Aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun

Mánudaginn 10. mars 1997, kl. 15:20:03 (4228)

1997-03-10 15:20:03# 121. lþ. 86.8 fundur 298. mál: #A aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun# þál., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur

[15:20]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þál. um aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun og framboði ofbeldisefnis. Flm. ásamt mér er hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir. Þetta er 298. mál 121. löggjafarþings á þskj. 554.

Herra forseti. Í daglegu lífi er reynt að forðast það til að mynda að láta börn og aðra sem fyrir óæskilegum áhrifum gætu orðið verða vitni að mjög ógeðfelldum fyrirbærum. Það er alþekkt bæði í okkar menningu og annars staðar að t.d. er reynt að forðast að láta börn horfa upp á þjáningar manna eða dýra. Það er reynt að afstýra því að þau séu viðstödd þar sem slíkir atburðir fara fram og ætli þessi tilhneiging foreldra hafi ekki fylgt manninum nokkurn veginn frá ómunatíð. Það má segja að fyrir daga nútímafjölmiðlunar hafi aðstæður í þessu sambandi verið viðráðanlegar í þeim skilningi að hægt var að halda börnum frá tilteknum stöðum eða sjá til þess að þau væru ekki þátttakendur í athöfnum sem ekki voru taldar við hæfi. En nú er öldin önnur. Ofbeldi í einhverju formi er orðinn svo útbreiddur hlutur í daglegu lífi okkar, svo útbreitt og hverdagslegt fyrirbæri á svo fjölmörgum sviðum, að ógerningur er að einangra nokkurn þjóðfélagsþegn, þar með talin börn, frá snertingu við það.

Þetta hefur leitt til þess, herra forseti, að um allan heim hafa áhyggjur manna farið mjög vaxandi af óæskilegum áhrifum þessa stóraukna framboðs á hvers kyns ofbeldisefni en þó einkanlega í sjónvarpi og kvikmyndum. Nægir að vísa í því sambandi til fjölda kannana sem gerðar hafa verið á áhrifum þess að börn sem fullorðnir horfi á ofbeldismyndir. Allar þessar kannanir, allt þetta fé, tími og orka sem eytt hefur verið í rannsóknir á þessum fyrirbærum á samhengi ofbeldis í samfélaginu og ofbeldis í fjölmiðlum staðfesta þessar áhyggjur. Það er ekki ætlun mín hér, herra forseti, að fara að fjölyrða neitt um þetta samhengi. Vandaðar kannanir liggja fyrir og þær sýna svo ekki verður um villst að það er ákveðin fylgni milli t.d. ofbeldishegðunar og mikils áhorfs á ofbeldisefni þó að heimili, félagslegar aðstæður og fleiri þættir skipti vissulega einnig miklu máli. Í því samandi vísa ég til fskj. I með tillögu þessari. Í því sambandi má einnig vísa til þeirrar skýrslu sem nýlega hefur verið dreift, herra forseti, í framhaldi af samþykkt Alþingis um útbreiðslu heimilisofbeldis þar sem ýmsar ískyggilegar upplýsingar koma fram.

Á síðustu árum og áratugum hefur framboð hvers kyns ofbeldisefnis aukist gífurlega. Um það þarf ekki að deila. En það er einnig ástæða til að draga athyglina að því að eðli og gerð þess efnis sem í boði er hefur breyst. Þar má nefna hluti eins og tölvuleiki í heimilistölvum og sérstakar leikjatölvur sem tengja má við sjónvarp. Uppistaðan í leikjum í slíkum tækjum er því miður oftast nær tengd ofbeldi. Sama gildir um ýmiss konar sýndarveruleikatæki, leiktæki í spilasölum og leikföng. Ofbeldi í einhverri mynd sem einhvers konar bardagi eða hernaður er langoftast undirstaða slíkra leikja.

Tæknin kemur hér einnig við sögu að því leyti að efnið sem framleitt er er raunverulegra að allri gerð. Tækninni (t.d. stafrænni framleiðslu eða tölvugerð mynda) eru orðin lítil takmörk sett. Það leiðir til þess að ofbeldisatriðin eða leikirnir eða hvað sem þar er á ferðinni eru orðin eðlileg og lifandi og þar af leiðandi að sama skapi erfiðara fyrir þá sem takmörkuðum þroska hafa enn þá náð að gera greinarmun á þeim og raunveruleikanum.

Síðast en ekki síst, herra forseti, virðist hér eins og svo víða annars staðar í þessum efnum vera á ferðinni vítahringur stigmögnunarinnar, þ.e. til þess að selja nýja framleiðslu, nýja mynd, nýjan leik virðist ofbeldið þurfa að vera svæsnara en það sem á undan er komið --- taka því fram með einum eða öðrum hætti. Það þarf stærri skammt í hverri umferð, meiri grimmd, afkastameiri drápstól, miskunnarlausari ofurhetjur, meira blóð. Þetta er, held ég, staðreynd sem flestir sem fylgst hafa með þróun t.d. ofbeldiskvikmynda mundu taka undir.

Herra forseti. Í grg. með tillögunni er tekið ákveðið dæmi um það efni sem t.d. börnum í grunnskóla gæti staðið til boða á einum sólarhring. Þar er annars vegar stuðst við úttekt Jafnréttisráðs á ofbeldisefni í sjónvarpi í septembermánuði síðastliðnum þannig að þar eru á ferðinni raunveruleg dæmi af ofbeldiskvikmyndum eða auglýsingum á ofbeldiskvikmyndum í kvikmyndahúsum eða á myndböndum sem sýnd voru í sjónvarpi á Íslandi þennan tiltekna dag í september síðastliðnum. Það er einnig um að ræða raunveruleg dæmi þar sem nefndir eru tölvuleikir eða leiktæki sem eru í umferð á Íslandi og sýna ýmsa allhrottafengna hluti. Það eru nefnd dæmi sem styðjast því miður við raunverulegar athuganir t.d. á möguleikum barna til að fá leigðar kvikmyndir á myndbandaleigum þó þær séu bannaðar jafnvel innan 16 ára og samkvæmt lögum eigi slíkt ekki að geta gerst.

Ég vísa til þess hér, herra forseti, ef menn hefðu áhuga á því að reyna að setja sér það fyrir sjónir hvernig sólarhringur, kannski ekki dæmigerður sólarhringur, en hvernig sólarhringur gæti verið í lífi t.d. tíu, tólf ára grunnskólabarns á Íslandi í ljósi alls þess framboðs á ofbeldisefni og allra þeirra möguleika sem mönnum standa til boða í þeim efnum. Það má segja að stór hluti sólarhringsins gæti verið undirlagður af nálægð við slíkt efni ef svo bæri undir í formi leikja, áhorfs á kvikmyndir og annað því um líkt.

Það fer ekki hjá því, herra forseti, að fjölmargar spurningar vakni þegar þessum málum er velt fyrir sér. Fyrst kemur auðvitað sú spurning: Hvað á að gera? Eða kannski: Á eitthvað að gera? Er þetta óumbreytanlegur hluti af nútímanum sem við fáum enga rönd reist við?

Það er að sjálfsögðu skoðun okkar tillögumanna að svo sé ekki. Því hér eru að sjálfsögðu mannasetningar á ferð eins og í svo mörgum öðrum sambærilegum tilvikum. Þetta er hluti af því samfélagi sem við mennirnir búum til en kemur ekki utan frá í formi einhverra óviðráðanlegra örlaga sem okkur eru dæmd. Við getum ekki, að okkar mati, horft aðgerðalaus upp á það að sívaxandi ofbeldi gegnsýri allt umhverfi okkar og barnanna okkar. Jafnvel þótt vísindalegar sannanir liggi ekki fyrir í einstökum tilvikum um samhengi vaxandi ofbeldis í samfélaginu og þessa þáttar, þ.e. aukins framboðs á ofbeldisefni, enda erfitt um vik, þá réttlætir það ekki að láta skeika að sköpuðu.

Menn slógu því á frest að takast á við mengunina í líklega ein 20 ár t.d. hvað varðaði súra rigningu vegna þess að það væri ekki nægjanlega vísindalega sannað hvernig samhengi t.d. útblásturs frá iðnaði í Bretlandi og meginlandi Evrópu og sýrumengunar í vötnum í Skandinavíu væri háttað. Og í 20 ár þvældust Bretar fyrir í því máli. Hvernig? --- Með því að segja að það væri ekki fullnægjandi og vísindalega nákvæmlega sannað í einstökum atriðum hvernig samhengið væri á milli iðnaðarmengaðs lofts frá suðvestur Evrópu og vatnadauðans í Skandinavíu. Á meðan dóu vötnin.

Við viljum væntanlega ekki láta það gerast hér að við fljótum sofandi að feigðarósi með þeim rökum að hér séu ekki vísindalegar sannanir í einstökum atriðum fyrir hendi, enda ekki um auðsannanlega hluti að ræða þegar félagslegt eða mannlegt atferli á í hlut. En það eru mjög sterk rök sem benda til orsakasambands og fylgni milli aukins framboðs ofbeldisefnis og ofbeldishegðunar. Vaxandi glæpatíðni í samfélögunum víða um heim kallar líka á að brugðist sé við. Við teljum að við eigum ekki að sætta okkur við það að tilvera okkar og umhverfi séu fyllt ljótleika og ofbeldi og slíkir hlutir gegnsýri allt afþreyingarefni og ýti öðru til hliðar.

Við erum að sjálfsögðu litlir, Íslendingar, og ráðum litlu um heimsmarkaðinn en við getum sjálf sett okkur reglur. Við getum haldið fram meðvitaðri stefnu um að takmarka ofbeldisefnisflauminn og tala fyrir henni á norrænum vettvangi, alþjóðlega o.s.frv.

Það má hugsa sér ýmislegt í sérstakri framkvæmdaáætlun til að draga úr framboði ofbeldisefnis svo sem eins og það í fyrsta lagi að setja strangar reglur um sýningartíma efnis sem bannað er börnum.

Það ætti að sjálfsögðu tvímælalaust að banna auglýsingar á efni sem ekki er leyft til sýninga fyrir alla aldurshópa nema þá, ef það er leyft yfir höfuð, seint í kvölddagskrá sjónvarpsstöðva. Einnig á undan efni í kvikmyndahúsum sem leyft er til sýninga fyrir alla. Ég get ekki látið hjá líða, herra forseti, að lýsa megnustu óánægju minni með það að þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar til sjónvarpsstöðvanna og þrátt fyrir umræður hér á Alþingi og þrátt fyrir svör ráðherra þá sækir sífellt í sama horfið á nýjan leik, að sjónvarpsstöðvarnar sýna og auglýsa ofbeldisefni á hvað tíma dagsins sem er. Það er fullkomlega ólíðandi að þær skuli hunsa þannig lög í landinu, svo sem eins og ákvæði samkeppnislaga um vernd barna og unglinga fyrir skaðlegum áhrifum auglýsinga.

[15:30]

Ég sé ekki annað en eitthvert foreldri, e.t.v. sá sem hér stendur ef ekki rætist fljótlega úr, eigi þann kost einan eftir að fara í mál við sjónvarpsstöðvarnar og reyna að knýja þær til þess að fara að lögum og kann vel að vera að svo verði innan tíðar.

Í þriðja lagi mætti hugsa sér að aðgöngumiðar á kvikmyndir og útleiga á myndböndum sem sýna ofbeldisefni bæru sérstakt viðbótargjald. Það væri einfaldlega haft dýrara inn á slíkar myndir eða útleigu slíkra myndbanda bæru sérstakt viðbótargjald sem síðan væri hægt að verja til fræðslu og forvarnastarfs á viðkomandi sviði.

Í fjórða lagi þarf að stórefla kvikmyndaskoðun og bæta aðstöðu barnaverndaryfirvalda og löggæslu til eftirlits, sbr. 9. gr. laga um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum, laga nr. 47/1995.

Í fimmta lagi þarf að framfylgja ströngum reglum um að kvikmyndir séu ekki sýndar eða myndbönd leigð út eða afhent öðrum en þeim sem aldur hafa til að horfa á viðkomandi efni. Ég veit sannarlega dæmi þess að 10--11 ára börn hafa gengið inn á myndbandaleigur og með þeirri einföldu útskýringu að þau væru að sækja myndband fyrir fullorðna heimilismenn labbað út án athugasemda með kvikmynd sem var bönnuð innan 16 ára.

Í sjötta lagi þarf að framfylgja ströngum reglum um að aðgangur að leiktækjum sem hafa ofbeldisefni á boðstólum sé samkvæmt lögum. Á því er því miður, fullyrði ég, misbrestur að aðgangur að t.d. leikjasölum sé takmarkaður eins og vera ber samkvæmt lögum.

Í sjöunda og síðasta lagi en ekki síst þarf að beina, eða mér liggur við að segja því miður, þarf að hefja og taka upp fræðslustarf í þessum efnum, og beina því að foreldrum jafnt sem börnum og öllum öðrum sem hér geta lagt málinu lið, þar sem hvatt er til þess að virða aldursmörk og takmarka áhorf á ofbeldismyndum eða aðgang að öðru ofbeldisefni. Við þekkjum það væntanlega öll sem eitthvað höfum komið nálægt uppeldi barna að það er afar erfitt að framfylgja reglum ef þær eru ekki virtar af leikfélögum eða umhverfinu almennt. Þar af leiðandi skiptir skilningur og meðvitund almennings, allra foreldra og uppalenda miklu máli hér.

Við flutningsmenn erum þeirrar skoðunar að brýnt sé að koma þessu máli á dagskrá og til skoðunar hjá yfirvöldum uppeldis- og menntamála, fjölmiðla, félagsmála og heilbrigðismála og annars staðar þar sem ástæða er til og þá auðvitað ekki síst eins og áður sagði meðal almennings og fjölskyldna í landinu.

Sem fylgiskjal með þessari tillögu er dreift ágætri samantekt sem er úr skýrslu umboðsmanns barna um ofbeldi í sjónvarpi frá því í október 1996. Þetta er hluti af stærri skýrslu þar sem gerð var úttekt á ofbeldisefni í sjónvarpi í september sl. eins og áður sagði.

Við leggjum svo til, herra forseti, í tillgr. að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að undirbúa áætlun um aðgerðir til að draga úr framboði efnis þar sem ofbeldi er sýnt í einhverju formi. Sérstaklega verði athygli beint að hvers kyns efni eða athöfnum sem líklegt má telja að börn eða unglingar verði fyrir áhrifum af.

Áætlunin miði m.a. að því að takmarka eins og kostur er:

a. hvers kyns ofbeldi, misþyrmingar, limlestingar og manndráp í myndefni sjónvarpsstöðva, kvikmyndahúsa og á myndböndum,

b. tölvuleiki, leiktæki og leikföng sem byggja á ofbeldi,

c. ofbeldi á tölvunetum,

d. ofbeldi í sýndarveruleikatækjum,

e. ofbeldisefni í bókum, blöðum og tímaritum,

f. annað efni eða athafnir þar sem ofbeldi er hafið til vegs, réttlætt eða dýrkað, þar sem ástæðulausar eða tilgangslausar ofbeldisathafnir eru sýndar eða ofbeldi yfirleitt án listræns eða fræðandi gildis,

g. aðgengi barna og unglinga að ofbeldisefni.

Forsætisráðherra skipi nefnd með fulltrúum allra þingflokka til að vinna með viðkomandi ráðuneytum, stofnunum og samtökum að gerð framkvæmdaáætlunar um aðgerðir á þessu sviði, þar með talið fræðslu, sem lögð verði fyrir Alþingi í formi þáltill.

Að lokinni þessari umræðu, herra forseti, leyfi ég mér að leggja til að till. verði vísað til hv. allshn. en ég hygg að það liggi beinast við að hún fái viðfangsefni þessarar tillögu til umfjöllunar. Vissulega mætti færa fyrir því rök að hún gæti einnig átt annars staðar heima, en mér sýnist eðlilegast að tillögunni verði vísað til hv. allshn. og síðari umr.