetta kallar á að við setjum þennan ramma um það hvernig menn versla með það hráefni sem selt er og keypt til vinnslu.

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson fór aðeins yfir það sem einkenndi sjávarútveg í dag. Hann hefur sína sýn á það, heyri ég, og það höfum við væntanlega öll eftir því hvar við stöndum. En því miður er það sem einkennir umræðuna um sjávarútveg í dag það að þjóðin virðist vera afskaplega ósátt við það fyrirkomulag sem við erum með. Mér finnst það hljóti að vera skylda okkar að reyna að mæta þeirri óánægju á einhvern þann hátt sem viðunandi getur kallast.

Ég gat um það í framsögu minni að ein þeirra leiða sem notuð hefur verið til þess að hjálpa vinnslunni við að sérhæfa sig hefur verið sú, þar sem í hlut eiga fyrirtæki sem einnig eiga kvóta, að versla með fiskinn óveiddan eða framselja aflakvóta og fela öðrum að veiða tilteknar tegundir jafnvel af tiltekinni stærð á tilteknum tímum. Þetta er fyrirkomulag sem mér finnst í fyllsta máta óeðlilegt ef um það er að ræða að stuðla að sérhæfingu í fiskvinnslunni. Það hlýtur að vera eðlilegra að aflinn sé seldur á mörkuðum þannig að menn geti átt aðgang að honum þar eftir því hvað þeir eru að framleiða og hvenær frekar en að menn versli með óveiddan fiskinn með þessum hætti. Enda er alveg ljóst að einmitt þessi verslun er eitt af því sem sjómenn eru að berjast gegn og sem hefur komið óorði á kvótakerfið ef ég mætti, herra forseti, taka þannig til orða. Þingsályktunartillaga okkar, þar sem verið er að kalla eftir skoðun Alþingis í tilteknu máli, snýst þess vegna um það að við sköpum hér ákveðinn ramma, að við tökum á tilteknum skipulagsvanda. Og ég trúi því, herra forseti, að meiri hluti hv. alþm. sé sammála því að á þessu þurfi að taka.