Alþjóðasamþykkt um starfsfólk með fjölskylduábyrgð

Þriðjudaginn 18. mars 1997, kl. 14:07:30 (4573)

1997-03-18 14:07:30# 121. lþ. 92.7 fundur 199. mál: #A alþjóðasamþykkt um starfsfólk með fjölskylduábyrgð# þál., Flm. RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[14:07]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hefði vísast farið með stöku ef mér væri það gefið, en þetta litla sem ég reyni í þingveislunum er þess eðlis að ég mundi aldrei fara með það í ræðustól Alþingis.

Virðulegi forseti. Ég er afskaplega ánægð að heyra það að málið sé komið á það stig að þess sé að vænta að ráðherra leggi fram stjtill. um að fullgilda þessa samþykkt. Ég tel að með því að flytja þetta mál í tvígang og hafa reynt við það þar áður sé ríkisstjórn búin að vinna þannig með það og ýta þannig á að það sé að bera árangur. Ég vek athygli þingmanna á því að þannig er það oft sem hlutverk okkar þingmanna skilar sér í framkvæmdum, að við hreyfum við málunum, ekki bara einu sinni og ekki bara tvisvar, færum fyrir því rök og vinnum bæði í þingsal og í nefndarstarfi með rök og ástæður fyrir því að málið eigi að hafa framgang. En það er oft pólitískt veikt fyrir viðkomandi ríkisstjórn að þingmenn nái því í gegn og þess vegna endar það þannig að sama málið kemur inn aftur sem stjtill. og er þá samþykkt af öllum aðilum. Þá vitum við það í hjarta okkar að við höfum náð árangri í máli sem skiptir máli fyrir heildina og að við eigum í þessari tillögu þó stjórnartillaga sé. Ég er því afskaplega ánægð að heyra þetta.

Aðeins varðandi það sem ráðherrann kom inn á áðan að vel hefði tekist að semja um tilskipun Evrópusambandsins um vinnutíma. Í sumar tekur gildi tilskipun sem verður mjög mikilvæg í þessu efni sem er tilskipun um foreldraorlof sem kveður á um að foreldri eigi rétt á nokkrum mánuðum til viðbótar hefðbundnu fæðingarorlofi í landinu. 1. júlí í sumar tekur sú tilskipun Evrópusambandsins gildi hjá okkur og þá mun reyna á ráðherrann að bera það í þingsal ef það fer ekki í hefðbundna samninga á milli aðila vinnumarkaðarins. Það er nöturlegt, virðulegi forseti, fyrir það fólk sem hefur barist fyrir því að staðið sé að alþjóðasamningum, eins og við höfum viljað, að það góða í sumum félagslegum málum skuli þurfa að koma að utan, bæði gegnum EES og ILO-samþykktir, að við höfum ekki möguleika og burði til að setja þessi lög sjálf fyrir fólkið í landinu af eigin hvötum, að við skulum þurfa að hundskast til þess þegar tillögur hafa borist hingað inn á borð í gegnum þessa samninga.