Sala afla á fiskmörkuðum

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 17:41:59 (4138)

1997-03-03 17:41:59# 121. lþ. 82.12 fundur 202. mál: #A sala afla á fiskmörkuðum# þál., JGS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[17:41]

Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vitnaði hér í ráðstefnu norður á Akureyri og talsmann fiskverkafólks þar og við því er í sjálfu sér engu að bæta. Það kunna að vera til aðrar ályktanir einnig og sem kom nú þarna í ljós að voru sagðar beinast gegn kvótabraski. En er fiskmarkaður einhver endanleg trygging gegn kvótabraski? Ég held ekki. Og ég held að það sé mikill misskilningur að með því að löggilda að allur afli sé seldur á markaði þá sé komin einhver endanleg lausn á kvótabraski. Það held ég alls ekki.

Hins vegar held ég að menn geti ekki heldur horft fram hjá því að stór hluti af íslenskum sjávarútvegi hefur kosið, væntanlega vegna þess að menn hafa talið að með því hefðu menn best út úr okkar sjávarútvegi sem skilar sér nú væntanlega til allrar þjóðarinnar, að hafa bæði vinnslu og veiðar á einni hendi. Ég rakti það nokkuð í ræðu minni áðan að þær kröfur, sérstaklega þær sem gerðar eru til fyrirtækja sem vilja stunda landvinnslu og vilja stunda fullvinnslu, eru orðnar svo harðar að ef menn eiga að geta staðist þær þá verða menn að geta fylgt eftir gæðastjórnun alveg frá því að afli er blóðgaður um borð í skipi. Og ég sé ekki hagsmunina í því og ég endurtek það, virðulegur forseti, að lögbinda það að allur afli þurfi að fara á markað í gegnum nýjan millilið. Það sem er hagkvæmt að fari í gegnum markað fer þangað væntanlega samkvæmt lögmálum markaðarins og það sem er hagkvæmt og skilar endanlega besta verðinu með því að fara í gegnum ferilinn veiðar og vinnsla í sama fyrirtæki, það fer eftir þeirri leið.