Sala afla á fiskmörkuðum

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 17:59:33 (4144)

1997-03-03 17:59:33# 121. lþ. 82.12 fundur 202. mál: #A sala afla á fiskmörkuðum# þál., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[17:59]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þátttöku sjómanna í kvótakaupum þá eru skýr ákvæði um það í lögum og kjarasamningum að sú þátttaka er óheimil. Auðvitað verða menn að finna leiðir til þess að taka á því þegar menn eru að brjóta lög. Að hluta til verða menn að gera það með því að fara með þau mál fyrir dómstóla ef brögð eru að. En það er þessum atvinnuvegi ekki til góðs að ætla að fara að þrengja þau markaðsskilyrði sem atvinnugreinin býr við vegna þess að á endanum hlýtur það að koma niður á verðmætasköpuninni, á afkomu greinarinnar, afkomu fólksins sem þar starfar og afkomu þjóðarbúsins. Við eigum svo mikið undir því í framtíðinni að hér verði hagvöxtur og þegar við getum ekki aukið aflann að neinu marki, þá verðum við að gera það með aukinni verðmætasköpun og skapa fyrirtækjunum þann möguleika að geta hagnýtt sér allar þær leiðir sem markaðskerfið býður upp á í þessu efni. Það er grundvallaratriðið og frá því megum við ekki hverfa vegna þess að lífskjör okkar allra eru undir því komin.