Uppgjör á vangoldnum söluskatti

Þriðjudaginn 18. mars 1997, kl. 16:27:43 (4606)

1997-03-18 16:27:43# 121. lþ. 92.12 fundur 438. mál: #A uppgjör á vangoldnum söluskatti# frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[16:27]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér hér með að mæla fyrir frv. um uppgjör á vangoldnum söluskatti, stjfrv., 438. mál þingsins og er að finna á þskj. 747. Ég vil gera nokkra grein fyrir þessu frv. en vísa að öðru leyti til greinargóðra athugasemda og fylgiskjala með frv.

Tilgangur þessa frv. er að gera þeim sem enn skulda skatta frá árunum fyrir 1990 kleift að gera þá upp með greiðslum og skuldabréfum. Eftirstöðvar skatta frá þessum tíma eru ekki miklar og má reikna með að þær séu þegar að mestu tapaðar. Í skýrslu minni um afskriftir af skattskuldum sem lögð var fyrir 120. löggjafarþing var boðað að til athugunar yrði að þeim gjaldendum sem enn eru í vanskilum af þessum toga yrði gefinn kostur á að gera þær upp með sérstökum samningum. Í því efni þyrfti að athuga sérstaklega dráttarvexti af skuldum þessara aðila með tilliti til þess að hluti af þeim sem um er að ræða voru dráttarvextir að raungildi miklu hærri en síðar varð og nú er. Þegar allt er lagt saman, söluskattur, launaskattur og opinber gjöld frá tekjuárinu 1989 og fyrr, þá verða það samtals 1.492 millj. kr. Þar af er upphaflegur höfuðstóll 478 millj. kr., dráttarvextir 995 millj. kr. eða helmingi hærri upphæð og innheimtukostnaður er 19 millj kr. Í greinargerðinni, athugasemdunum er því lýst hvernig þetta skiptist á milli gjaldflokka og einstaklinga og lögaðila og vísa ég til þess. En um 75% skuldakrafnanna eru í bú sem tekin hafa verið til skiptameðferðar. Fjárnám hefur verið gert til tryggingar á um 20% krafnanna til viðbótar án þess að enn hafi komið til skipta.

Í frv. er gert ráð fyrir að skuldurum þessara krafna verði gefinn kostur á skuldbreytingu þeirra. Verði skuldbreytingin miðuð við höfuðstól skuldanna með vöxtum sem miðist við 2% til viðbótar við hækkun vísitölu neysluverðs. Skuld sem staðið hefur óhreyfð frá miðju ári 1989 til miðs árs 1996 yrði samkvæmt þessu 60% hærri en upphaflegur höfuðstóll í stað þess að hafa vaxið um 271% með dráttarvaxtareikningi. Gert er ráð fyrir að innborganir sem komið hafa á tímabilinu verði meðhöndlaðar með sama hætti, þ.e. á þær verði reiknaðir sömu vextir og þær komi þannig til frádráttar frá uppreiknuðum höfuðstól. Ekki er útilokað að í einstaka tilviki verði uppreiknaðar innborganir hærri en uppreiknuð skuld og telst skuldin þá að fullu greidd en mismunur verður ekki til greiðsu og ég legg áherslu á þetta fyrir hv. þm.

Í frv. er gert að skilyrði að skuldin sé ekki tilkomin vegna endurákvörðunar skattyfirvalda eða vegna skattsvika þannig að það er undanþegið að sjálfsögðu.

Til að fara fljótt yfir sögu þá er gert ráð fyrir því að í þeim tilvikum sem útsvar og aðstöðugjald eru hluti vangoldinna opinberra gjalda er gert að skilyrði fyrir skuldbreytingu að viðkomandi sveitarfélag hafi fallist á samsvarandi skuldbreytingu á útsvarinu og aðstöðugjaldinu. Með skuldbreytingu eins og frv. gerir ráð fyrir verður hins vegar unnt að hreinsa verulega til í innheimtukerfinu með því að fella út skuldir vegna skatta sem ekki eru lengur lagðir á og mjög gamlar skattaskuldir. Enn fremur verður komist hjá fjölda tilgangslítilla innheimtuaðgerða og gjaldþrotaskipta sem litlu skila í ríkissjóð en hafa í för með sér kostnað og fyrirhöfn fyrir innheimtuaðila og skuldara. Í þessu efni vísa ég til umræðna sem orðið hafa á þingi um þessi mál, en hv. þingmenn hafa einmitt sýnt þessu máli sérstakan áhuga á undanförnum árum og kallað eftir lagafrv. sem hér er nú til 1. umr.

Í 1. gr. frv. er um að ræða almennt ákvæði. Í 2. gr. er bent á að ef ekkert fjárnám hefur verið gert þá er ekki gerð krafa um veð eða ábyrgð, en ef fjárnám hefur verið gert verður sama veð notað.

Í 3. gr. er fjallað um endurreikning á vöxtum, í 4. gr. um skilmála, greiðslur, tíma o.fl. og í 5. gr. er kveðið á um það hvernig að uppgjöri skattaskulda með skuldabréfi verði háttað.

Virðulegi forseti. Greinargerðin og fylgiskjölin með þessu frv. eru skýr. Ég hygg að hv. alþm. hafi kynnt sér málið mjög vel og um það sé mikil og góð samstaða hér í þinginu. Það er mín tillaga að frv. verði sent til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.